Svör við fyrirspurnum

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 10:41:10 (3898)

1999-02-19 10:41:10# 123. lþ. 70.97 fundur 278#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[10:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það hefur gerst aftur og aftur á þessu kjörtímabili og einkum síðari hluta þess að reynt hefur á rétt Alþingis til að krefjast upplýsinga og rétt Alþingis til að fá réttar upplýsingar í hendur. Það er almannarómur að þingræði á Íslandi sé veikt en eitt af fáum tækjum þess, þingsins og þingmanna, hefur verið réttur til að heimta upplýsingar og veita ríkisstjórn og framkvæmdarvaldinu aðhald í gegnum þann rétt. Þess vegna er stóralvarlegt mál ef ráðuneyti geta í vaxandi mæli komist upp með það óátalið að gera sitt á hvað, neita um upplýsingar eða láta Alþingi í té rangar upplýsingar en hvort tveggja hefur ítrekað gerst á þessu kjörtímabili. Þetta svar eða öllu heldur ekki svar fjmrh. við einfaldri og skýrri fyrirspurn er enn eitt dæmið um þetta. Það kallar á, herra forseti, að Alþingi, forsn. Alþingis og Alþingi sjálft ræði sérstaklega hver staða þess skuli vera í þessu sambandi. Það er Alþingis að setja lögin og það er Alþingis að ákveða hversu sterkur þessi upplýsingaréttur skal vera gagnvart öðrum réttaratriðum í þjóðfélaginu, þar með talið verndun persónulegra eða viðskiptalegra upplýsinga.

Ég sætti mig ekki við það, herra forseti, jafnvel þó hið háa fjmrn. eigi í hlut að það liggi í valdi ráðuneyta að meta, samanber orðalag í svarinu, hvaða upplýsingar skuli veita og hvaða upplýsingar ekki. En hér segir að ráðuneytið telji ekki rétt að veita Alþingi þessar upplýsingar. Þetta er stóralvarlegt mál, herra forseti, og ég fer fram á að forsn. taki þetta mál sérstaklega fyrir. Ég óska eftir rökstuddu svari frá forsn. þannig að Alþingi geti í framhaldinu rætt hvort jafnvel sé ástæða til lagabreytinga í kjölfar þess að það gerist trekk í trekk að réttur Alþingis eða alþingismanna til að krefjast upplýsinga er að engu hafður.