Jafnréttislög

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 14:18:53 (3879)

1999-02-18 14:18:53# 123. lþ. 69.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[14:18]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér er vel kunnugt um að fulltrúum þingflokka stjórnarandstöðu var boðið að koma á fund nefndarinnar og koma með ábendingar við gerð þessa frv., koma í eina heimsókn á fund nefndarinnar. Það var viðhorf okkar nokkurra fulltrúa þriggja þingflokka að við töldum þetta ekki ásættanlegt. Við töldum að það góða hefði verið að við hefðum sest niður saman, fulltrúar allra stjórnmálaflokka, til að fjalla um þetta brýna mál. En úr því að þess var ekki óskað þá vildum við koma að málinu í þingstörfunum á þingi. Hitt var ekki fullnægjandi.

Nú er komið að því. Málið er komið inn á þing í þeim búningi sem ráðherra kaus. Nú mun koma að okkur að koma með ábendingar og tilmæli. Ef það er hrein ósk að hér verði unnið vel og saman að þessu máli og það afgreitt þá er ég alveg sannfærð um og geng fastlega út frá því að hlustað verði á okkar rödd í vinnunni hér og tekið tillit til ábendinga þeirra sem við köllum á fund, séu þær góðs viti, og að við munum vinna saman að breytingum á frv., ef þurfa þykir, og gera það í samvinnu hér í þinginu þó ekki næðist samvinna áður en frv. kom hingað inn. En þessi orð segi ég með mjög jákvæðum formerkjum, herra forseti.