Jafnréttislög

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 15:16:53 (3888)

1999-02-18 15:16:53# 123. lþ. 69.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[15:16]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Minnst var á það af hv. þm. að gildandi löggjöf gangi skammt og að full þörf hafi verið á því að endurskoða hana. Ég er þessu mati alveg sammála. Ég tel, og kom að því í máli mínu, að á bak við endurskoðunina 1991 hafi verið allt of metnaðarlítil hugsun. Það virtist í rauninni bara verið að sníða af svona tæknilega agnúa frekar en að brjóta eitthvað í blað miðað við þá reynslu sem þá var fengin. Þó tókst að koma því lengra en upp var lagt með að því er virtist en skorti mjög á og þess vegna er einmitt mikil þörf á þeim lagabótum sem hér er verið að stefna að, ekki síst varðandi vinnumarkaðinn sem ég kom líka að í máli mínu, mjög mikilvæg ákvæði sem lúta að vinnumarkaðnum og innan hans ekki síst mun reyna á að raunverulegt jafnrétti verði tryggt.

Varðandi atriðið um umboðsmann jafnréttismála, þá er það vissulega álitamál sem hv. þm. kemur að. En ég er ekki viss um að það verði á færi skrifstofu jafnréttismála að taka á málum eins og gert er ráð fyrir að umboðsmaður geri. Ég held að umboðsmaður Alþingis sé alveg sokkinn í verkefni sem honum berast. Ég er hræddur um að búa þurfi þá betur að því embætti og gera aðgengið öðruvísi en tekist hefur þannig að rúm verði fyrir þau umboðsmannsstörf sem réttmætt er á mjög mikilvægum sviðum eins og þessu, en ef hægt er að koma því skynsamlega fyrir, þá hangi ég ekki í neinu ákveðnu formi að því leyti. En það þarf þá að vera ljóst hvað skrifstofunni er ætlað, hvernig hún getur leyst það og hvað menn ætla umboðsmanni Alþingis og tryggja þá að hann geti leyst mál eins og þetta.