Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 12:44:15 (3858)

1999-02-18 12:44:15# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[12:44]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur lagt það í vana sinn að koma í þennan stól þegar við ræðum um gróðurhúsaáhrifin og halda því fram að í þeim efnum sé jörðin flöt. Allir, ég held að allir helstu málsmetandi vísindamenn sem tengjast loftslagsfræðum séu annarrar skoðunar en a.m.k. örlar á hjá hv. þm.

Hv. þm. kemur líka hérna og dregur úr nauðsyn þess að setja þurfi á mengunarskatta, en spyr samt sem áður hvort ég telji ekki að hægt sé að stjórna þessu með mengunarsköttum. Það tel ég nú ekki, en ég verð að viðurkenna það, herra forseti, að ég hef ekki hugsað það til hlítar.

Svo kemur hv. þm. og segir að stór hluti íslenskra vatnsfalla renni óbeislaður til sjávar án þess að hægt sé að nota þau til að framleiða gullið. Þannig verður það í framtíðinni. Stór hluti þeirra mun alltaf renna óbeislaður til sjávar vegna þess að við notum þau með öðrum hætti. Hv. þm. getur vafalaust reiknað það út hvað hann gæti grætt á því að virkja Gullfoss, en Gullfoss verður aldrei virkjaður.