Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 10:47:37 (3833)

1999-02-18 10:47:37# 123. lþ. 69.2 fundur 523. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[10:47]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna þessu frv. til laga um kosningar til Alþingis. Það er tímabært að það komi fram á hv. Alþingi og að við bætum úr lögum um kosningar sem var orðið ábótavant. Hins vegar finnst mér það mjög miður að þetta mál skuli vera að koma til 1. umr. svo seint á þinginu og eins og kom fram í máli ráðherrans að vegna kosninganna í vor verði lögin að verða til eftir um það bil þrjár vikur eða minna en þrjár vikur. Enn á ný erum við að lenda í tímaþröng með mikilvæg mál sem mjög brýnt er að vanda til vinnunnar við og er ég þá ekki að kasta rýrð á það hvernig málið hefur verið undirbúið í nefnd á vegum dómsmrh.

Herra forseti. Ég vek líka athygli á því að í dag, fimmtudaginn 18. febrúar, eru sjö mál á dagskrá fundarins. Þau eru mörg hver stór og mikilvæg. Ég nefni þar jafnréttislög, Ég nefni frv. um háskólana fyrir utan þetta frv. um kosningar til Alþingis. Þessi mál eru öll til 1. umr. í dag og það má eiginlega gera ráð fyrir því að hver af ráðherrunum sem bera fram þessi mál sé með væntingar um að þau verði afgreidd og gerð að lögum fyrir þinglok sem eru fyrirhuguð fyrir 10. mars. Það eru mjög fáir starfsdagar eftir af þinginu. Þetta finnst mér alvarlegt og vera umhugsunarefni.

Ég vil líka taka það fram af því að ég kom í sal beint af fundi hjá forseta þingsins að ég hafði að sjálfsögðu hugsað mér að taka þátt í umræðu hér um lög um eftirlit með útlendingum sem dómsmrh. mælti fyrir í upphafi þingfundar þar sem ég hef sýnt þeim málum mjög mikinn áhuga og hef mjög oft borið fram fyrirspurnir til ráðherra þar að lútandi. En mál gengu hér svo hratt fyrir sig að ég náði ekki þeirri umræðu.

Herra forseti. Þetta var inngangur að annars mjög stuttri ræðu minni um málið sjálft.

Fyrir ári síðan fjölluðum við á Alþingi um lög um kosningar til sveitarstjórna. Þá var verið að taka lögin um kosningar til sveitarstjórna út úr sveitarstjórnarlögunum. Það var ágætis gjörð og tímabær en þá ræddum við það í félmn. hversu mikilvægt væri að ræða þessi lög samhliða breytingum á lögum um kosningar til Alþingis. Það væri flókið að vera með lög um kosningar til sveitarstjórna og lög um kosningar til Alþingis og hætta væri á því þegar fjallað væri um þessi lög hvor á sínum tímanum af hálfu Alþingis og hvor í sinni nefnd Alþingis að þar yrði misræmi sem væri óþarfi fyrir okkur að hafa nema í þeim tilvikum sem það þyrfti að vera vegna ólíkra stjórnsýslustiga.

Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að á þeim tíma sem félmn. fjallaði um lög um kosningar til sveitarstjórna var reyndar haft samband og samráð eins og unnt var miðað við að lög um kosningar til Alþingis falla undir annað ráðuneyti en það sem félmn. fjallar um. Haft var samráð við fulltrúa dómsmrn. og reynt að leita eftir því hvaða breytingar væru fyrirhugaðar á lögunum um kosningar til Alþingis þannig að okkur væri unnt að reyna að skipa málum þannig að á þessum lögum yrði sem minnst misræmi. Ekki var farið að óskum sumra okkar um að bíða með að breyta lögunum um kosningar til sveitarstjórna þannig að það yrði fjallað um þessi tvenn lög á sama tíma og samráð haft þar um á Alþingi og talið mjög mikilvægt að ljúka breytingunum á lögum um kosningar til sveitarstjórna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í fyrravor. Þess vegna kemur nú þetta frv. um kosningar til Alþingis fyrir þingið og verður að afgreiðast hratt.

Herra forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að reynt sé að hafa einhvers konar samráð, ef það er unnt, um þessar breytingar og skoðun á því hvort í raun og veru sé ástæða til þess að gera breytingar á nýsettum lögum um kosningar til sveitarstjórna til samræmis ef það eru atriði í þessum tvennum lögum sem eru ólík. Ég get bent á eitt atriði sem hér var fjallað mikið um á síðasta ári, en það var hvenær lögheimilisskráning gildir um hvar einstaklingur eigi kosningarrétt. Í lögunum um kosningar til sveitarstjórna var sú skráning miðuð við þrjár vikur fyrir kjördag. Og nú þegar ég skoða þetta frv. dómsmrh. þá er það sama á döfinni að búið er að samræma þennan frest á skráningu lögheimilis og hvenær viðkomandi fær kosningarrétt í viðkomandi kjördæmi. Þetta finnst mér mjög mikilvægt. Það var flókið og ruglingslegt að ólíkar reglur giltu um þennan rétt í sambandi við kosningar til sveitarstjórna og Alþingis. Þetta er eitt af því sem þegar hefur verið samræmt.

Hér kom mjög þörf ábending fram frá hv. 12. þm. Reykn., Kristínu Halldórsdóttur, og ég tek undir það sem hún sagði. Það er þetta með barnsburð. Hann gerir nú ekki mikil boð á undan sér. Það er orðið þannig að nútímakonan er orðin svo frísk að ef hún fæðir barn á sjúkrahúsi fer hún gjarnan heim strax næsta dag og er kannski til þess til fær við sérstakar aðstæður að fara af heimilinu og þar með á kjörstað. En það væri þá fyrst og fremst á þessum sólarhring sem konan fæðir barnið sem hún þarf að eiga þennan rétt, eða á fyrstu tveim sólarhringunum, að geta kosið í heimahúsi, þ.e. ef hún þarf að halda kyrru fyrir þegar hún kemur heim. Þess vegna eru þessir fjórir dagar í fyrirvara nokkuð ankannalegir við þær aðstæður. Ég tek undir þessar ábendingar.

Ég á ekki sæti í þeirri nefnd sem fær frv. til umfjöllunar og mun ekki eiga þess kost að fylgjast með nema í gegnum fulltrúa minn í nefndinni. Flestar þær breytingar sem tilgreindar eru hér sem helstu breytingar í frv. á bls. 30 finnst mér vera til bóta og sú rýmkun sem á sér stað, ekki síst varðandi atkvæðagreiðslur erlendis. Það hefur verið mjög mismunandi hvaða kost fólk sem býr erlendis hefur á að nota kosningarrétt sinn og mér finnst þessi rýmkun sem þar er getið um skipta miklu máli. Ég vil spyrja dómsmrh. nánar út í það að verið er að tala um að utankjörfundaratkvæðagreiðsla erlendis fari fram á öðrum stöðum en í skrifstofum sendiráða, fastanefndar eða ræðisnefnd og að tilnefndir verði sérstakir kjörstjórar í þessu skyni. Ég beini þeirri spurningu til ráðherrans hvort að í þessari rýmkun felist að það verði hægt að kjósa á fleiri stöðum í hverju landi erlendis en hingað til hefur verið vegna þess að í mörgum tilfellum hefur verið mjög mikið mál fyrir fólk sem býr erlendis að nota kosningarréttinn. Það hefur þurft að fara í langt ferðalag, annaðhvort með flugi eða í margra daga ferð til að geta notað kosningarrétt sinn. Þýðir þessi rýmkun að það eigi að setja upp sérstaka kjörstjóra á mörgum stöðum í þeim löndum þar sem margir Íslendingar eru búsettir?

Herra forseti. Því miður hafa verið að koma mörg mjög mikilvæg frumvörp fram allra síðustu daga og við erum í miklum önnum í þinginu þannig að okkur þingmönnum er alls ekki mögulegt að vera búin að lesa þessi frumvörp jafngaumgæfilega og við kysum og það gildir um þetta mál. Ég hefði gjarnan viljað hafa farið mjög gaumgæfilega yfir það en ég hef ekki átt þess kost. Þess vegna spyr ég hæstv. dómsmrh., af því að ég þykist vita að í dómsmrn. hafi verið höfð hliðsjón af lögunum um kosningar til sveitarstjórna: Getur ráðherrann upplýst mig um einhver sérstök tilvik í þessu frv. þar sem væntanleg lög verða öðruvísi en sveitarstjórnarlögin fyrir utan það sem sjálfsagt er varðandi þessi ólíku stjórnsýslustig? Mér þætti vænt ef ráðherrann gæti upplýst um það. Að öðru leyti vona ég að okkur verði unnt að ljúka umfjöllun um þetta stóra mál fyrir utan önnur sem hér bíða afgreiðslu. Ég hef af því nokkrar áhyggjur að ráðherrann skuli ekki hafa náð því að koma með þetta frv. fyrr vegna þess að þegar við fjölluðum um lagafrv. um kosningar til sveitarstjórna fyrir ári síðan í félmn. þá var ekki annað að skilja en þessi vinna væri komin vel í gang og það ætti að vera unnt að koma með þetta frv. fram á haustþinginu. Það er umhugsunarefni að þessi stóru mál komi svo seint fram að við getum ekki tekið þann tíma í umfjöllun um þau sem brýnt er.