Svör við fyrirspurnum

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 10:56:42 (3908)

1999-02-19 10:56:42# 123. lþ. 70.93 fundur 281#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[10:56]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að reyna að rökstyðja þessa ákvörðun ráðuneytisins þó seint sé. Það hefði þó mátt gera betur í sjálfu svarinu svo aðgengilegt væri. Ég verð að segja að ég er algerlega ósammála niðurstöðu ráðuneytisins og rökstuðningi ráðherrans. Ég tel augljóst að í þessu tilviki eigi að láta rétt Alþingis til upplýsinga njóta vafans. Það verður þá að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort meint túlkun ráðuneytisins á upplýsingalögum eða rétti einkafyrirtækja til leyndar, þegar um viðskipti við opinbera aðila er að ræða, skuli vera ríkjandi. Það tel ég alls ekki eðlilega niðurstöðu.

Ég held að þegar um viðskipti við hið opinbera er að ræða og ráðstöfun á opinberu fé þar með, þá verði einkafyrirtæki jafnt og aðrir að sæta því að um það geti menn krafist upplýsinga. Ef niðurstaðan yrði sú þá mundu þeir sem vilja fara leynt með viðskipti sín beina þeim til einkaaðila. Það er augljóst mál. Annars verður brestur í upplýsingagjöfinni og gagnsæi þess hvernig fjármagni á vegum hins opinbera er ráðstafað, þegar viðskiptin færast úr opinbera geiranum til einkaaðila. Ætlunin getur ekki hafa verið að takmarka rétt Alþingis þannig. Sé niðurstaðan úr túlkun upplýsingalaganna á þann veg, hvort sem væri fyrir dómstólum eða annars staðar, þá tel ég að þeim eigi að breyta. Ég tel, herra forseti, að afstaðan sem ráðuneytin eða fjmrn. í þessu tilviki hafa tekið sé stórmál. Það er óhjákvæmilegt að Alþingi taki á því og byrji með umfjöllun forsn. sem forseti hefur lofað. Í kjölfar hennar og skýrslugjafar um niðurstöður forsn. ræðum við málið og breytum ef með þarf lögum þannig að réttur Alþingis til upplýsinga verði ekki takmarkaður.