Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 11:54:14 (3919)

1999-02-19 11:54:14# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[11:54]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Hér fer fram mjög góð umræða um frv. til jafnréttislaga enda eru það lög sem skipta fjölskyldurnar í landinu, karla og konur, mjög miklu máli. Það er mjög mikilvægt að alþingismenn gefi sér tíma til að ræða einstök atriði frv. og hugmyndafræðina á bak við frv. eins og þetta og slík lög. Ég verð hins vegar, herra forseti, að láta þess getið þó að hv. þm. Pétur Blöndal sé farinn úr salnum að ég deili ekki hugmyndafræði hans um að arðsemi og gróði ráði á öllum sviðum í lagasetningu okkar og viðhorfum til þróunar í þjóðfélaginu. Sumu öðru í afstöðu þingmannsins, svo sem það að jafnrétti auki hagsæld, er ég hins vegar sammála og það að mikilvægt sé að jafnréttislögin snúist um jafnrétti karla og kvenna. Þrátt fyrir að þessi jafnréttislög sem hér verða sett beinist fyrst og fremst og eingöngu að jafnrétti karla og kvenna þá er að sjálfsögðu réttur allra einstaklinga óháð húðlit, fötlun eða stöðu, tryggður í stjórnarskrá og við eigum hvergi að víkja í því að reyna að tryggja þeim einstaklingum sem allra jafnasta stöðu. En það eru bara ekki þessi lög sem fjalla um það.

Herra forseti. Í gær fór ég í andsvar við félmrh. vegna tilurðar frv. og þess hverjir komu að gerð þess. Það kemur fram á bls. 10 í greinargerðinni að þess er getið að þingflokkum stjórnarandstöðunnar var boðið að koma á fund nefndarinnar og að þingflokkar Kvennalista, Alþb. og Alþfl. þáðu ekki boðið, en Kristín Ástgeirsdóttir kom á fund nefndarinnar og lagði henni til ýmsar gagnlegar hugmyndir. Ég gat þess í gær hver rökin hefðu verið fyrir því hjá okkur að þiggja ekki boð um að koma á fund nefndarinnar og koma með athugasemdir eða upplýsingar. Það sem á að gera í lögum sem varða almannaheill eins og jafnréttislög gera, er að tryggja aðkomu sem flestra og ekki síst aðkomu stjórnarandstöðunnar á Alþingi. Þetta endurtek ég hér í upphafi máls míns um frv.

Ég mun hafa aðstöðu til að koma að umfjöllun um frv. í félmn. þar sem ég á sæti og taka þátt í yfirferð þess og viðræðum við aðila úti í þjóðfélaginu um það sem e.t.v. má betur fara í frv.

Það er margt áhugavert í þessu frv. og margt má teljast til nýbreytni og ég styð heilmikið af því sem hér er að finna. Ég vil a.m.k. gera tilraun með þær breytingar sem getið er um hér vegna þess að við vitum og það hefur komið fram í þessari umræðu að þrátt fyrir að við höfum verið með góð jafnréttislög þá skortir á að þau nái árangri sínum og ég hef reyndar á því skýringar.

Það hefur verið vandi jafnréttislaganna að lögin eiga ekkert að kosta. Bent hefur verið á það í þessari umræðu að samkvæmt umsögn fjmrn. sé kostnaður við frv. talinn í milljónum en ekki tugum milljóna, eða ein milljón. Það er mikill vandi okkar að kveðið er í jafnréttislögum á um stefnumörkun og það er kveðið á um aðgerðir og kveðið er á um hvað þurfi að gerast til að jafnrétti náist. En árangur af lagasetningunni er undir því kominn að fjármagn fáist til aðgerða, ýmist á stjórnsýslustigi sveitarstjórna eða á stjórnsýslustigi því sem félmrh. sér um. Það skortir fjármagn til að jafnréttislög verði virk, ekki bara fjármagn ofan frá heldur stýringu á þá lund að hér verði launajafnrétti og jafnrétti í reynd, jafnrétti með aðgerðum sem kosta fjármagn. Þessi árangur hefur ekki sést undangengin fjögur ár. Það hefur frekar verið dregið úr fjármagni á ýmsum sviðum en að það væri aukið.

Í upphafi greinargerðarinnar er fyrst getið um hverjir hafi unnið að gerð frv. Það er hið mætasta fólk þótt ég hafi endurtekið gagnrýni mína á það hverjir fengu ekki aðkomu að gerð frv. Síðan er þess getið í greinargerðinni að tekið hafi verið sérstaklega tillit til eða hugað að skyldum sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist á grundvelli EES-samningsins. Getið er um tilskipanir Evrópusambandsins sem eru orðnar hluti samnings okkar um EES og talað er um tilskipanir sem varða samræmingu á lögum um beitingu meginreglunnar um sömu laun karla og kvenna, um aðgang að störfum og starfsþjálfun og um tilskipun um rammasamning um foreldraorlof. Og það leiðir hugann að því sem ég hér hef nefnt, að fjármagn skortir til aðgerða.

[12:00]

Mig langar sérstaklega út af fæðingarorlofi, foreldraorlofi og rétti þungaðra kvenna, sem eru Evrópusambandstilskipanir, að nefna að núna á sama tíma og við erum að ræða frv. til laga um jafnréttismál, þá liggur fyrir að mál sem varða tilskipun og rétt þungaðra kvenna eru óútkljáð og að samtök launafólks hafa kært til EFTA vegna réttarstöðu þungaðra kvenna. Meginatriðið í þeirri kæru er að þungaðar konur njóta ekki fjárhagslegs réttar. Þar eru t.d. nefndir 60 dagar vegna veikindaleyfis á meðgöngu og að tilskipunin kveður á um að þungaðar konur njóti verndar sem svarar launum. Ljóst er að þótt fæðingarorlof í tilskipuninni sé minnst 14 vikur þá er það svo að fyrstu 14 vikurnar eiga að koma til fæðingarorlofsgreiðslur sem svara til veikindagreiðslna starfsmanns. Það er alveg ljóst að á Íslandi eru greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins í fæðingarorlofi mun lægri en veikindagreiðslur þannig að strax hér er kominn ágreiningur á milli þeirra sem tilskipunin nær til og framkvæmdarvaldsins. Sama gildir um ráðningarvernd. Ef þunguð kona lendir í því að fá uppsögn á að rökstyðja þá uppsögn skriflega af því að ekki má segja vanfærri konu upp störfum samkvæmt tilskipuninni en hér er ekkert sem ver þann rétt. Hér finnst ekkert í lögum um rétt hennar að ef henni verður sagt upp störfum sé sú uppsögn skriflega rökstudd. Við höfum fengið að heyra það líka, þegar leitað hefur verið til okkar að við skoðum rétt foreldra langveikra barna, að þess eru dæmi að foreldrum langveikra barna hefur verið sagt upp störfum. Þetta nefni ég til að við horfum á það opnum augum að á sama tíma og við erum að setja lög til að reyna að ná jafnrétti og við viljum að unnin sé framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til að við náum jafnrétti, þá gengur þetta svo hægt. Ekki eru sett annars staðar inn þau lagaákvæði sem þarf, ekki er sett fjármagn í málaflokkana sem þarf til að hægt sé að verða við og gera jafnréttislögin virk.

Á borðum okkar liggur svar sjútvrh. við fyrirspurn hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Hún spyr um fimm afmörkuð verkefni sem á að vinna í sjútvrn. og þá er sagt að á þessu rúma hálfa ári sem liðið er frá samþykkt áætlunarinnar sé eingöngu hafin vinna að einu verkefni en, herra forseti, hér er um að ræða næstum heilt ár frá því framkvæmdaáætlunin var samþykkt frá Alþingi. Af fimm verkefnum er eitt farið í gang, og það nýfarið í gang. Þetta segir okkur hvað þessi mylla malar hægt og ekki einu sinni örugglega. Þetta er vandi okkar sem erum að fjalla um góð jafnréttislög og skerðir þær væntingar sem við höfum til að lögin verði tæki til að ná fram því jafnrétti sem konur og konur og karlar vilja í dag. Og það er eitt af því sem ég fagna að sjá í frv. að gert er fullkomlega ráð fyrir að konur og karlar ætli að vinna að því saman að jafnréttislög geti orðið virk og reyna að ná því fram að hér verði jafnrétti, enda er það hagsmunamál kvenna og karla því að í langflestum tilfellum eru það konur og karlar sem stofna fjölskyldur og því aðeins náum við fram virku jafnrétti að hér sé líka virk fjölskyldustefna. Þetta hangir saman.

Ég vona, herra forseti, að með stofnun Skrifstofu jafnréttismála sé verið að gefa til kynna aukið vægi jafnréttismálanna, að verið sé að búa til eins konar stofnun. Ég get alveg hugsað mér að gera þá tilraun að kljúfa það upp eins og frv. gerir ráð fyrir og skipa í Jafnréttisráð á nýjan hátt. Hins vegar eru nokkur atriði sem mig langar að nefna varðandi Jafnréttisráð og breytta mynd þess og þingið. Í yfirliti yfir helstu nýmæli kemur fram hvernig hið nýja Jafnréttisráð verði vettvangur hagsmunasamtaka og þeirra sem vilja leggja sitt af mörkum við stefnumörkun og ráðgjöf í jafnréttismálum. Þar er hugsunin að þrír fulltrúar komi frá háskóla, Kvenfélagasambandi og Kvenréttindafélagi Íslands og einn án tilnefningar sem verði formaður ráðsins og síðan verði þrír fulltrúar kosnir á jafnréttisþingi. Talað hefur verið hér um aðila vinnumarkaðarins og það sé í lagi að fulltrúar þeirra hverfi úr ráðinu. Hins vegar hef ég alltaf talið mjög mikilvægt að gott samráð sé við launþegasamtökin vegna þess að það er mjög mikilvægt að launþegasamtökin vinni á sama hátt og Alþingi og Jafnréttisráð að jafnrétti, ekki bara launajafnrétti heldur öðru jafnrétti, eins og ég hef getið um. Launþegasamtökin eru að reyna að ná því t.d. fram að jafnrétti samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins verði virkt, og er þar að kljást við framkvæmdarvaldið sem leggur fram þetta frv.

Hins vegar er þess getið að félmrh. boði þingið og í 9. gr. er þess getið hverjir verði boðnir til þess þings. Þar er sagt að þar skuli vera auk Jafnréttisráðs, fulltrúar félagasamtaka og stofnana sem vinna að jafnréttismálum, aðilar vinnumarkaðarins svo og aðrir sem ráðið telur að eiga skuli seturétt hverju sinni og auk þess fulltrúar ráðuneyta, þingflokka á Alþingi og sveitarstjórna, og framkvæmdastjóri Skrifstofu jafnréttismála. Félmrh. fær mikið vægi í að boða þingið og þá vakna spurningar um hver beri fram fulltrúa á þinginu eða hversu margir fulltrúar verða á þinginu. Það er ekkert sem segir í 9. gr. hversu mörgum verður boðið. Verður einum fulltrúa boðið frá hverjum af þessum aðilum? Einum fulltrúa þingflokka, einum frá hverjum aðila vinnumarkaðarins, einum frá hverri sveitarstjórn eða jafnréttisnefnd?

Síðan er orðalag í 9. gr. sem ég vil spyrja um. Í þessari málsgrein segir hverjir eigi seturétt og síðan segir: ,,... svo og framkvæmdastjóri Skrifstofu jafnréttismála, eiga rétt til setu á þinginu með málfrelsi og tillögurétt.`` Þar segir sem sagt: ,,Jafnframt skulu fulltrúar ráðuneyta, þingflokka á Alþingi og sveitarstjórna, svo og framkvæmdastjóri Skrifstofu jafnréttismála, eiga rétt til setu á þinginu með málfrelsi og tillögurétt.``

Þýðir þetta að þeir sem taldir eru upp á undan hafi atkvæðisrétt á þinginu en t.d. fulltrúar sveitarstjórna og Alþingis eingöngu málfrelsi og tillögurétt? Mig langar að fá svar við þessu og líka um fjölda fulltrúa og hve stórt þingið verður vegna þess að það skiptir mjög miklu máli að þetta verði ekki þing sem viðkomandi félmrh. getur á einhvern hátt haft í hendi sér og verið með tillögur um hverjir eigi að sitja í Jafnréttisráði vegna þess að þá erum við komin með stjórnvaldsapparat í staðinn fyrir hina góðu dreifðu nefnd sem Jafnréttisráð á að vera. Þetta er mjög mikilvægt.

Mér finnst mikilvægt að úrskurðarnefnd jafnréttismála muni kveða upp bindandi úrskurði. En ég vil líka spyrja um hversu þungt og mikið gildi þessir bindandi úrskurðir hafa. Hvað gerist ef ekki verður farið að úrskurði úrskurðarnefndarinnar? Það má vera að þessi spurning hafi komið fram, ég hef ekki getað setið alveg við umræðuna en það er mikilvægt að þetta komi fram.

Á sama hátt langar mig að nefna annað nýmæli sem er að hvert ráðuneyti skipi jafnréttisfulltrúa. Það finnst mér gott mál, en það kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir að ráða þurfi nýja starfsmenn í ráðuneytin og þá er ástæða til að óttast að í ráðuneytunum fái einhver þetta verkefni og að jafnréttismálin verði afgangsstærð ef viðkomandi einstaklingur sem fær það verkefni er ekki því áhugasamari um jafnréttismál. Og þá vaknar líka sú spurning hvernig eftirfylgni verður á því að ráðuneytin séu í raun að vinna með jafnréttisfulltrúa sem skoði málið á þann hátt sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég hef áhyggjur af því að í þeirri setningu felist: Það á einhver í hverju ráðuneyti að sjá um jafnréttismál. Við erum með svo bitra reynslu af því að ráðuneyti og stofnanir hafa átt að setja sér jafnréttisáætlanir og framkvæmdaáætlanir og kallað hefur verið eftir þessu aftur og aftur. Stundum er þetta gert og annars staðar er þetta gert í takmörkuðum mæli en þrátt fyrir eftirfylgni hefur ekki orðið nægilegur árangur af þessu.

Eitt stærsta málið í frv. varðar þá hugmyndafræði sem ég er mjög upptekin af í störfum mínum á Alþingi og það er ákvæðið að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Að samræming fjölskyldu- og atvinnulífs sé viðfangsefni hjá okkur líka alveg eins og það er í norrænni samvinnu og hjá Evrópuráðinu og alls staðar. Við erum langt á eftir á Íslandi. Það er bara þannig að fjölskyldumál eru ekki í því öndvegi sem þau ættu að vera í íslensku samfélagi. Fjölskyldumálin hafa ekki fengið þann forgang, ekki fengið þann stuðning í ráðuneytunum sem fjölskyldan í íslensku samfélagi á að hafa. Það er svo einfalt. Á Norðurlöndunum er fjölskyldunni gert hærra undir höfði. Á Norðurlöndunum er lengra fæðingarorlof, bæði karla og kvenna, og hærri fæðingarorlofsgreiðslur. Á Norðurlöndunum er meiri réttur tryggður fyrir fólk á vinnumarkaði vegna fjölskylduábyrgðar en hér, þar eru betri almenn launakjör, almennt betri tryggingar og styttri vinnutími. Og langur vinnutími foreldra ungra barna er eitthvert það erfiðasta mál hér á landi og þeir veggir sem t.d. fjölskyldur langveikra barna rekast á eru hörmulegir og er þá vægt til orða tekið, vegna þess að þá verður tekjutap og þá kemur í ljós að velferðarkerfið okkar er götótt. Þau börn sem lenda í langvarandi veikindum eiga ekki einu sinni sama rétt og fötluð börn. Það þarf því að setja þau markmið að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf, að gera kröfur til vinnumarkaðarins um samvinnu þar að lútandi, að fyrirtækin í landinu fari að axla ábyrgð á starfsmönnum sínum, bæði körlum og konum, á þá lund að fyrirtækin horfist í augu við að bæði karlar og konur þurfa að fara frá vinnu vegna veikinda barna, að bæði karlar og konur þurfa veikindaorlof, að bæði karlar og konur eigi rétt á fæðingarorlofi og að lengja þurfi fæðingarorlof og að fyrirtækin eigi að koma að því máli. Ef okkur tekst í kjölfar þess að setja ný jafnréttislög, bæði með því gamla og góða sem hefur verið að finna í okkar lögum og með þeim nýmælum sem hér eru og hugsanlega næst samstaða um, þá er vel, herra forseti.