Jafnréttislög

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 14:03:44 (3876)

1999-02-18 14:03:44# 123. lþ. 69.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[14:03]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á þskj. 810 er frv. til jafnréttislaga. Það er þannig til komið að síðasta sumar skipaði ég nefnd og fól henni að endurskoða lög nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í nefndinni voru Árni M. Mathiesen alþingismaður, Elín R. Líndal, formaður Jafnréttisráðs, Elsa S. Þorkelsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisráðs, og Sigríður Lillý Baldursdóttir, skrifstofustjóri í félmrn., sem var formaður nefndarinnar.

Nefndin skilaði drögum að frv. sem hér er lagt fram.

Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru frá árinu 1991 en góðu heilli hafa á þeim skamma tíma orðið miklar breytingar á jafnrétti kynjanna í samfélaginu. Ekki svo að skilja að jafnrétti sé í höfn eða hafi aukist svo að draga beri úr skerpu laganna. Fremur hafa orðið verulegar breytingar á verkefnum og í aðferðafræði í jafnréttismálum frá því að núgildandi lög tóku gildi. Þrátt fyrir gildandi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hefur lítið miðað í jafnréttisátt á ýmsum mikilvægum sviðum samfélagsins. Ástæða þótti því til að taka úrræði stjórnvalda í jafnréttismálum til gagngerrar endurskoðunar, þ.e. stjórnsýslulega stöðu málaflokksins og efnisákvæði laganna.

Ríkisstjórnin einsetti sér að taka myndarlega á jafnréttismálum og frv. til jafnréttislaga sem hér er til umræðu er til marks um að það voru ekki orðin tóm. Frv. til jafnréttislaga ætti að geta stuðlað að auknum rétti kvenna á þeim sviðum sem á konur hallar. Einnig ætti það að styrkja rétt karla á þeim sviðum sem karlar hafa haft rýrari rétt. Ef að lögum verður munu þessi jafnréttislög standa vel undir nafni.

Í frv. er lögð áhersla á að jafnréttismál þurfi að vera viðfangsefni beggja kynja, enda hljóta bæði kynin að njóta góðs af auknu jafnrétti í samfélaginu. Fram til þessa hafa konur verið virkari í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna en undanfarin ár hafa karlar kvatt sér hljóðs og krafist réttar síns á eigin forsendum. Sú réttindabarátta styður baráttu kvenna fremur en að hún gangi gegn henni og mikilvægt að sú þróun sé styrkt með lagasetningu. Konum og körlum þarf að skapa jöfn tækifæri til að nýta krafta sína sjálfum sér og samfélaginu til góða. Mikilvægt er að ekki sé mismunað á grundvelli kynferðis. Í þessu sambandi er þó mikilvægt að hafa í huga að sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar og barnsburðar getur ekki talist mismunun kynjanna.

Við samningu frumvarpsins var sérstaklega hugað að skyldum sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist á grundvelli EES-samningsins. Þá voru alþjóðlegir sáttmálar, framkvæmdaáætlun Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var í Peking 1995 og norrænt samstarf í jafnréttismálum haft til hliðsjónar við gerð frv.

Helstu nýjungar frv. eru sérstaklega tíundaðar í athugasemdum með frv. Lagt er til að jafnréttismálin heyri áfram undir félagsmálaráðuneytið en sérhvert ráðuneyti skipi jafnréttisfulltrúa sem hafi umsjón með jafnréttismálum á málasviði síns ráðuneytis og verði tengiliður við félagsmálaráðuneytið. Þetta er gert til að styrkja jafnréttisstarf á öllum sviðum samfélagsins, enda varðar jafnrétti kynjanna alla málaflokka ef grannt er skoðað. Það er fjarri lagi að gert sé ráð fyrir að ráða þurfi nýja starfsmenn í ráðuneytin vegna þessa heldur mætti fela einhverjum núverandi starfsmanna ráðuneytanna verkefnið.

Lagt er til að Skrifstofa jafnréttismála, sem samkvæmt núgildandi lögum er skrifstofa Jafnréttisráðs og kærunefndar jafnréttismála, verði sérstök stofnun sem heyri undir félagsmálaráðuneytið og fái skilgreind verkefni. Meginbreytingin sem í þessu felst er að verkefnin sem samkvæmt núgildandi lögum eru á ábyrgð Jafnréttisráðs, sem skipað er fulltrúum hagsmunasamtaka og aðilum vinnumarkaðarins, verða falin stofnun til framkvæmda. Í ljósi þess að undanfarin ár hafa stjórnvöld í síauknum mæli ákveðið eða skuldbundið sig til að sinna ákveðnum verkefnum í jafnréttismálum þykir rétt að leggja til að jafnréttisstofnun stjórnvalda, Skrifstofa jafnréttismála, heyri beint undir ráðuneyti en sé ekki stjórnað af fjölskipaðri nefnd. Samkvæmt frumvarpinu flytjast verkefni Jafnréttisráðs til Skrifstofu jafnréttismála, sem auk þess fær skilgreint eftirlitshlutverk með framkvæmd laganna. Henni er sérstaklega ætlað að örva jafnréttisstarf karla og er enn fremur falið sérstakt sáttahlutverk í ágreiningsefnum sem skrifstofunni berast og varða ákvæði frumvarpsins.

Gert er ráð fyrir því að Jafnréttisráð sitji áfram, en í breyttri mynd og sinni öðrum verkefnum en nú. Hið nýja Jafnréttisráð verði vettvangur hagsmunasamtaka og þeirra sem vilja leggja sitt af mörkum við stefnumörkun og ráðgjöf í jafnréttismálum. Gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra skipi þrjá fulltrúa í ráðið að fengnum tilnefningum frá Háskóla Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands og Kvenréttindafélagi Íslands og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins. Þrír fulltrúar í Jafnréttisráði verði síðan kosnir á jafnréttisþingi sem félagsmálaráðherra boðar til annað hvert ár.

Lagðar eru til gagngerar breytingar á jafnréttisþingi, boðun þess, hve oft það kemur saman og á verkefnum. Lagt er til að félagsmálaráðherra boði til þingsins annað hvert ár og þingið kjósi þrjá fulltrúa í Jafnréttisráð. Þá er gert ráð fyrir að þingið fjalli um tillögu Jafnréttisráðs til ráðherra um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Jafnréttismál þurfa eðli máls samkvæmt í síbreytilegu samfélagi að vera til stöðugrar skoðunar og þess er vænst að breytt skipan jafnréttisþings verði til að gera jafnréttisumræðuna fjörugri, jafnframt því að vera vettvangur þar sem ráðherra og hagsmunahópar geta skipst á skoðunum.

Lagt er til að í stað kærunefndar jafnréttismála verði skipuð úrskurðarnefnd jafnréttismála sem kveða muni upp bindandi úrskurði. Þá eru meðferðarreglur úrskurðarnefndar skýrari og sönnunarreglur fyrir nefndinni þær sömu og fyrir dómstólum. Gert er mögulegt að úrskurðarnefndin geti í samráði við málshefjanda vísað málum til sáttameðferðar hjá Skrifstofu jafnréttismála. Í frumvarpinu er nýtt ákvæði um viðmið við mat á hæfni sem ætti að gera úrskurðarnefndinni og þeim sem til hennar leita auðveldara um vik að leggja mat á hvort um brot á lögum hafi verið að ræða. Ekki er gert ráð fyrir að úrskurðarnefndin, frekar en kærunefnd jafnréttismála, kveði upp úrskurði um bætur vegna fjártjóns eða miska. Sá sem vinnur mál fyrir úrskurðarnefndinni getur stefnt málinu fyrir dóm, krafist staðfestingar á úrskurðinum og grundvallað bótaábyrgð á honum. Sá sem tapar máli fyrir úrskurðarnefndinni getur, ef hann er ósáttur, krafist ógildingar á úrskurðinum og þar með fengið staðfest að hann hafi ekki gerst sekur um brot á jafnréttislögum. Úrskurðarnefndinni er ekki ætlað að standa að málshöfðun fyrir dómstólum eins og kærunefnd er ætlað samkvæmt núgildandi lögum.

Í frumvarpinu er lagt til að stjórnendum stofnana eða fyrirtækja þar sem fleiri en 25 manns starfa sé skylt að gera jafnréttisáætlanir sem taki m.a. til launa og almennra starfskjara.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs er viðfangsefni í norrænni samvinnu, hjá Evrópuráðinu, Evrópusambandinu og hjá Sameinuðu þjóðunum. Með auknum kröfum kvenna um að vera fullgildir þátttakendur í atvinnulífinu og kröfu karla til að fá að njóta fjölskyldulífs hefur jafnréttisumræðan tekið á sig nýja mynd sem gæti skilað okkur í átt til samfélags sem hentar báðum kynjum og tekur tillit til fjölþættra þarfa og langana þegnanna allra.

Í frumvarpinu er kynferðisleg áreitni skilgreind og skilgreindar ákveðnar skyldur atvinnurekenda og skólastjórnenda til að koma í veg fyrir hana, svo og hvernig staðið skuli að meðferð máls komi slíkt upp á vinnustað eða í skóla.

Menntamálaráðherra er í frumvarpinu gert að fara með mál er varða menntun eins og verið hefur, en auk þess félags- og íþróttastarf. Sérstaklega er kveðið á um rannsóknir í kynjafræðum og er það í fyrsta sinn sem slíkt er gert í lögum.

Ákvæði í íslenskri löggjöf um hlut kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum hafa verið mun veikari en annars staðar á Norðurlöndunum og hlutur kvenna í þessum efnum er verulega lakari hér. Í frumvarpinu er lagt til að skerpt verði á ákvæðinu en jafnframt að það taki ekki til félagasamtaka. Um er að ræða sérstakt átak og að tíu árum liðnum er gert ráð fyrir að ekki sé þörf á ákvæði sem þessu í jafnréttislögum.

Í frumvarpinu er sérstakt ákvæði um greiningu tölfræðiupplýsinga eftir kynjum. Og skerpt er á bannákvæðum gildandi laga varðandi kjör, ráðningu, vinnuskilyrði og brottrekstur.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari 1. umr. verði málið sent hv. félmn. til athugunar. Mér er ljóst að þetta mál er seint fram komið og áliðið þings en ég tel að hér sé um merkt og tiltölulega vel unnið frv. að ræða. Ég mundi fagna því mjög ef hv. félmn. treysti sér til að fjalla um það þannig að það hlyti afgreiðslu hér á þinginu fyrir þinglok.