Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 11:38:08 (3914)

1999-02-19 11:38:08# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[11:38]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Kosturinn við hv. þm. Pétur Blöndal, 10. þm. Reykv., er sá að hann setur skoðanir sínar oft hressilega og hispurslaust fram. Það býður þar af leiðandi oft upp á lífleg skoðanaskipti við hv. þm., í raun og veru jafnt í þeim tilvikum sem maður kann að vera honum sammála sem og hinum, sem endrum og sinnum ber við, að maður er honum ósammála.

Varðandi þá fullyrðingu sem kom fram í máli hv. þm. að í reynd væri vandamálið fyrst og fremst aðstöðumunur fólks, misrétti milli manna í samfélaginu, að það væri undirrót þess vanda sem við værum að glíma hér við og ræða um sem aðstöðumun kynjanna, þá er ég sammála hv. þm. að hluta til. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að misréttið almennt birtist einnig í þeirri mynd. En það er líka um kynjabundið misrétti að ræða. Veikleikinn í málflutningi hv. þm. liggur, held ég, í því að hann horfir fram hjá þeirri staðreynd að hefðbundin kynjahlutverk eru hér einnig að verki og aðstöðumunur kynjanna vegna ólíkra hlutverka þeirra í okkar samfélagi, eins og þau hafa a.m.k. verið.

Þegar hv. þm. kemur svo að lausnarorðinu mikla, gróðanum og arðsemiskröfunni, þá held ég að hv. þm. sé farinn að keyra alveg hressilega út af því að staðreyndin er auðvitað sú að það er ekki síst í þeim fyrirtækjum sem rekin eru á harðsvíruðum og þröngsýnum gróðaforsendum, þar sem lítið er gert með réttindi starfsmanna, að hallar á, vegna þess að þau fyrirtæki eru líklegri til að segja upp ófrískum konum, ráða síður konur á barneignaaldri og horfa kalt á kynjahlutverkin eins og þau eru í samfélaginu af fullkomnu miskunnarleysi og það er óhagstætt konum. Það er alveg á hreinu, eins og þessi mál standa í dag. Þarna fer hv. þm. því verulega villur vegar.