Svör við fyrirspurnum

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 10:43:40 (3899)

1999-02-19 10:43:40# 123. lþ. 70.97 fundur 278#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[10:43]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hlýt að taka undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram vegna þeirra svara sem hæstv. fjmrh. veitir við fyrirspurn hv. þm. Ögmundar Jónassonar um verkefni unnin af VSÓ-verkfræðiskrifstofu og bendi á það, ég held að það hafi verið á síðasta þingi sem ég var með fyrirspurn um allar úttektir sem höfðu verið gerðar á ríkisstofnunum, hver hefði unnið og hvað það hefði kostað sundurliðað. Þó það hafi heldur ekki verið fullnægjandi, þá er þar um að ræða sundurgreiningu og hver vinnur verkefnið og í flestum tilvikum hvað það kostar frá öllum ráðuneytum en hér stendur, virðulegi forseti, í svarinu:

,,Ekki er með öruggum hætti hægt að fá eingöngu upplýsingar um þjónustu keypta af verkfræðistofum þar sem kostnaðarskipting úr bókhaldi þykir ekki gefa einhlíta skiptingu þar á.``

Ég þekki ágætlega til þeirra bókhaldsreglna sem eru hjá ríkinu og því leyfi ég mér að efast um að þarna sé farið með rétt mál.