Tilkynning um stofnun þingflokks Samfylkingarinnar

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 10:36:39 (3895)

1999-02-19 10:36:39# 123. lþ. 70.94 fundur 274#B tilkynning um stofnun þingflokks Samfylkingarinnar# (tilkynning þingflokks), KH
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[10:36]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér hafa orðið þeir atburðir sem hafa þegar haft þau augljósu áhrif að þingflokkur Kvennalistans hefur verið lagður niður eftir 16 ára starf á Alþingi Íslendinga. Með því að þeir hv. þingmenn sem ætla að ganga saman til næstu alþingiskosninga hafa nú stigið það skref að sameinast í einum þingflokki eru brostnar forsendur fyrir því samstarfi í mínum gamla þingflokki sem ég hef reynt að tryggja út þetta kjörtímabil. Því eru nú ákveðin kaflaskil.

Stærstur var þingflokkur Kvennalistans skipaður sex þingkonum árin 1987--1991 en þótt hann yrði aldrei stærri er ekki vafi á því að Kvennalistinn hefur markað þau spor í þingsögunni sem sjá mun stað langt inn í framtíðina.

Í upphafi þess kjörtímabils sem nú er senn á enda vorum við þrjár þingkonur í þingflokki Kvennalistans, síðan tvær og nú stend ég hér ein og get ekki annað, eins og frægur maður sagði forðum. Ljóst er að ein get ég ekki verið þingflokkur Kvennalistans. Það hefur nú þegar sannast sem annar frægur sagði forðum að alltaf má fá annað skip og annað föruneyti en þannig lýkur þessum kafla í sögu íslenskra stjórnmála, kaflanum um Kvennalistann sem sérstakt stjórnmálaafl á Alþingi.