Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 11:14:11 (3839)

1999-02-18 11:14:11# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[11:14]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um raforkuver, nr. 60/1981, með síðari breytingum, sem er á þskj. 776. Frv. þetta er flutt til að afla lagaheimildar fyrir nýjum virkjunum, annars vegar vegna aukinnar raforkuþarfar á almennum markaði og hins vegar vegna stóriðjuframkvæmda sem líklegt er að ráðist verði í á næstu árum.

Í frv. er lagt til að Landsvirkjun verði veitt heimild til að reisa og reka tvær vatnsaflsvirkjanir, annars vegar Vatnsfellsvirkjun, með allt að 110 megavatta afli og hins vegar Búðarhálsvirkjun, með allt að 120 megavatta afli.

Undirbúningur þessara virkjunarkosta er langt kominn og því er talin ástæða til að afla lagaheimilda fyrir þeim til að tryggja grundvöll fyrir lokaáföngum undirbúningsvinnunar. Þessir kostir eru í senn hagkvæmir, bæði í byggingu og rekstri, og áhrif þeirra á umhverfi og aðra landnýtingu fremur lítil.

[11:15]

Þá er lagt til að iðnrh. verði veitt heimild til að veita Rafmagnsveitum ríkisins, eða félagi með aðilum í Skagafirði sem þær eiga hlutdeild í, leyfi til að reisa og reka Villinganesvirkjun með allt að 40 megavatta afli en sú heimild er bundin við Landsvirkjun samkvæmt núgildandi lögum. Virkjunarheimild þessi hefur því áður verið samþykkt á Alþingi og hér er aðeins lögð til breyting á virkjunarleyfishafa. Þessi breyting á virkjunaraðila er lögð til með hliðsjón af breyttum áherslum stjórnvalda í raforkumálum sem lúta m.a. að því að raforka frá nýjum virkjunum nýtist fyrst þeim byggðarlögum þar sem hún er unnin.

Í frv. er tekið fram að veiting leyfa sé háð mati á umhverfisáhrifum og því að uppfyllt séu skilyrði annarra laga. Þá getur ráðherra sett nánari skilyrði fyrir virkjunarleyfi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir óbreyttri skipan við veitingu virkjunarleyfa fyrir þær þrjár virkjanir sem til umfjöllunar eru. Í því felst að Alþingi ákveður hvaða aðilum skuli veitt leyfi til að nýta tilgreinda virkjunarkosti en ráðherra sé heimilt að veita þeim endanlegt virkjunarleyfi þegar skilyrði eru uppfyllt. Rétt þykir í þessu sambandi að fjalla um líklegar breytingar á þessari skipan í tengslum við breytingar á heildarskipulagi raforkumála.

Á síðasta löggjafarþingi var lögð fram tillaga til þingsályktunar um framtíðarskipan raforkumála. Þar voru gerðar tillögur um stefnumörkun í raforkumálum og áfanga að breytingum sem miðuðu að því að skapa skilyrði til aukinnar samkeppni í vinnslu og sölu raforku. Í tillögunni var sérstaklega kveðið á um að móta yrði að nýju skilyrði fyrir veitingu virkjunarleyfa sem m.a. taki til öryggis og áreiðanleika raforkukerfisins, landnýtingar og umhverfismála, eðli vatnsorkunnar og jarðvarmans sem og tæknilegrar og fjárhagslegrar getu umsækjanda.

Til grundvallar þessum fyrirhuguðu breytingum liggur m.a. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði orkumála. Samkvæmt ákvæðum hennar skal tilskipunin vera komin til framkvæmda í ríkjum sambandsins 19. febrúar nk., en Belgía og Írland hafa frest í eitt ár til viðbótar og Grikkland í tvö ár. Tilskipunin hefur hins vegar ekki enn verið formlega afgreidd samkvæmt EES-samningnum. Við meðferð málsins hafa íslensk stjórnvöld m.a. óskað eftir hliðstæðum fresti og Grikkland til að laga íslenska löggjöf að tilskipuninni.

Ég tel heimildirnar sem lagt er til að setja í lög samræmast vel ákvæðum tilskipunarinnar. Í því efni verður að líta til þess að Vatnsfellsvirkjun og Búðarhálsvirkjun eru á vatnasviði núverandi orkuvera Landsvirkjunar á Þjórsársvæðinu og nátengdar þeim. Að því er Villinganesvirkjun varðar er einungis um breytingu á virkjunaraðila að ræða.

Frumvarp til nýrra raforkulaga er nú í smíðum og er stefnt að því að unnt verði að leggja það fyrir Alþingi til kynningar á þessu þingi. Í frumvarpinu verður kveðið á um nýja skipan við veitingu virkjunarleyfa.

Ekki er unnt að bíða með að heimila veitingu virkjunarleyfa samkvæmt þessu frumvarpi þangað til nýrri skipan við veitingu virkjunarleyfa hefur verið komið á samkvæmt framansögðu, enda nauðsynlegt að skapa grundvöll til frekari undirbúnings þessara virkjana og framkvæmda til að tryggja að unnt sé að mæta aukinni raforkuþörf á næstu árum.

Samkvæmt endurskoðaðri spá orkuspárnefndar er gert ráð fyrir að orkueftirspurn almenns markaðar muni aukast næstu árin um 60--70 gígavattstundir á ári að jafnaði.

Auk aukinnar orkuþarfar almenna markaðarins á næstu árum þarf að gera ráð fyrir að sala til starfandi stóriðjufyrirtækja aukist umtalsvert og að ný fyrirtæki hefji rekstur. Gera má ráð fyrir að tekin verði ákvörðun um stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga um 30 þús. tonn á næstu missirum, en í starfsleyfi og mati á umhverfisáhrifum er miðað við allt að 120 þús. tonna stækkun þess.

Rætt hefur verið um stækkun Járnblendiverksmiðjunnar, um einn ofn eða jafnvel tvo ofna. Þar sem framangreindir kostir eru á Suðvesturlandi er eðlilegt að gera ráð fyrir að þessu aukna afli og orkuþörf verði að mestu mætt með virkjunum á Suður- og Suðvesturlandi, enda verði þannig dregið úr þörf fyrir flutningslínur um hálendi landsins og umhverfissjónarmið þar af leiðandi höfð að leiðarljósi.

Samkvæmt núgildandi lögum um raforkuver er óráðstafað að hluta heimildum Alþingis fyrir Landsvirkjun. Í fyrsta lagi er ráðherra samkvæmt lögum um raforkuver heimilt að veita leyfi til allt að 330 megavatta virkjunar í Jökulsá í Fljótsdal en leyfi ráðherra frá 1991 tekur til 210 megavatta virkjunar. Í öðru lagi er heimilt að stækka Sigölduvirkjun í allt að 200 megavatta afl, en virkjunin er 150 megavött núna. Í þriðja lagi er heimilt að stækka Hrauneyjafossvirkjun í allt að 280 megavatta afl, en hún er nú 210 megavött. Í fjórða lagi er heimild til 310 megavatta virkjunar við Búrfell, en hún er 280 megavött eftir stækkun.

Fljótsdalsvirkjun hentar best orkumarkaði á Austurlandi. Að öðrum kosti yrði að leggja flutningslínur yfir hálendið til Suðurlands. Stækkun Sigölduvirkjunar og Hrauneyjafossvirkjunar var fyrst og fremst hugsuð sem hagkvæm lausn til að mæta reiðuaflsþörf raforkukerfisins, en orkugeta kerfisins eykst lítið með stækkun þeirra nema aðrennsli til Tungnaár verði aukið.

Þá er óráðstafað 16 megavöttum til Nesjavallavirkjunar, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga um raforkuver, og hluta af opinni heimild til að reisa og reka jarðvarmavirkjanir til raforkuframleiðslu skv. 4. mgr. 1. gr. laganna. Mestur hluti þeirrar heimildar verður nýttur vegna endurnýjunar raforkuverðsins í Svartsengi.

Til þess að gera Landsvirkjun kleift að halda áfram viðræðum um aukna orkusölu, m.a. til Norðuráls hf. á næstu mánuðum og til að fjórði ofn járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga geti orðið að veruleika er því bæði tímabært og nauðsynlegt að afla heimilda Alþingis fyrir virkjunum við Vatnsfell og Búðarháls. Báðar þessar virkjanir eru á aðalvirkjunarsvæði Landsvirkjunar, falla vel að rekstri fyrirtækisins og hafa tiltölulega lítil áhrif á náttúrulegt umhverfi og landnýtingu.

Vatnsfellsvirkjun mun nýta fall milli Þórisvatns og Sigölduvirkjunar. Miðað er við að virkjunin verði um 90 megavött. Hins vegar er endanleg stærð virkjunar venjulega ekki ákveðin fyrr en að loknum nákvæmum athugunum eftir að tilboð í mannvirki og búnað liggja fyrir og fyllri upplýsingar um raforkumarkaðinn. Áætlað er að orkugeta raforkukerfisins aukist um allt að 430 gígavattstundir á ári með byggingu Vatnsfellsvirkjunar. Heildarkostnaður án virðisaukaskatts fyrir 90 megavatta virkjun er áætlaður um 8.600 millj. kr. á verðlagi í janúar 1998. Framkvæmdatími er áætlaður um þrjú ár. Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar var send til skipulagsstjóra í desember 1998. Gert er ráð fyrir að úrskurður hans liggi fyrir næstu daga.

Búðarhálsvirkjun nýtir rennsli Tungnaár og Köldukvíslar neðan Hrauneyjafossvirkjunar að Sultartangalóni. Verkhönnun virkjunarinnar er að mestu lokið. Miðað er við að virkjunin verði um 100 megavött. Hins vegar er endanleg stærð virkjunar venjulega ekki ákveðin fyrr en að loknum nákvæmum athugunum eftir að tilboð í mannvirki og búnað liggja fyrir og einnig upplýsingar um raforkumarkað. Aflið getur þess vegna breyst og orðið allt að 120 megavött. Áætlað er að orkugeta raforkukerfisins aukist um allt að 520 gígavattstundir á ári með byggingu Búðarhálsvirkjunar. Heildarkostnaður án virðisaukaskatts fyrir 100 megavatta virkjun er áætlaður um 12.400 millj. kr. á verðlagi í janúar 1998. Framkvæmdatími er áætlaður þrjú til fjögur ár. Miðlunarlón virkjunarinnar mun ná yfir eyrar Köldukvíslar og Sporðöldukvíslar. Flatarmál lónsins verður um 7 km2 og flatarmál gróðurs, sem fer undir lón verður um 1 km2. Helstu veitumannvirki verða neðan jarðar. Röskun á landi við gerð mannvirkja verður því haldið í lágmarki. Unnið er að skýrslu um mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Þess er að vænta að skýrsla um matið verði send til skipulagsstjóra fyrri hluta þessa árs.

Árið 1977 kom út skýrsla á vegum Orkustofnunar um verkhönnun virkjunar Héraðsvatna í Skagafirði við Villinganes. Þar er gert ráð fyrir 30 megavatta virkjun með áætlaða 180 gígavattstunda orkuframleiðslu á ári. Virkjunin er sem næst hrein rennslisvirkjun. Heildarkostnaður er áætlaður 4.185 millj. kr. án virðisaukaskatts á verðlagi í janúar 1998. Gert er ráð fyrir að endurskoða hönnun Villinganesvirkjunar á næstunni en framfarir í jarðgangagerð, verktækni o.fl. geta haft áhrif á útfærslu hennar. Þá er nauðsynlegt að meta umhverfisáhrif virkjunarinnar og svo verður þrátt fyrir að virkjunaraðili hefði í dag heimild til framkvæmda vegna þess að virkjunarleyfi er gefið út fyrir þann tíma er lög um mat á umhverfisáhrifum tóku gildi. Frv. gerir ráð fyrir því að viðkomandi virkjun þurfi að fara í mat á umhverfisáhrifum. Gert er ráð fyrir að liðlega eitt ár fari í frekari undirbúning fyrir Villinganesvirkjun og framkvæmdir við hana taki tvö og hálft til þrjú ár.

Herra forseti. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. er iðnaðarráðherra heimilað að veita Landsvirkjun leyfi til að reisa og reka tvær vatnsaflsvirkjanir, Vatnsfellsvirkjun með allt að 110 megavatta afli og Búðarhálsvirkjun með allt að 120 megavatta afli.

Í 2. mgr. 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að Rafmagnsveitum ríkisins eða félagi sem þær eiga aðild að ásamt heimamönnum verði veitt heimild til að reisa og reka Villinganesvirkjun.

Í 3. mgr. 1. gr. er kveðið á um að áður en ráðherra gefur út virkjunarleyfi á grundvelli heimilda samkvæmt greininni skuli liggja fyrir mat á umhverfisáhrifum. Þá er enn fremur gert ráð fyrir að leyfi samkvæmt öðrum lögum þurfi að liggja fyrir. Má sem dæmi nefna að virkjunarleyfi á þjóðlendu eru háð leyfi forsætisráðherra, sbr. ákvæði laga um þjóðlendur. Loks er iðnaðarráðherra veitt heimild til að setja nánari skilyrði fyrir virkjunarleyfum.

Í 2. gr. er lagt til að fellt verði brott ákvæði til bráðabirgða I, um tiltekna orkuöflun í tengslum við samningaviðræður við Atlantal-aðilanna um álver sem Alþfl. hafði hvað mestan áhuga á hér á sínum tíma en sem kunnugt er hefur ekki orðið af framkvæmdum við þau álver sem Alþfl. talaði um að byggja. (Gripið fram í: Hver var það í Alþfl.?) Herra forseti. Nú veit ég það ekki. Ég hugsa að hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sé kannski best kunnugt um það hver í Alþfl. lagði ofuráherslu á byggingu þessara iðjuvera sem aldrei risu en blekkti þjóðina með kosningaloforðum á sínum tíma. Þar held ég að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi jafnvel farið fremstur í flokki.

Með lögum nr. 74/1990 var fellt brott ákvæði laga um raforkuver frá 1981 og þingsályktunar um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu, sem samþykkt var á Alþingi 6. maí 1982 með vísun til laganna, þess efnis að Fljótsdalsvirkjun skyldi verða næsta stórvirkjun á eftir Blönduvirkjun. Þess í stað er lögð áhersla á að röð framkvæmda skuli ráðast af væntanlegri nýtingu orkunnar þannig að tryggt verði hæfilegt jafnvægi orkuframboðs og eftirspurnar á sem hagkvæmastan hátt. Það varð fyrst endanlega ljóst að Fljótsdalsvirkjun yrði ekki næsta stórvirkjun á eftir Blönduvirkjun þegar orkuöflunarframkvæmdir vegna stækkunar á álverksmiðju Ísals í Straumsvík hófust seint á árinu 1995.

Í samræmi við bráðabirgðaákvæði laganna miðast undirbúningur og áætlanir Landsvirkjunar við að Fljótsdalsvirkjun gæti orðið næsta virkjun á eftir Blönduvirkjun þar til undir árslok 1995. Ástæðurnar fyrir því að sú ákvörðun var tekin eru tvær.

Í fyrsta lagi af umhverfisástæðum. Það er ekki ástæða til að virkja bara til að virkja eins og stefnumörkun þáv. hæstv. iðnrh., núv. hv. alþm. Hjörleifs Guttormssonar, gekk út á --- að virkja bara til að virkja. Nú hefur orðið breyting þar á. Nú munu menn fyrst og fremst virkja til að nýta orkuna til verðmæta- og atvinnusköpunar í landinu þegar slík tækifæri gefast.

Í öðru lagi var af umhverfisástæðum tekin sú ákvörðun að byggja ekki háspennulínur fyrir 30 milljarða kr. þvert yfir hálendi landsins til að flytja orku frá Austurlandi yfir á Suðurland eins og áætlanir Alþfl. gengu út á á sínum tíma, með byggingu álvers á Keilisnesi. Frá þessari óheillavænlegu stefnu hefur nú verið fallið og önnur leiðarljós höfð við þá sem nú liggur fyrir.

Um 3. gr., herra forseti. Lagt er til að við gildistöku laganna falli niður heimild Landsvirkjunar til að reisa og reka Villinganesvirkjun samkvæmt lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983. Það er til samræmis við fyrirhugaða breytingu skv. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.