Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 11:40:28 (3915)

1999-02-19 11:40:28# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[11:40]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. og ég erum oft á mismunandi skoðun og það er eðlilegt vegna þess að við höfum mismunandi heimssýn. Það er ekki þar með sagt að við höfum rangt fyrir okkur, hvor um sig. Miðað við þá heimssýn sem hann hefur þá hefur hann aðra skoðun á þeim lausnum eða þeim leiðum að sama markmiði sem við öll höfum, þ.e. hamingju þjóðarinnar.

Varðandi arðsemiskröfuna hjá mörgum fyrirtækjum sem eru sem harðsvíruðust, reka ófrískar konur og gera annað slíkt, þá er það þannig að arðsemiskrafa er tiltölulega ný á Íslandi, líka hjá einkafyrirtækjum. Það var einu sinni ljótt að græða. Það var mjög ljótt og menn reyndu að reka þetta nánast á núlli. Og fyrirtæki sem sýna starfsmönnum sínum óbilgirni og reka ófrískar konur gefa öðrum starfsmönnum skilaboð sem ekki eru beint jákvæð.

Menn eru sífellt að uppgötva það betur að starfsfólkið er yfirleitt verðmætasta eign hvers fyrirtækis. Það er mjög mikilvægt að gefa starfsfólkinu jákvæð skilaboð, gefa starfsfólkinu skilaboð um að fyrirtækið sé heiðarlegt og sanngjarnt. Þetta saman, arðsemiskrafa til fyrirtækisins og skilaboð um að fyrirtækið sé heiðarlegt og gott við starfsmennina, á að leiða til þess að jafnrétti náist fram.

Ég hef ekki enn þá fengið svar við því hvernig standi á því að fyrirtæki hafi efni á því að ráða óhæfari einstakling á hærri launum ef hugað er að gróða fyrirtækisins og hagnaði.