Jafnréttislög

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 14:48:01 (3886)

1999-02-18 14:48:01# 123. lþ. 69.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[14:48]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er ánægjuefni að hér skuli liggja fyrir stjfrv. til nýrra jafnréttislaga. Það er sannarlega tímabært að endurskoða lög sem sett voru 1991 eftir nokkra endurskoðun á lögum, sem mig minnir að hafi verið sett 1986, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Ég er ekki með öllu ókunnugur vinnunni að löggjöf þeirri sem nú er í gildi þar sem ég átti sæti í nefndinni sem fór yfir lögin sem samþykkt voru 1991, kom inn í þá vinnu eftir að hún var hafin. Ég held að ég fari ekki rangt með að ég og fleiri sem komu inn í málið lögðum inn nýjar hugmyndir og nokkuð róttækar miðað við þær sem fyrir voru í nefndinni sem hóf endurskoðunina. Þetta varð til þess að breytingar urðu meiri á löggjöfinni 1991 en ella hefði orðið.

Ég á í fórum mínum minnisblað sem ég lagði fyrir nefndina þegar ég kom inn í hana frá 1. desember 1988 og er fróðlegt að skoða hvað gekk fram af þeim hugmyndum og reyndar hugmyndum annarra nefndarmanna. Mér fannst menn svolítið hæggengir í sambandi við endurskoðun laganna sem voru lögfest 1991. Hér er að sumu leyti verið að stíga skref sem voru þá til umræðu en fengust ekki samþykkt. Þáv. hæstv. félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir mat það svo að ekki væri fært að ganga lengra, sjálfsagt vegna þess að hún hefur talið að ekki væri hægt að koma meiri breytingum fram í ríkisstjórninni sem þá sat. Mér þótti sem stíga hefði mátt stærri skref en gert var árið 1991. Því er ánægjuefni að sjá við þessa endurskoðun tillögur um atriði sem einmitt voru til umræðu fyrir átta til tíu árum og þóttu á þeim tíma ganga lengra en hægt væri að stíga. Mér sýnist að margt í þessu frv. sé til bóta og almennt sé um jákvætt mál að ræða þó ekki sé orðið við öllum hugmyndum sem kannski hefðu átt rétt á sér við endurskoðun laganna nú. Ég mun koma að því síðar.

Almennt tel ég að í málum sem þessum sé brýn nauðsyn á því að leita stöðugt og vera stöðugt á verði um jafna stöðu kynjanna. Sérstaklega er nauðsynlegt að bæta stöðu þeirra sem lakar standa í þeim efnum. Fáir neita því að það halli á konur og hafi lengi gert. Af þeim sökum hafa í jafnréttislöggjöf okkar verið ákvæði sem flokkast undir svonefnda jákvæða mismunun til að reyna að bæta stöðu þess kynsins sem stendur langtum hallari fæti í samfélaginu. Út frá því sjónarhorni hef ég viljað skoða þessi mál þó að ég hafi alla samúð með því sem lýtur að því að karlar haldi sínum eðlilega rétti. Umfram allt eiga þeir að vera virkir þátttakendur í að ná fram þeim jákvæðu markmiðum og þeim þjóðfélagsumbótum sem felast í jafnri stöðu kynjanna.

Það varðar auðvitað bæði kynin og skiptir meginmáli fyrir þokkalega þróun í samfélaginu að konur séu þar þátttakendur eða hafi til þess aðstöðu jafnhliða því að geta notið sérstöðu sinnar. Auðvitað hafa kynin sína sérstöðu, líffræðilega og samfélagslega, sem tengist verkaskiptingu kynjanna þó ekki sé nema hinni líffræðilegu og uppeldishlutverki móðurinnar sem í gegnum aldirnar og árþúsundin hefur verið veigameiri þáttur í uppeldi kynslóðanna en hjá körlum á aðalmótunarskeiði barna. Ekki er nema eðlilegt að viðurkenna það þó hitt sé jafngilt og nauðsynlegt, að karlar komi þar að málum og geti lagt sitt til. Við tökum eftir því að menn hafa áhyggjur af því að í uppeldisstarfi, m.a. í skólum landsins, en hlutverk skóla í uppeldi hefur farið vaxandi allt frá leikskóla, skortir nokkuð á að karlar komi að málum sem starfsmenn. Að sjálfsögðu ber að stuðla að fjölgun karla í þeim störfum.

Þetta er sá bakgrunnur sem ég skoða þessi mál út frá. Ég vil leggja því lið að þetta frv. fái vandaða meðferð. Ég tel að við gerðum vart annað mikið betra með tíma okkar á Alþingi en að koma frv. í lagaform og til samþykktar ef kostur er. Það ræðst auðvitað af því hvernig gengur í vinnu hv. félmn. að þoka málum fram. Menn mega auðvitað ekki rasa um ráð fram í þeim efnum. En mér sýnist það vel að undirbúningi málsins staðið að gera mætti sér vonir um að hægt verði að lögfesta málið. Ég hef hins vegar þennan fyrirvara: Það hlýtur að vera háð því hvernig landið liggur að mati félmn. við nánari athugun málsins.

Virðulegur forseti. Þá vík ég að þingmálinu, að frv. Það mætti kalla tvíþætt, þ.e. annars vegar stjórnskipunin og hvernig búa á að henni, hvaða breytingar eru þar á ferðinni. Hins vegar eru þar ákvæði frv. til þess að tryggja jafnstöðu og jafnrétti þar sem um ýmis nýmæli er að ræða.

Hvað yfirstjórnina snertir þá get ég tekið undir þá meginhugsun sem hér er þó að ég hafi tilkvaddur, á vettvangi nefndarinnar sem endurskoðaði þetta frv., sett hugmyndir mínar svolítið öðruvísi fram. Kannski er rétt að ég nefni það hér. Mér finnst að kannski hefði verið réttmætt að útfæra á annan hátt, þ.e. að til yrði það sem við kölluðum jafnréttisstofnun, að ráðuneytið hefði sína skrifstofu eins og það hefur skrifstofu til þess að vakta mál og stýra starfsliði en jafnframt yrði til jafnréttisstofnun sem að nokkru leyti er komin í búningnum Skrifstofa jafnréttismála. Eins og fram kom hjá ráðherranum sem talaði fyrir málinu þá er það ígildi stofnunar. Ég skil því ekki hvers vegna það má ekki heita stofnun en það skýrist kannski við umræðuna. Ég hefði haldið að fullt efni væri til að setja á fót jafnréttisstofnun sem hefði á einum stað innan sinna vébanda þá aðila sem sinntu þessum málum.

Hluti af jafnréttisstofnun samkvæmt mínum hugmyndum væri umboðsmaður jafnréttismála. Ekki hefur verið horfið að því ráði að taka þá hugmynd upp, sem lá fyrir í frumvarpsbúningi á síðasta þingi og næstsíðasta, að sett yrði á fót embætti umboðsmanns jafnréttismála. Ég óska eftir skýringum á því frá hæstv. ráðherra, hvað hann telji að mæli gegn því. Ég býst við að það þurfi enn eina endurskoðun laganna til að það kerfi verði tekið upp sem ég lagði til 1988 í þáverandi endurskoðunarnefnd. Það er form sem tekið hefur verið upp á Norðurlöndunum með góðum árangri, er að setja á fót embætti umboðsmanns jafnréttismála.

Í jafnréttisstofnun ætti einnig að vista kærunefndina þannig að hún sé sjálfstæð og óháð, að hún sé þá í nágrenni við aðra. Fræðslu- og rannsóknasvið á þessum vettvangi ætti að vera einn afkiminn í jafnréttisstofnun. Fræðsla og rannsóknir eru gífurlega þýðingarmiklar í sambandi við þessi mál og ekki síst tengt þeirri stefnu sem kennd er við samþættingu eða ,,mainstreaming``, að þetta nái inn á öll svið og hvernig þar megi ná árangri. Þar væri séð um tengsl við rannsóknarstofnanir innan lands og erlendis og jafnréttisráðgjafarnir mundu eðlilega tengjast slíku sviði.

[15:00]

Þarna væri einnig að finna Jafnréttisráð sem gert er ráð fyrir að viðhalda í breyttu formi. Ég get alveg fallist á að það sé ágætt mál að gefa því meira svigrúm eins og hér er gert ráð fyrir og losa það undan því stjórnsýsluhlutverki sem því hefur verið búið í lögum og ég hefði viljað sjá þegar fyrir átta eða tíu árum síðan að yrði breytt eins og nú er verið að gera. Síðan hefði þarna verið almenn skrifstofa til þess að þjóna þessu öllu saman inni í þessari stofnun.

Það væri ágætt að hæstv. ráðherra gerði okkur aðeins grein fyrir því hvernig þessi skrifstofa sem e.t.v. er ætlað að vista í Tryggvagötu eða í húsakynnum ráðuneytisins --- ég átta mig ekki á því hvar þessu verður fyrir komið --- en það væri ágætt að hæstv. ráðherra greindi okkur frá því hvar eigi að vista þessa skrifstofu og hvernig tengslin eru hugsuð í samskiptum við ráðuneytið. Er þetta hugsað sem sjálfstæð stofnun. Af hverju er þetta kallað ,,skrifstofa``, hvað veldur því? Þetta býður upp á svolítinn misskilning finnst mér vegna þess að ráðueytin eru deildaskipt og þar eru skrifstofur. Þetta er svolítið óvanalegt miðað við okkar uppbyggingu hér. Þetta skýrist væntanlega við umræðuna. Ég sakna sem sagt umboðsmanns jafnréttismála inn í þetta kerfi.

Ég tek undir það sem verið er að gera varðandi kærunefndina. Það er verið að gera úrskurði hennar endanlega og það er skref sem var til umræðu við fyrri endurskoðun fyrir um áratug síðan. Ég tel að það sé ágætt mál. Ég tek undir þá tilraun sem hér er meiningin að gera með Jafnréttisráð þó að ég hafi kannski vissar efasemdir um að sú tilraun nái því flugi sem hún þyrfti að gera en það er auðvitað undir þeim komið sem þar verða til kvaddir og það er undir aðbúnaði að því komið. Ég óttast svolítið að með þeirri breytingu sem hér er verið að gera kunni fjárveitingavaldið að skammta naumt til starfa Jafnréttisráðs eins og gert hefur verið varðandi Náttúruverndarráð sem á samkvæmt gildandi náttúruverndarlögum að hafa heilmikið hlutverk en er gersamlega vængstíft að því er varðar alla aðstöðu og fékk ekki einu sinni að ráða starfsmann eða tryggan starfsmann í lögum og er þannig sem sagt að því búið að það getur ekki rækt sitt hlutverk. Þarna er ákveðin hætta sem ég vil vara mjög við að því er varðar Jafnréttisráð og þessa tilraun sem verið er að gera í þeim efnum.

Samkvæmt gildandi löggjöf var sett á fót jafnréttisþing. Ég hef setið slíka samkomu. Það var skemmtileg samkoma. Vonandi tekst að gera það að lifandi þætti í mótun jafnréttismála og að þeir aðilar sem geta keppt eftir sæti í Jafnréttisráði hinu breytta, muni eiga líflegt samstarf við þá sem eru tilnefndir í ráðið. Ég ætla ekki að vera að gera neinar athugasemdir við það á þessu stigi mála. Það er alltaf matsatriði hvað á að tryggja mörgum aðild með tilnefningu og hversu marga á að kjósa. Það mega ekki vera færri en gert er ráð fyrir í frv. Það mættu vera fleiri kosnir á jafnréttisþingi.

Eitt er það sem mér finnst kannski skorta aðeins á varðandi tengsl inn í þetta kerfi og það eru jafnréttisnefndir sveitarfélaga. Ég held að mjög mikilvægt sé að samskipti séu örugg og boðleiðir góðar þar á milli. Jafnréttisnefndir sveitarfélaga hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna og þar þurfa að vera trygg og góð samskipti milli aðila. Ég tók, held ég, svo eftir að það væri t.d. ekki kveðið á um það að jafnréttisnefndir sveitarfélaga ættu beina aðild eða sjálfsagða aðild að jafnréttisþingi. Og ég spyr: Er ekki hugmyndin að jafnréttisnefndir sveitarfélaga eigi örugga aðild á jafnréttisþingi? Ég teldi að full ástæða væri til að kveða á um það, jafnþýðingarmiklu hlutverki og jafnréttisnefndir sveitarfélaga hafa að gegna. Mér sýnist einmitt að aðgengið eigi að vera í gegnum jafnréttisþingið.

Ég hefði gjarnan viljað gefa ábendingar ýmis atriði um en kýs þó við 1. umr. að tala mjög almennt um málið eins og meiningin er með 1. umr. um frumvörp. Þó mun ég koma nokkrum atriðum til nefndarinnar um orðalag og slík atriði sem geta boðið upp á misskilning sem þyrfti að skoða betur. Það er ekkert stórvægilegt af þeim toga en nokkuð smálegt sem staldrað er við við yfirlestur. Í sambandi við málsmeðferð og úrskurðarnefnd jafnréttismála sé ég að gert er ráð fyrir því að úrskurðarnefndin getur að höfðu samráði við málshefjanda sent mál til sáttameðferðar hjá Skrifstofu jafnréttismála. Þetta kann að vera ágætis tilraun til þess að fara ekki að ástæðulausu í málarekstur. En mig langar að biðja hæstv. ráðherra um útlistun á því hvernig þetta er hugsað. Nú er Skrifstofa jafnréttismála stjórnsýslustofnun undir ráðuneytinu eða í ráðuneytinu, hvernig sem því er nákvæmlega fyrir komið. Hvernig á að standa að þessari sáttagerð? Fær framkvæmdastjórinn það hlutverk að reyna að sætta aðila, ganga á milli eða hafa menn þar í huga eitthvert ákveðið form?

Ég sé að ég hef merkt við í 6. gr. þar sem er viðmið á mati á hæfni. Það er verið að meta hæfni samkvæmt tilsettum greinum laganna og þar segir: ,,... samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.`` Þarna er óljóst orðalag sem ég bið um að litið verði á í þingnefnd.

Hér er ákvæði í 9. gr. um jafnréttisþingið sem á að taka til að loknum alþingiskosningum. Ég hef þegar nefnt jafnréttisnefndir sveitarfélaga. Þar segir: ,,Jafnréttisþing er vettvangur þeirra sem fjalla um jafnréttismál.`` Síðan er gert ráð fyrir að settar verði reglur um þetta og það skiptir máli að þær verði vandaðar og vel útfærðar.

Virðulegur forseti. Ég sé að tími minn er þrotinn. Ég bendi að lokum á 10. gr. Hún er um áætlun í jafnréttismálum þar sem gert er ráð fyrir að það sé hlutverk Jafnréttisráðs að móta þær tillögur og það á að sundurliða framkvæmdaáform og áætla fjárveitingar til einstakra verkefna sem tengjast jafnréttismálum. Ég spyr um þessar fjárhagsáætlanir: Er um að ræða þörf eða er beinlínis ætlunin að reyna að festa fjárveitingar í sessi í gegnum þessa áætlun og meðferð hennar, samspilið sem sagt við fjárveitingavaldið sem skiptir auðvitað mjög miklu máli inn í þetta samhengi?

Að lokum, virðulegur forseti. Í niðurlagi 21. gr. segir:

,,Ákvæði 2. og 3. mgr. fellur sjálfkrafa úr gildi að liðnum tíu árum frá gildistöku laga þessara.``

Það er um þátttöku í nefndum og ráðum. Ég veit ekki hvort þetta er þjóðráð, en maður staldrar við. Ég hef aldrei séð svona fyrirmæli í lögum þar sem menn hugsa tíu ár fram í tímann í þessum efnum. Kannski víkur hæstv. ráðherra að því í sínu máli hvernig þetta snjallræði var fundið út. Gera menn ráð fyrir að þá verði þetta er komið í skikkanlegt horf? Það er vonandi að svo verði.