Svör við fyrirspurnum

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 10:59:02 (3909)

1999-02-19 10:59:02# 123. lþ. 70.93 fundur 281#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[10:59]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það er ekki að ástæðulausu að talað hefur verið um einkavinavæðingu á Íslandi í tíð ríkisstjórna hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar. Nú segir hæstv. fjmrh. að vernda þurfi einkahagsmuni og hann hefur fengið lögfræðinga til að kanna hvernig það skuli gert. Þeir hafa komist að niðurstöðu sem hæstv. fjmrh. segir að sé álitamál.

Hæstv. fjmrh. hefur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar tekið afstöðu í því álitamáli. Hann vill vernda einkahagsmuni fyrirtækjanna sem í hlut eiga. Ég segi: Til að koma í veg fyrir að spilling þróist í hinu opinbera kerfi þjóðfélags okkar, þá er grundvallarforsendan sú að allar upplýsingar séu uppi á borði, það er grundvallarforsenda. Þegar hæstv. fjmrh. segir að menn kunni að vera komnir út á hálan ís með því að veita slíkar upplýsingar, þá fullyrði ég að með þeirri afstöðu sem ríkisstjórnin og hæstv. fjmrh. fyrir hennar hönd hafa tekið gagnvart Alþingi og almenningi á Íslandi er ríkisstjórnin komin út á mjög hálan ís. Við munum ekki láta svo við búið sitja. Við höfum í tvígang fengið staðfestingu á því frá hæstv. forseta þingsins að málið verði tekið fyrir í forsætisnefnd þingsins og þingið síðan upplýst í byrjun næstu viku.