Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 12:01:28 (3845)

1999-02-18 12:01:28# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[12:01]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Raforkuiðnaður hér á landi býr við sovétskipulag svo sem eins og stærsti hluti atvinnulífsins og nefni ég þar sjávarútveg, fjármálamarkaðinn og landbúnað. Við höfum verið að feta okkur hægt og varlega, afar hægt og afar varlega út úr þessu sovétskipulagi á undanförnum áratugum. Ég minni á það í þessu sambandi að eignir raforkuiðnaðarins eru svipaðar og eignir allrar útgerðarinnar á Íslandi og raforkuiðnaðurinn er allur í eigu opinberra aðila.

Þeir sem hafa trú á samkeppni og frelsi vilja náttúrlega sjá þetta breytast og við vonumst til að þetta muni breytast. Þetta skipulag hefur verið að brotna upp undanfarið vegna breyttra viðhorfa og aðildar okkar að EES og er það vel. Auk þess hafa komið upp tilmæli frá Suðurnesjamönnum og Vestfirðingum, svo dæmi séu nefnd, um að fá að virkja með eigin virkjunum í samkeppni við þetta opinbera kerfi, en reyndar frá opinberum aðilum.

Herra forseti. Það sem við ræðum hér er hefðbundið. Fyrsta efnismálsgreinin er ákaflega hefðbundin. Þarna á fyrirtækið Landsvirkjun, sem er 50% í eigu ríkisins, 45% í eigu Reykjavíkurborgar og 5% í eigu Akureyrarbæjar að fá að reisa einhverjar tvær virkjanir, án þess að borga fyrir það. Þannig hefur þetta verið gert hingað til og menn hafa svo sem ekkert verið að hugsa neitt mikið út í það. Samt er það sannanlegt að það hefur orðið feiknarleg eignamyndun hjá Landsvirkjun, feiknarleg, og nánast út úr engu. Eigendurnir hafa ekkert lagt fram í Landsvirkjun og eignamyndunin hefur orðið til m.a. vegna einokunar á raforku. Landsvirkjun hefur bara hreinlega ákveðið raforkuverðið, reiknað út hvað hún þarf og þá með allt of stuttri afskrift á virkjunum. Það hefur líka orðið mikil eignamyndun vegna skattfrelsis og vegna ríkisábyrgðar á lánum.

Hér hefur því orðið mikil eignamyndun. Ég get svo sem glaðst fyrir hönd kjósenda minna í Reykjavík því að mér sýnist að eignarhlutur þeirra í Landsvirkjun sé um 100 þúsund kr. á hvern einasta íbúa í Reykjavík. Það er svo sem ágætt fyrir Reykvíkinga. En ef ég væri fulltrúi landsbyggðarinnar þá mundi ég hugsa öðruvísi. Þessi eignamyndun er búin til á grundvelli laga og opinberrar forsjár.

Herra forseti. 2. efnismgr. er breyting. Þar stendur:

,,Þá er iðnaðarráðherra heimilt að veita Rafmagnsveitum ríkisins`` --- það er hefðbundið --- ,,eða félagi með aðilum í Skagafirði sem þær eiga aðild að leyfi til að reisa og reka virkjun Héraðsvatna við Villinganes í Skagafirði (Villinganesvirkjun) með allt að 40 megavatta afli.``

Þarna er verið að veita félagi með aðilum í Skagafirði einhverjar heimildir, þ.e. ef þeir ná samkomulagi við Rarik um að vera aðili. Það stendur ekkert um það hvað Rarik á að vera stór aðili. Það getur verið með 1% í félaginu.

Nú gæti ég að sjálfsögðu flutt lögheimili mitt til Sauðárkróks og leigt þar herbergi og gerst þannig aðili í Skagafirði. Ég gæti stofnað fyrirtæki og ég get reynt að fá Rarik til þess að koma inn í þetta fyrirtæki með 1% hlut. Ég get meira að segja gefið þeim þann hlut ef því er að skipta. Þar með er ég kominn með heimild til þess að virkja í Villinganesi.

Spurningin er hvað gerist ef tveir slíkir aðilar koma fram, eða fleiri? Hvernig ætlar iðnrh. að leysa úr þeim vanda og taka jafnframt tillit til jafnræðisreglunnar? Mér sýnist að ef slíkt gerist þá muni hann þurfa að bjóða upp. Hann mun þurfa að bjóða upp þessa aðstöðu, þessa virkjunaraðstöðu sem ég nefndi þarna áðan að hefði gefið Landsvirkjun feiknarlega eignamyndun, og það er alveg ný hugsun sem gæti komið upp. Ég vil benda á þetta vegna þessa ákvæðis.

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. hefur boðað frv. um raforkumál og þar eru þessi vandamál sem ég hér nefndi að miklu leyti leyst því þar á að koma á samkeppni, þar á að koma á einkavæðingu og þar á að losa raforkuiðnaðinn undan þessu sovétskipulagi sem hefur ríkt hér á landi í áratugi, frá upphafi nánast, og hefur örugglega valdið því að þessi iðnaður er miklu verr rekinn en ella væri. Það er a.m.k. trúa mín.

Vandamálið við það frv. er að Landsvirkjun er með 93% af allri raforkuframleiðslu í landinu þannig að nauðsynlegt er að skipta Landsvirkjun upp. Ég hygg að það muni vera nauðsynlegt að skipta henni upp í þrjá hluta og stofna þess vegna Búrfell hf. og Sultartanga hf. o.s.frv. Ég sé engin vandkvæði við það.

Herra forseti. Þessar virkjanir sem hér er verið að heimila munu hafa töluverð áhrif á efnahagslífið. Við höfum undanfarið staðið í miklum framkvæmdum, feiknarmiklum opinberum framkvæmdum í samráði við erlenda aðila við virkjanir. Þetta hefur aukið atvinnu í landinu og bundið mörg hundruð manns við vinnu á hálendinu þannig að þetta hefur skapað mikla atvinnu í landinu og á sennilega mikinn þátt í því góðæri sem við búum nú við. Allar þessar virkjanir eru að klárast og því er mjög brýnt að einhverjar virkjanir taki við þannig að við þurfum ekki að treysta eingöngu á byggingar verslunarmiðstöðva hérna í Reykjavík til að halda uppi góðærinu næstu eitt eða tvö ár.

Herra forseti. Hér hefur nokkuð verið rætt um umhverfisáhrif virkjana. Hér áður fyrr voru grafnir skurðir eftir fjallshryggjum sem var ákaflega ljótt að sjá og mikið lýti að. Nú eru virkjanir orðnar ákaflega snyrtilegar. Jarðgöng eru boruð, stöðvarhúsin eru neðanjarðar. Það sést nánast ekki neitt. Það eina sem gerist er að árfarvegir sem áður voru fullir af vatni tæmast að einhverju leyti, ekki þó að öllu leyti. Þessi umhverfisáhrif eru því miklu minni en áður var.

Það hefur líka verið rætt um að við séum að brjóta ákvæði Kyoto-samningsins um loftslagsbreytingar. Þar vil ég bæta því við sem ég hef margoft nefnt að hér er verið að ræða um hreina orku. Ég býst við því að umheimurinn muni nánast kalla á það að Íslendingar framleiði sem mest af hreinni orku í stað þess að menn séu að framleiða orku úti í heimi sem veldur miklu meiri mengun en sú orka sem hér er framleidd. Auk þess er þessi orka notuð til þess að búa til ál sem er notað til þess að létta bifreiðar m.a. og kemur þar af leiðandi í veg fyrir mengun sem þungir bílar valda. Ég sé því ekki annað en að umheimurinn muni kalla á Íslendinga að virkja sem allra mest af þessari hreinu orku. Ef maður lítur á alla heimsbyggðina þá er ákaflega skynsamlegt að Íslendingar virki en ekki aðrar þjóðir.

Herra forseti. Ég vildi rétt aðeins koma inn á 3. efnismgr. þar sem stendur, með leyfi forseta:

,,Veiting leyfa skv. 1. og 2. mgr. er háð niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum og því að uppfyllt séu skilyrði annarra laga.``

Nema hvað? Ég verð alltaf svo hissa þegar það stendur í lögum að önnur lög eigi að gilda. Ég veit ekki betur en að lög á Íslandi eigi að gilda almennt þannig að ég sé ekki hver þörfin er á því að taka þarna sérstaklega fram að önnur lög skuli gilda.