Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 12:35:16 (3851)

1999-02-18 12:35:16# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[12:35]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Í þessum orðum mínum fólst enginn dómur yfir hv. þm. Það getur komið fyrir alla að hafa ekki kynnt sér þingskjöl og lesið nægjanlega vel heima. Ég er ekkert að álasa mönnum fyrir að hafa ekki gert það. Og af því ég veit að hv. þm. situr ekki einu sinni í iðnn. þingsins þá er ég síður en svo að álasa hv. þm. fyrir þetta. Ég ætla því að láta útrætt um þann þátt málsins.

Annað atriði sem mig langar til að koma hér inn á snýr að Norsk Hydro. Við verðum bara að sjá til hvað út úr þeim samningaviðræðum kemur. Það er í engu hægt að jafna saman Norsk Hydro á Reyðarfirði eða Atlantsál, þar sem menn voru með tómar flugeldasýningar, undirskriftir á ,,memorandum of understanding`` og alls konar pappírum. Þáverandi hæstv. iðnrh. var með þannig flugeldasýningar rétt í aðdraganda kosninga 1991 og svo var aftur mjög svipað upp á teningnum 1995. Það var reyndar ekki sami ráðherrann. Það eru engar slíkar flugeldasýningar núna. Bíðum og sjáum til hvað kemur út úr þessu. Það hefur verið staðfest af stjórnendum þess fyrirtækis, þ.e. Norsk Hydro, að formlegar viðræður eru enn í gangi milli íslenskra stjórnvalda og þess fyrirtækis um hugsanlega byggingu álvers á Reyðarfirði. Það mun síðan koma í ljós um mitt ár hvort af þeim áformum verður eða ekki. Það hafa engar fullyrðingar af minni hálfu heyrst um að svo verði.