Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 11:22:33 (3912)

1999-02-19 11:22:33# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[11:22]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Í umræðunni í gær sagði hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir að ekkert hefði miðað sl. 20 ár og það er hárrétt. (KÁ: Þetta er rangt.) Það er hárrétt, mjög lítið hefur miðað sl. 20 ár, launamisréttið er enn þá jafnmikið og það hefur verið sl. 20 ár. Það munar mjög litlu.

Það er dálítið undarlegt í ljósi þessarar staðreyndar að menn skuli ekki spyrja sig hvort það geti verið að forsendur jafnréttisbaráttunnar séu rangar, hvort jafnréttisbaráttan sé hugsanlega á villigötum. Það er alveg með ólíkindum að menn skuli berja hausnum við steininn og hamra endalaust á þeim sama sannleika sem menn hafa fundið og spyrja sig ekki hvort það geti verið eitthvað annað sem valdi þessu misrétti. Getur ekki verið að við séum að horfa á afleiðingu einhvers en ekki orsök?

Að mínu mati er orsökin misrétti fólks og ef það er misrétti fólks kemur það að sjálfsögðu fram í misrétti karla og kvenna. Þegar ungur piltur fær ekki stöðu þrátt fyrir mikla og góða hæfileika og einhver annar, óhæfur eldri karl, er tekinn fram yfir, er það jafnalvarlegt eins og þegar karlinn er tekinn fram yfir unga konu. En ekki er litið neitt til þess. Baráttan gengur ekkert út á þetta. Hún gengur út á að jafna kjör karla og kvenna eingöngu.

Í þessu sambandi bendi ég á að ríkasti Íslendingurinn er sennilega kona og ég bendi á að tekjuhæsti Íslendingurinn er líka kona. Bætir það eitthvað stöðu ungu stjörnukonunnar sem kemst ekki áfram og fær ekki stjórnunarstöðu og verður að vera einhvers staðar sem ritari að ríkasti einstaklingur á Íslandi sé kona? Alls ekki, nei. Þetta sýnir bara í hnotskurn að þetta er ekki spurningin um karl og konu.

Þrátt fyrir miklar tilraunir í áratugi hefur lítið sem ekkert miðað og ég skil ekkert í fólki að reyna ekki að spyrja: Getur verið að eitthvað sé að forsendunum? Ég skil það bara ekki. Menn halda áfram að hjakka í þessum sama góða sannleika sem þeir hafa fundið fyrir löngu og spyrja ekkert að því. Getur verið að þessi sannleikur sé rangur? Það hef ég gert. Búið er að kemba öll lög. Það er hvergi mismunun. Farið hefur verið í gegnum allar reglugerðir. Leitað er með logandi ljósi að mismunun. Ekkert finnst. Þetta er nefnilega ekki ástæðan. Ástæðan er allt önnur.

Hitamælirinn sýnir mikinn hita í sjúklingnum og hvað gera menn? Menn leiðrétta hitamælinn. Þeir reyna ekki að komast að því hvort maðurinn sé með lungnabólgu. Aðalatriðið er að leiðrétta hitamælinn þannig að hann sýni ekki hita, og sjúklingurinn sé þar af leiðandi ekki með hita. Auðvitað er sjúklingurinn með hita jafnt eftir sem áður. Menn berja hausnum við steininn og með þessum lögum er lausnin sú að telja hausa. Karlar, konur, karlar, konur, það á að telja hausa og það á að berja á fyrirtækjum, þvinga þau til að gera eitthvað sem er ekki innbyggt. Það á að breyta afstöðu fólks með lögum. Það tekst illa.

Engum finnst óeðlilegt þó kona sé ráðin í toppstöðu vegna flokksaðildar eða ætternis, það er allt í lagi. Enginn setur út á það. (KÁ: Það er lítið um það.) Það kemur fyrir líka og það er ekki sett út á það. (Gripið fram í: Það er nú langt síðan.)

Herra forseti. Ég tel að vandinn sé misrétti fólks og viðhorf karla til kvenna, viðhorf kvenna til kvenna, ekki síður (Gripið fram í.) og viðhorf kvenna til sjálfra sín. Ég hef margoft bent á það. Þessu viðhorfi þarf að breyta og verður illa breytt með lögum. Maður breytir ekki viðhorfum með lögum. En við getum breytt hinu sem er misrétti fólks. Hvernig breytum við því og hvers vegna? Þá spyr ég mig: Hvernig stendur á því að óhæfari einstaklingur er ráðinn í toppstöðu í staðinn fyrir hæfari og jafnvel á hærri launum? Hvernig stendur á þessu? Hafa menn spurt sig þess? Nei, enginn hefur spurt sig að því. Hvernig stendur á því að menn ráða óhæfari einstakling? Það er punkturinn. Þar eiga menn að spyrja. Þar eiga menn að taka á. Af hverju skyldu menn gera það? Af hverju skyldu stjórnendur fyrirtækis eða stofnunar ráða óhæfari einstakling á hærri launum? Hafa menn spurt sig þess? Þarna er punkturinn. Það er vegna þess að honum er alveg sama hvernig fyrirtækið er rekið. Hann gerir ekki kröfu um arð, hann gerir ekki kröfu um góðan og hagkvæman rekstur. Þetta er punkturinn. Það vantar arðsemiskröfu. Ef einhver hefur aðra skýringu á þessu ... (Gripið fram í.) Endilega. Ég sé ekki aðra skýringu á þessu af hverju óhæfari einstaklingur er ráðinn fyrir hærri laun en að ekki er gerð krafa um arðsemi. (KÁ: Hvað með karlrembu?) Það er afstaða. En hafa menn efni á því endalaust og stöðugt? Það vantar nefnilega kröfu um arðsemi, kröfu um gróða í öllum fyrirtækjum, jafnt skólum og opinberum fyrirtækjum sem einkafyrirtækjum.

Það sem hefur verið að gerast á þessari öld er að svokallað fé án hirðis, þ.e. fé sem enginn á, hefur farið stórvaxandi og það er enginn sem gerir kröfu um arðsemi í slíku fyrirtæki. Fé án hirðis fer vaxandi og það er meginástæðan fyrir því að ekki tekst að jafna stöðu fólks, jafnrétti fólks. (Gripið fram í: Jú, .... jafna því áður?) Ég hugsa það jafnvel.

Herra forseti. Af hverju viljum við jafnrétti fólks? Hefur einhver spurt að því? Það er vegna þess að það er þjóðhagslega mjög mikilvægt að besta fólkið komist áfram, að við nýtum hæfileika og snilli þess fólks sem býr að slíkum hæfileikum, að þeir séu nýttir til hins ýtrasta í toppstöðum í þjóðfélaginu, þ.e. að kraftar þessa fólks auki hagsæld þjóðarinnar. Þess vegna viljum við jafnrétti.

[11:30]

Herra forseti. Frv. tekur mið af hefðbundnum sannleika og gefur hefðbundnar lausnir. Í 21. og 22. gr. eru taldir hausar. Halda menn að það komi jafnrétti út úr því? Ef skipaðir eru flokksgæðingar og vinir og vandamenn og því um líkt í nefndir og ráð, kemur eitthvert jafnrétti út úr því? Ekki fyrir tíu aura. Þannig verður ekkert jafnrétti. Það að telja hausa gefur ekkert jafnrétti. Það gefur ekki ungu og hæfileikaríku fólki möguleika á því að komast í þessar stöður eða nefndir og ráð. Alls ekki. Um það er engin krafa gerð.

Í 23., 24. og 25. gr. er gætt að jafnrétti. Þar stendur, með leyfi forseta: ,,Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis.`` En það má mismuna eftir ætterni. Það má mismuna eftir aldri. Það má mismuna eftir flokksaðild eða trú eða kynþætti. (Gripið fram í: Það er bannað samkvæmt öðrum lögum.) Getum við ekki gagnályktað út frá þessum lögum? Ef það stendur í þessum lögum að ekki megi mismuna á grundvelli kynferðis þá getur maður gagnályktað, að það megi mismuna eftir aldri. (Gripið fram í: Lestu stjórnarskrána.) Þá vildi ég gjarnan að það kæmi allt inn í þetta ákvæði. (Gripið fram í: Þetta eru jafnréttislög.) Akkúrat, jafnréttislög. Ekki jafnréttiskynjalög, heldur jafnréttislög. Allir eiga að vera jafnir, ekki bara karlar og konur.

Herra forseti. Ég ætla að taka dæmi. Um stöðu í tískuvöruverslun eru þrír umsækjendur. Þar er ung, falleg, óreynd og ómenntuð stúlka, ungur fallegur, óreyndur, ómenntaður piltur, og reynd, snjöll og feiknadugleg eldri kona. Ef pilturinn er ráðinn þá getur eldri konan kært. En ef unga fallega stúlkan er ráðin þá getur eldri konan ekki kært, samkvæmt þessum lögum. Af hverju ekki? Af hverju má mismuna konu vegna konu? Ég spyr. Við erum á villigötum, það er einfalt.

Herra forseti. Í 15. gr. er mjög alvarlegt atriði. Þar stendur, með leyfi herra forseta: ,,Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt störf.`` Þarna er ekki spurt hvort maðurinn sé snjall, duglegur, menntaður eða hafi reynslu. Þetta er óraunhæft. Fólk er bara ekki ráðið svona. Fólk er ráðið eftir hæfileikum. Þetta er fáránlegt ákvæði af því að það tekur ekki mið af persónunni sem þó skiptir öllu máli.

Í 29. gr. er einnig mjög alvarlegt ákvæði. Þar stendur, með leyfi forseta: ,,Opinberum stofnunum, atvinnurekendum og félagasamtökum er skylt að veita Skrifstofu jafnréttismála hvers konar upplýsingar sem nauðsynlegar eru starfsemi skrifstofunnar.``

Þarna er galopnað fyrir að veita allar upplýsingar um laun allra landsmanna til skrifstofunnar. Þetta er alveg stórhættulegt ákvæði og ég vil benda á það sérstaklega. Lög sem setja svona óskaplega stífar kvaðir á fyrirtæki og einstaklinga eru meginástæðan fyrir því að atvinnuleysi er viðvarandi í Evrópu. Svo miklar kvaðir og svo margar reglur hafa verið settar fyrir atvinnulífið að það bara stoppar.

Síðan er í 25. gr. alvarlegt atriði sem ég ætla að biðja menn að athuga. Þar stendur, með leyfi herra forseta: ,,Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við ráðningu, ... skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.``

Þetta er neikvæð sönnunarbyrði. Maðurinn á að sanna að hann sé saklaus. Hvar í ósköpunum er það til? Hvað eru menn að gera? Á að snúa dómskerfinu við? Hafa menn ekki hingað til verið saklausir þar til þeir eru fundnir sekir? Það er ekki hér. Þetta er mjög alvarlegt. Ég vil endilega benda þeirri nefnd sem fær frv. til umsagnar að fara mjög rækilega í gegnum þetta atriði.

Herra forseti. Burt séð frá þeim alvarlegu athugasemdum sem ég hef gert er frv. gott, miðað við þær forsendur sem öll baráttan gengur út á. Ég vona að forsendur jafnréttisbaráttunnar, ekki bara hér á landi heldur um allan heim, sú aðferð að telja hausa, séu réttar. Ég vona að þetta frv. leiði til þess að jafnrétti karla og kvenna náist, svo ekki sé talað um jafnrétti fólks. Ég vona jafnframt að jafnrétti komist á hjá þeim sem þessu frv. er ekki beint að. Ég vona unga, snjalla, vel menntaða fólkið okkar komist að og verði ekki ,,frústrerað``, svo ég noti slettu, yfir að komast aldrei í stöður sem það ætti með sanni að vera í. Ég vona að þetta frv. leiði af sér eitthvað í þá veru að jafnrétti komist á og hæfasta fólkið geti beitt hæfileikum sínum til þjónustu við þjóðina.