Jafnréttislög

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 14:41:19 (3882)

1999-02-18 14:41:19# 123. lþ. 69.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[14:41]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Dapurlegt er að heyra fulltrúa Kvennalistans sáluga lýsa því yfir að staðan hafi ekkert batnað þrátt fyrir að Kvennalistinn hafi starfað í 20 ár og enginn árangur er af þessu mikla starfi. Sömuleiðis hafa öll lög og reglur verið fínkembd til að finna hvort einhvers staðar sé mismunun og ég held að hvergi sé að finna neina mismunun. Maður kynni jafnvel að halda þegar maður hlustar á hv. þm. að launamisréttið sem er búið að vera viðvarandi frá 13. öld eftir því sem hún gat um sé nánast náttúrulögmál í augum hennar.

Í huga mínum er það ekki náttúrulögmál. Eins og ég hef lýst því mörgum sinnum eru menn að ráðast á afleiðingu einhvers en ekki orsökina. Menn eru sem sagt að breyta hitamælinum þegar sjúklingurinn er með hita en ekki að finna út hvort hann er með kvef eða lungnasjúkdóm.

Ég spyr hv. þingmann: Verður hún ekki hugsi? Getur ekki verið að hún sé bara að ráðast á afleiðinguna en ekki orsökina? Getur ekki verið að grundvöllur allrar baráttunnar sé rangur?