Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 12:47:53 (3861)

1999-02-18 12:47:53# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[12:47]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ágætt mál og gleðjast yfir því að við skulum vera sammála um meginþættina í því sem ég ræddi. Fjölmargir þættir sem lúta að orkumálum hafa breyst mjög mikið. Menn þurfa ekki annað en líta til endurnýjanlegra orkulinda, til kjarnorkunnar og hvað þar hefur verið að gerast. Stórfelldar breytingar hafa orðið í alþjóðlegum viðhorfum og hér á Íslandi jafnframt.

Mér var kunnugt um það, frá viðræðum sem við áttum saman á sl. vori þegar farið var yfir stjórnmálastöðuna og samskipti þeirra flokka sem við höfum verið fulltrúar fyrir, að hv. þm. hafði þessi sjónarmið og ég gladdist mjög yfir því. Mér þykir vissulega lakara að sá flokkur sem ég heyri að sé að verða að þingflokki í dag, kannski er það formaður þingflokksins væntanlega sem ég tala hér til, þingflokks samfylkingarinnar, væri ekki búið að ganga frá þeirri stefnu sem hv. þm. talar hér fyrir. Ég vona að hv. þm. hafi þar forustu og geti leitt fram þá stefnu sem hann talaði fyrir.