Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 12:12:30 (3847)

1999-02-18 12:12:30# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[12:12]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi mig í ræðu minni áðan einmitt hafa komið inn á þetta vegna þess að ég sagði að ef ég flytti lögheimili mitt til Sauðárkróks þá væri ég orðinn aðili í Skagafirði. Þannig gæti ég farið í kringum þetta ákvæði. Ég var einmitt að benda á það.

Auðvitað er þetta hluti af sovétskipulaginu. Menn eiga að virkja á Villinganesi vegna þess að það er hagkvæmt. Það er eina ástæðan fyrir menn að virkja þar. Ekki til þess að auka atvinnu í Skagafirði. Ég býst við því að verktakar sem koma til með að vinna við þessa virkjun muni koma af öllu landinu. Það vill nú svo til að allt landið er orðið eitt atvinnusvæði. Og þeir munu jafnvel koma frá Evrópu. Það er því ekki endilega víst að þessi virkjun auki neitt vinnu fólks í Skagafirði, nema þá að menn kaupi sér kannski rúnnstykki í Varmahlíð á leiðinni suður.