Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 11:54:08 (3842)

1999-02-18 11:54:08# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[11:54]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Við verðum að skoða hlutina í heildarsamhengi. Við verðum að líta á Ísland allt í samhengi orkumálanna. Ég ræði þessi mál ekki út frá viðhorfum frá einu kjördæmi, ég er að reyna að líta á þessi mál út frá heildarsamhengi íslensku þjóðarinnar og framtíðar hennar. Varðandi hugmyndir núv. hæstv. ráðherra og þann leik sem hefur verið leikinn gagnvart Austfirðingum að undanförnu, að fara í svonefndar viðræður við Norsk Hydro um að koma upp 500 þús. tonna álbræðslu á Austurlandi, sem kallar á meira en 7 teravattstundir í orku, af kannski 25 teravattstundum sem þjóðin hefði í heild til umráða, er slíkt óráð, slík fjarstæða í þjóðhagslegu samhengi og einnig í umhverfislegu samhengi og hvað varðar staðsetningu í þeim ágæta firði, Reyðarfirði, að ætla að fara að setja slíkt fyrirtæki niður, að ég hef góða samvisku af því að tala gegn slíkum órum. Fyrir nú utan að á bak við þetta eru bara leiktjöld. Það sem menn hafa verið að gera milli íslenskra stjórnvalda og Norsk Hydro er að skoða þessi mál óbundið af staðsetningu. Jú, það er sagt, við viljum gjarnan skoða Reyðarfjörð í leiðinni. Hæstv. ráðherra hefur sjálfur sagt okkur það í þingskjali að þetta sé ekki bundið við Reyðarfjörð. Það vitum við auðvitað. Norsk Hydro kann að koma einn góðan veðurdag og segja, okkur líst nú bærilega á Keilisnes og þá er komið að því sem hann var að kenna krötunum um áðan, í umræðu. Málið er svona og þetta sjá allir nema þrengsta forusta Framsfl. sem er að reyna að halda uppi þessum leiktjöldum fram yfir kosningar og lætur ráðuneytisstjóra undir sér hafna því að þetta breyti nokkru um og það verði fyrst í júnílok sem sviðið ljúkist upp, hvort þarna verði lagt í fjárfestingu eða ekki. Það er hægt að reyna að bera ýmislegt á borð en við skulum ekki ræða hlutina á þessum grundvelli.