Jafnréttislög

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 14:42:30 (3883)

1999-02-18 14:42:30# 123. lþ. 69.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[14:42]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þótt ég hafi yfirgefið Kvennalistann fyrir rúmlega ári er ég þeirrar skoðunar að hann hafi unnið mikið og þarft verk og hafi m.a. áorkað því að konum hefur fjölgað mjög á þingi og í ríkisstjórnum, auk þess sem ýmis mál sem Kvennalistinn bar fyrir brjósti hafa verið samþykkt í gegnum árin. Ég er því algjörlega ósammála þingmanninum hvað það varðar að ekki hafi náðst árangur. Það hefur náðst mikill árangur en ekki í launamálum.

Ég var að tíunda að við ættum mikið verk óunnið í launamálum. Og við eigum það á ýmsum öðrum sviðum. Við eigum það varðandi ofbeldi og við eigum ýmislegt óunnið í skólunum og líka gagnvart karlmönnum, karlmennsku\-ímyndinni og ýmsu fleiru. Það er mikið verk óunnið.

Hvað það varðar að grundvöllurinn sé rangur vil ég minna á að skipulögð kvennabarátta hefur staðið í meira en 200 ár, ef við miðum við frönsku stjórnarbyltinguna, og hún hefur tekið á sig ýmsar myndir og ýmsar áherslur verið uppi eftir löndum og eftir því hvernig staðan hefur verið á hverjum tíma. Ég held að hv. þm. verði að skýra þessi orð sín betur, hvað hann eigi við með því að grundvöllurinn sé rangur.

Við stóðum einfaldlega frammi fyrir því fyrir 200 árum að konur nutu nánast engra mannréttinda. Barátta kvenna í þessi 200 ár hefur meira og minna gengið út á að vera viðurkenndar sem þegnar samfélagsins, geta unnið fyrir sér, fá að ráða eigin lífi. Því miður er það svo að í stórum hlutum heimsins er mjög mikið verk óunnið. En við stöndum þó heldur feti framar en flestar konur heimsins en við eigum líka margt óunnið.