Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 11:58:41 (3844)

1999-02-18 11:58:41# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[11:58]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg stórmerkilegt að heyra hér málflutning hæstv. iðnrh. sem gengur gegn öllum þeim upplýsingum sem berast til landsins í sambandi við leiksýninguna sem tengist Norsk Hydro. Hæstv. ráðherra ætlar að reyna að halda því til streitu að ákvarðana sé að vænta um fjárfestingu á miðju þessu ári meðan fyrirtækið hefur slegið á frest öllum sínum meiri háttar framkvæmdaáætlunum á Trínidad og einhvers staðar. Þetta er kallað í Noregi ,,i tåkeheimen``, úti í þokunni, úti í móðu fjarskans sem einhver hugsanleg álbræðsla á Íslandi kæmi til greina. Þetta er 120 þús. tonna álver, við lesum það í grg. með því frv. sem hæstv. ráðherra var að mæla fyrir að það er aðeins hluti af stærri heild sem Norsk Hydro hefur verið boðið upp á, 500 þús. tonn, 480 þús. tonn, nákvæmlega talið. Bara hluti í því púsluspili. Halda menn í alvöru að Norsk Hydro fari í fjárfestingu upp á þetta austur á landi? Halda menn það? Ég hef aldrei látið mér detta það í hug að þeir mundu leggja í slíkt og þannig er þetta mál andvana fætt eins og ég met hlutina og tel mig sæmilega læsan á samhengi álframleiðslu almennt séð. Ég hef þurft að sitja yfir þeim málum nokkuð lengi vegna tillagna sem fram hafa komið um það.

Við eigum að líta á þessi mál út frá þjóðhagslegu samhengi og þá m.a. það sem fyrir liggur um næstu stóriðjukosti núv. ríkisstjórnar. Það er ekki álbræðsla á Austurlandi, það eru leiktjöld. Nei, það er stækkun núverandi stóriðjufyrirtækja á suðvesturhorni landsins. Er einhver munur á því hvort menn eru að bæta við 40 þús. tonnum í Straumsvík plús 120 þús. tonnum í Hvalfirði og leika sér með að það sé bara stækkun þeirra fyrirtækja sem nú eru? Það er auðvitað ígildi mjög stórs álvers samanlagt, 160 þús. tonn, sem hér er verið að leita heimilda fyrir að fá að virkja í þágu þessa, þvert á loftslagssamninga og þvert á heilbrigða skynsemi með útsölu á orkunni.