Raforkuver

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 12:49:43 (3862)

1999-02-18 12:49:43# 123. lþ. 69.3 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[12:49]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Í sjálfu sér ekki miklu að bæta við þá ágætu umræðu sem átt hefur sér stað almennt um orkumál. Ég tek undir mjög margt af því sem hér hefur komið fram. Viðhorfin hafa breyst nokkuð og þegar þau breytast þurfa menn að taka mið af því.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði mig nokkura spurninga og nú er hann farinn úr salnum. Það kann að vera svo að hann hafi ekki áhuga á að hlusta á svörin en ég sé að hann kemur aftur í hliðarsali. Áður en ég svara vil ég taka fram að mér finnst það ekki vel gert, sem örlaði örlítið á í ræðu hv. þm. Hann gerði tilraunir til að rugla þá sem á umræðurnar hlusta í ríminu. Staðreyndin er sú að þegar menn tala um Kyoto, um nýja orkugjafa eins og vetnið og þar fram eftir götunum, þá ræða menn jafnframt um að það þurfi ekkert að virkja. Þeir sem harðast berjast fyrir því að koma öllum þeim áformum sem uppi eru um að draga úr losun gróðurhúsalofttegundanna ættu að vera hörðustu stuðningsmenn að virkjana á Íslandi, ef menn vilja horfa á það í alþjóðlegu samhengi. Það gæti dregið úr notkun á jarðefnaeldsneyti og þeim orkugjöfum í heiminum sem hafa slíka losun í för með sér.

Hins vegar er engin sátt um að fara út í hvaða virkjunarkost á Íslandi sem er. Ég hef verið talsmaður þess að nú verði farið mjög rækilega ofan í hvaða virkjunarkostir séu hagkvæmir út frá breyttum viðhorfum og hvaða aðrar leiðir við getum farið til þess að nýta sömu virkjunarkosti í fullkominni sátt við náttúruna. Þetta starf er að fara af stað á vegum iðnrn. í samvinnu við fleiri aðila. Ég vonast til þess að ekki seinna en núna um mánaðamótin geti ég kynnt hvernig að því verði staðið.

Þeir sem tala harðast í Kyoto horfa á jörðina, ekki flata heldur hnöttótta eins og ég heyrði að hv. þm. Össur Skarphéðinsson vildi gera sem eðlilegt er, enda er það staðreynd. Það ætti því að vera helsta baráttumál viðkomandi þingmanns að leggja kapal frá Íslandi til meginlands Evrópu til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í Evrópu. Til þess að hann væri samkvæmur sjálfum sér væri þetta eðlilegasta viðhorfið. Þetta er hins vegar ekki viðhorf sem ég treysti mér til þess að berjast fyrir. Þessi áform hef ég kannski ekki slegið út af borðinu en þau eru afar langt undan, langt í framtíðinni. Með sömu viðhorfum og uppi eru núna, öllum varnaðarorðum varðandi hálendi Íslands, er hægt að slá þessi áform öll út af borðinu. En þetta væri stórt framlag okkar til þessa mikilvæga máls.

Á sama tíma og menn segja: Það er gott að taka upp nýja orkugjafa eins og vetnið, þar er stigið stórt skref, þá verða menn líka að vera tilbúnir til að spyrja: Hvar ætlum við að virkja? Það þýðir ekki að setja punktinn þar á eftir. Það er gott að vera með þá stefnu að taka upp nýja orkugjafa en ætla ekkert að virkja. Staðreyndin er, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson fór yfir áðan, að ef við ætlum að útrýma allri jarðefnaeldsneytisnotkun á Íslandi, þá þyrftum við sennilega að nýta langleiðina allt okkar vatnsafl.

Ég er ekki trúaður á það að slík breyting gangi fram með þessum hætti. Ég hef því sagt: Við eigum að nýta orkulindir okkar á sem fjölbreytilegastan hátt en skynsamlega í sátt við manninn og náttúruna, með nýtinguna að leiðarljósi. Þeir sem kvarta undan stefnuleysi iðnrh. verða því að horfa á málið í svolítið víðara samhengi vegna þess að ég fullyrði að stefnan er skýr, frá rannsóknum yfir í nýtingu. Ég tel mikilvægt, í lok þessa þings, að það verði kannski lagt fyrir Alþingi nákvæmlega hver afstaða iðnrh. er til þessara mála. Það mun ég hugsanlega gera í skýrsluformi.

Til að svara spurningum hv. þm., af því að hv. þm. spurði um Fljótsdalinn, þá var áformað að frummatsskýrslan sem framkvæmdaraðilinn á að gera, í þessu tilfelli Landsvirkjun, yrði tilbúin um áramót eða í lok desember. Svo er ekki. Það hefur tekið lengri tíma að ganga frá frummatsskýrslunni en menn bjuggust við. Það kann að vera af hinu góða vegna þess að menn eru þá að skoða enn fleiri þætti og skýrslan verður þar af leiðandi vandaðri þegar þar að kemur. Á grundvelli þeirrar frummatsskýrslu er framkvæmdaraðilanum lögum samkvæmt skylt að skrifa og leggja fyrir upplýsingar um framhald málsins eins og hér hefur áður komið fram.

Hitt er svo annað mál að allir hafa leyfi til að skipta um stefnu. Stundum fara menn í heilan hring og stundum í hálfan eins og Alþfl. hefur gert. Hann hefur bara farið í 180 gráður, ekki bara í þessum stóriðju- og virkjunarmálum heldur líka í umhverfismálum.

Á vegum Alþfl. var frv. um mat á umhverfisáhrifum lagt fyrir Alþingi, á vegum þáv. ríkisstjórnar. Það var með góðum vilja Alþingis árin 1991--1995 sem þetta frv. var samþykkt. Ég tel að þetta frv. sé hið merkasta mál, þó það sé í endurskoðun núna og marga agnúa megi sníða þar af. En af hverju var ákveðið í því frv., sem Alþfl. lagði fyrir Alþingi, að verkefni eins og Fljótsdalsvirkjun skyldi undanþegið mati á umhverfisáhrifum? (ÖS: Þú ert búinn að svara því sjálfur.) Já, ég er búinn að svara því. En þeir sem stóðu að því að samþykkja þetta frv. á þessum tíma og töldu þá eðlilegt, af hverju hefur afstaða þeirra breyst? Það hefur raunverulega ekkert breyst frá árinu 1993, er þetta frv. var samþykkt, til þessa dags. Þá höfðu menn nákvæmlega sömu viðhorf og nú eru. Það var einfaldlega vegna þess sem margoft hefur verið sagt, að búið var að afhenda tilteknu fyrirtæki réttindin. Af þeirri ástæðu treystu menn sér ekki til þess að taka þessi réttindi af. Þess vegna er það í höndum fyrirtækisins að ákveða hvað gert verði við frummatsskýrsluna þegar hún verður tilbúin.