Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 11:56:30 (3843)

1999-02-18 11:56:30# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[11:56]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. ætti að vera sallarólegur ef þetta væru allt saman leiktjöld sem menn væru með í höndunum. Staðreyndin er hins vegar sú að menn eru í formlegum og alvarlegum viðræðum við þetta norska fyrirtæki. Það er hins vegar ekki rétt og skýtur dálítið skökku við þegar hv. þm. heldur því fram að þarna sé einvörðungu um leiktjöld að ræða en hefur svo miklar áhyggjur af því að byggja eigi 500 þús. tonna álbræðslu í Reyðarfirði. Staðreyndin er sú að þessa stundina ganga viðræðurnar út á byggingu á 120 þús. tonna álveri staðsettu á Austurlandi. Hv. þm. á ekki að reyna að vera að villa mönnum sýn með að það geti hugsanlega risið einhvers staðar annars staðar. Það er ekki svo. Það er skýr afstaða ríkisstjórnarinnar að næsta bygging nýs stóriðjuvers verður utan suðvesturhorns landsins. Fyrir því eru alveg skýr rök sem eru þessi: Virkjanlegt afl á Tungnaár-Þjórsársvæðinu á samkeppnisfæru verði eru 4.700 gígavattstundir. Þau áform sem uppi eru um stækkun iðjuvera á suðvesturhorni landsins kalla á 3.800 til 4.000 gígavattstundir. Með öðrum orðum, við höfum ekki möguleika á því að afla raforku nema í þessar stækkanir því það er stefna ríkisstjórnarinnar að flytja ekki orkuna landshorna á milli, heldur að nýta orkuna þar sem orkuauðlindirnar eru staðsettar og það er meginbreytingin í stefnumörkun frá fyrri ríkisstjórnum þar sem menn voru uppi með hugmyndir um, jafnvel í ríkisstjórn þar sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sat, að flytja vatnsorkuna og orkulindirnar í raun og veru landshornanna á milli eins og áform Alþfl. gengu út á, að fjárfesta í háspennulínum þvert yfir hálendi Íslands, stórkostleg umhverfisspjöll upp á 30 til 40 milljarða kr. Þessi áform hafa öll sömul verið slegin af.