Jafnréttislög

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 15:21:35 (3891)

1999-02-18 15:21:35# 123. lþ. 69.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[15:21]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Það er nefnilega nauðsynlegt að leggjast í sálfræði. Við náum ekki að breyta hugsunarhætti einstaklinga og atvinnu þeirra í þjóðfélaginu nema við leggjumst í sálfærði og fyrsta skrefið er að fá þá til þess að hugsa um stöðuna, það sem þeir gera og hvort það sé það rétta eða réttasta í hverri og einni stöðu.

Hvað varðar umboðsmann Alþingis og fleiri umboðsmenn má segja að eftir því sem umboðsmennirnir eru fleiri þeim mun minna mun hvert embættið vigta og ef við dreifum þeim þunga sem fylgir umboðsmannshugtakinu á alla málaflokka með umboðsmenn fyrir þessu og hinu út um alla stjórnsýsluna, þá drögum við úr vægi umboðsmanns Alþingis. Ég lít svo á að umboðsmaður Alþingis hafi allt sviðið undir og það þarf auðvitað að búa að honum í samræmi við það. (HG: Umboðsmann barna, ...) Umboðsmaður barna er allt öðruvísi embætti en umboðsmaður Alþingis. Ég er þeirrar skoðunar að betra væri að hafa annað nafn á því embætti vegna einmitt þessa, þó að ég dragi alls ekki í efa nauðsyn þess starfs sem þar er unnið. En umboðsmaður Alþingis hefur allt sviðið undir og það þarf auðvitað að búa að honum í samræmi við það.