Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 11:51:39 (3841)

1999-02-18 11:51:39# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[11:51]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Í meginatriðum held ég að sá sem hér stendur og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson séu sammála í þeirri langtímastefnumörkun sem menn horfa á í orkumálum. Eins og hv. þm. kom inn á er unnið á mjög mörgum sviðum að því að móta þá stefnu og gera breytingar á þeim áformum sem uppi hafa verið um langa tíð. Ég fór yfir nokkur þeirra atriða í framsöguræðu minni, fyrir utan það að menn eru líka með stefnumótun og vinna að því að koma inn nýjum orkugjöfum sem eru framtíðarorkugjafar, og þá tek ég undir það með hv. þm. að þar er auðvitað nauðsynlegt að við höfum vatnsorkuna og jarðvarmann til reiðu til þess að geta staðið undir þeim nýju orkuverum sem þarna um ræðir. Þó er það ekki allt sem við erum sammála um því staðreyndin er sú að við þurfum að nýta orkulindir okkar á fjölbreytilegan hátt. Það er ekki hægt að stíga fram og halda því á lofti að það sé bara hægt á einn hátt og ég vonast til að við getum verið sammála um það. En meginástæðan fyrir að ég stóð upp í þessu andsvari var að mér þykir miður að hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, skuli gleðjast yfir því einmitt hér og nú að hugsanlega séu þau áform út af borðinu sem uppi hafa verið um nýtingu orkulindanna norðaustan Vatnajökuls til hagsbóta fyrir fólkið á Austurlandi til búsetuþróunar og atvinnutækifæra. Það er ekki rétt hjá hv. þm. að þetta hafi verið slegið af og flugufregnir um það í fjölmiðlum, norskum blöðum, eða fregnir sem hv. þm. kann að hafa innan úr fyrirtækinu, sem allar eru óstaðfestar, er varla hægt að bera á borð fyrir hið virðulega Alþingi. Staðreyndin er sú að ákvörðun um þetta verður ekki tekin fyrr en í júní eða júlí á þessu ári, og ég veit að hv. þm. getur fengið það staðfest hjá Norsk Hydro að þessi verkefni eru enn í skoðun milli íslenskra stjórnvalda og Norsk Hydro og ákvarðanir um áframhald og frekari fjárfestingar af hálfu fyrirtækisins verða ekki teknar fyrr en um mitt þetta ár.