Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 11:44:25 (3917)

1999-02-19 11:44:25# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[11:44]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta er hárrétt og þetta er punkturinn sem við eigum að beina kröftum okkar að en ekki að því að telja hausa eða reyna að þvinga fram jafnrétti með jafnréttislögum. Við eigum að breyta forsendunum og t.d. því að karlar fari í fæðingarorlof ekki síður en konur þannig að gagnvart fyrirtækjunum sé það algjörlega hlutlaust hvort það ræður ungan pilt eða unga stúlku.

Það á líka að taka þannig á veikindum barna að jafnsjálfsagt sé að faðirinn sé heima og móðirin. Þessum forsendum eigum við að breyta. Við eigum að breyta forsendum þess að fyrirtækin ráði jafnt karla og konur. Þegar það hefur verið gert og þegar byggð hefur verið upp krafa um arðsemi og þegar búið verður að fækka opinberum fyrirtækjum með því að einkavæða þau og minnka þetta fé án hirðis, sem ég kalla svo, og komin er arðsemiskrafa inn í allt kerfið, inn í skólana og heilbrigðisstofnanirnar og alls staðar, þá munum við sjá jafnrétti. Þá hefur enginn efni á því að ráða óhæfari einstakling --- einstakling, ekki karl --- óhæfari einstakling á hærri launum. Þá munu allir þurfa að ráða einstaklingana eftir hæfileikum þeirra, menntun og getu og öðru slíku. Þá munum við loksins sjá jafnrétti, þegar við erum búin að breyta þessu, bæði arðsemiskröfunni og forsendunum fyrir því að ráða karl eða konu.