Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 12:33:59 (3850)

1999-02-18 12:33:59# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[12:33]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Af því að mér er tiltölulega hlýtt til hæstv. iðnrh. þá verð ég að fara með hið fornkveðna: Dramb er falli næst. Hæstv. iðnrh. á ekki að falla í sömu gryfju og ýmsir kollegar hans og tala af hroka til meðbræðra sinna í landinu.

Hæstv. ráðherra heldur því fram að ég hafi ekki kynnt mér stefnu hans í orkusparnaði. Ég sagði einmitt í ræðu minni að hæstv. ráðherra og aðrir hefðu verið að tala um orkusparnað. Við höfum meira að segja rætt það hér í þinginu. En þess gætti ekki þegar menn læsu þessa greinargerð. Þegar menn eru t.d. að velta fyrir sér aukinn raforkuþörf vegna uppsveiflu í efnahagslífinu þá hef ég a.m.k., og það getur verið fáviska mín, hvergi séð að menn reikni inn í það afrakstur orkusparnaðar.

Meginhluti máls míns um þetta var svo hins vegar að ég þóttist skynja að hæstv. ráðherra væri sammála hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um að það þyrfti að taka frá jafnvel virkjunarkosti sem hefðu neikvæð áhrif á umhverfið til þess að geta staðið undir framleiðslu á t.d. mengunarlausu eldsneyti sem ekki væri af jarðefnistoga.

En ég tel að röksemdafærslan sem hér lýtur að málmbræðslunni gangi í allt aðra átt og það var fyrst og fremst það sem ég átti við.