Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 12:14:44 (3920)

1999-02-19 12:14:44# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[12:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fagna þessu frv. þótt ég hljóti um leið að harma að það er ansi seint á ferðinni miðað við vinnu á þessu þingi. Ég veit svo sem ekki hversu miklu gáfulegu ég get bætt við þá ágætu umræðu sem hefur orðið um málið og ég hef reynt að fylgjast með að mestu leyti.

[12:15]

Þó vil ég aðeins víkja að nokkrum atriðum í frv. sjálfu. Áður en að því kemur, herra forseti, held ég að ég láti það eftir mér að fara aðeins út í heimspekilegar umræður um jafnréttismálin í víðara samhengi og ég geri það m.a. út frá orðum hv. þm. Péturs H. Blöndals áðan. Eins og ég sagði reyndar í andsvari þá býður hv. þm. oft upp á skoðanaskipti með sinni hressilegu nálgun og sjónarmiðum sem hann setur feimnislaust fram og það vakti mann til umhugsunar um ýmis grundvallaratriði þessa máls sem er gott því það er gjarnan ekki síður áhugavert að ræða grundvallarspurningar en sitja rígfastur í smáatriðum lagatextans sjálfs þegar málaflokkur af þessu tagi er til umfjöllunar.

Hv. þm. varpaði fram þeirri stóru spurningu hvort jafnréttisbaráttan og umræða um jafnréttismál væri jafnvel á röngu spori, við værum jafnvel í grundvallaratriðum með skakka nálgun í þessum efnum. Þetta er mjög stór og þörf spurning og ástæða til að ræða. Er það þannig að svo hægt hafi miðað í þessum efnum, eins og ráða mátti af máli þingmannsins og jafnvel fleiri hér, að það veki óhjákvæmilega upp spurningar af þessu tagi, hvort menn séu jafnvel að heyja baráttuna á röngum forsendum og það sé orsök þess eða skýringin á því að menn nái ekki árangri?

Ég held það sé nokkuð til í þessum orðum hv. þm. Péturs H. Blöndals, að menn hafi kannski á köflum misst sjónar á hinum undirliggjandi orsökum kynjamisréttisins en gerst um of uppteknir af því að telja hausa, skoða hlutföll og annað því um líkt eins og hv. þm. orðaði það. Þetta voru reyndar að sumu leyti ekki ósvipuð orð og ég lét falla á umræðufundi um jafnréttismál hér handan götunnar ef svo má segja, herra forseti, yfir í Ráðhúsi borgarinnar vegna þess að mér finnst stundum spurningar um tölfræði og t.d. tölfræðilegan samanburð Íslands við hin Norðurlöndin þar sem hallar á okkur, ef t.d. er tekin þátttaka kvenna í stjórnmálum, ekki segja nema hálfa sögu. Jú, þær tölur segja þá sögu að við erum verr á vegi stödd. Við eigum færri konur á þingi og færri konur í sveitarstjórnum. En tölfræðin sem slík segir okkur ósköp lítið um það hvers vegna þetta sé svona. Þá komum við að því að ræða hin djúplægu undirliggjandi mál og rök í hlutunum og það er áhugavert.

Ég ætla því að láta það eftir mér, og það er svo sem ekki mikil fórn, að vera að talsverðu leyti sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um að þörf sé á því að víkka umræðuna út að þessu leyti, en ég er líka ósammála honum um sumt og það reyndar mjög harkalega þegar kemur að skilgreiningu hans á hlutverki markaðarins og gróðahyggjunnar inn í þetta samhengi. Það er svo sem ekkert að undra að við séum ekki nákvæmlega akkúrat upp á punkt og prik sammála um það. Mér finnst hv. þm. einnig leggja of mikla áherslu á það í sínu máli að mælikvarðinn á jafnrétti kynjanna felist fyrst og fremst í því að konur hafi ekki náð jafn miklum frama í atvinnulífinu. Hann gerir það vissulega að hluta til en jafnréttisbaráttan snýst um svo margt fleira og í raun mikilvægari hluti í mínum huga en það. Hún snýst um sjálfa gerð samfélagsins, um hlutverk kynjanna, uppbyggingu fjölskyldunnar o.s.frv. En það er rétt að misrétti almennt í þjóðfélaginu er hluti af þeim vanda sem við erum að glíma við. Ég er sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um það að í þjóðfélagi þar sem misrétti er mikið af hvaða toga sem er, þá er náttúrlega alveg augljóst mál að kynjamisrétti er þar á ferðinni í bland og fólgið í því misréttisástandi sem er í samfélaginu. Það er eiginlega alveg augljóst. En það breytir ekki hinu að til staðar getur jafnframt verið kynjabundið misrétti og svo er á Íslandi. Ég held reyndar að við getum varla sagt annað en að almennt hafi þjóðfélagið gerst heldur þroskaðra í félagslegu tilliti á síðustu áratugum. Ég held að fáir vildu skipta á kjörum kvenna eða fátæks fólks á 18. eða 19. öldinni borið saman við það sem er í dag. Þá er ég ekki að meina bara í efnahagslegum skilningi heldur líka hvað beinlínis kynbundið misrétti og misrétti almennt, hlutfallslegt eða relatíft misrétti, ef svo má að orði komast, snertir. Þetta kynjamisrétti er því til staðar. Það er undirliggjandi og liggur í þessum hlutverkum. Það liggur í viðhorfi, viðmóti, andrúmslofti og mörgu fleiru. Hvernig breyta menn því? Jú, menn þurfa að sjálfsögðu að reyna að ráðast að rótum vandans og uppræta það þar sem það sprettur fram. Hvar gerist það? Það gerist í gegnum uppeldið. Það gerist í gegnum þau hlutverk sem menn ganga inn í í samfélaginu. En á meðan við erum að því þá beitum við jafnframt þeim ráðstöfunum sem við verðum sammála um að gera til að þola ekki misrétti þar sem það birtist. Það er og verður því miður örugglega þannig lengi að það þarf að setja lög til að tryggja hluti sem okkur finnast sjálfsagðir, eins og t.d. mannréttindi eða öryggi borgaranna. Það þarf að gera það. Okkur finnst auðvitað alveg sjálfsagt að enginn maður hafi rétt til að taka annars líf. En við setjum líka lög um að það sé bannað. Er það ekki? Ég held það sé alveg nákvæmlega eins með kynjamisréttið, að samtímis því sem við reynum að uppræta það óréttlæti sem í þessu er fólgið og þann skort á mannréttindum sem í því er fólginn að staða kynjanna skuli ekki vera jöfn, þá höfum við um það lagaumgjörð og þar kemur að jafnréttislögunum. Og þetta eru jafnréttislög en ekki allsherjarmannréttindalög eða ákvæði sem geyma hluti eins og þá sem stjórnarskráin býr yfir. Ég get reyndar tekið undir það að að sumu leyti væri kannski skýrara að taka það beinlínis fram með því að láta þetta heita frv. til kynjajafnréttislaga þannig að þessu væri ekki ruglað saman við jafnrétti í víðasta skilningi þess orðs þegar komið er út í mannréttindi eða efnahagslegan eða félagslegan jöfnuð sem er aldeilis óskyldur hlutverkum kynjanna.

Herra forseti. Ég svaraði í andsvari því sem mér fannst vera mesti veikleikinn í málflutningi hv. þm., þ.e. hvað varðar hlutverk markaðarins í þessu sambandi og spurninguna um arðsemiskröfur í fyrirtækjum og gróða, af því ég held það liggi þannig að einmitt þar eru á ferðinni kraftar og öfl sem þarf að hemja, ella verða þeir til þess að auka kynjamisréttið. Það er þannig. Þeir leggjast ofan á hinar undirliggjandi aðstæður sem eru þarna fyrir hendi. Þeir gera það víst, hv. þm. Það liggur alveg gjörsamlega í hlutarins eðli að maður sem rekur fyrirtæki sitt kaldrifjað og á ósvífinn hátt með skammtímagróðahagsmuni í huga er líklegur til að gefa skít í það þótt ákvarðanir hans birtist þannig að þær séu óhagstæðari öðru kyninu en hinu. Hann horfir á það hvað hann getur mjólkað út úr starfsmanninum á næstu tveim, þrem árum. Og ef hætta er á því að starfsmaðurinn gerist ófrískur og verði lengur að verða léttari en sá sem hér talar --- það tók hann ekki nema korter --- þá birtist það þannig að það leggst ofan á það misrétti sem þarna er fyrir og undirliggjandi. Þetta vitum við. Þetta sýna kannanir. Það þarf í raun og veru ekki um þetta að deila. Það er þannig.

Hitt get ég svo sem alveg sagt og endurtekið að fyrirmyndarsamfélagið er þannig að þetta skiptir ekki máli fyrir fyrirtækið, kyn starfsmannsins er hlutlaust gagnvart því. Þannig á það auðvitað að vera þó mér bjóði að vísu í grun að þegar svo væri komið, að hlutverk karlmanna gagnvart umönnun og ábyrgð á fjölskyldu og heimili og öðru slíku væri orðið fullkomlega jafnt og staða þeirra að öðru leyti jöfn, t.d. hvað varðar fæðingarorlof eða aðra slíka hluti, þá mundi halla á karlmennina og konur mundu verða eftirsóttari starfsmenn. Það eru mörg teikn á lofti um að þróunin stefni í þá átt. T.d. eru konur langlífari en karlmenn og að ýmsu leyti betur gerðar, snemmendis bráðþroska umfram karlmenn o.s.frv. þannig að það er því miður þannig að út frá slíkum sjónarmiðum gæti alveg verið ástæða til að búa sig undir þá framtíð fyrir hönd karla að í framtíðarríkinu mundi frekar þurfa löggjöf til að lappa upp á þeirra stöðu. En það er því miður langt í land með það.

Þá að frv., herra forseti. Það sem ég vildi sérstaklega nefna er í fyrsta lagi spurningin um breytta skipan Jafnréttisráðs. Það er vissulega umdeilanlegt hvort þar er að öllu leyti farið inn á rétt spor. Það má alveg um það deila hvort skynsamlegt sé að aðilar vinnumarkaðarins sem þarna hafa átt setu, átt tilnefningarrétt ef ég man rétt, hverfi út vegna þess að auðvitað er framgangur þessara mála á þeim vettvangi gífurlega mikilvægur. Það má náttúrlega undir engum kringumstæðum skiljast sem svo að þeim aðilum þjóðfélagsins komi þetta eitthvað síður við en áður hefur verið. Það er ekki svo og ég veit að hugsunin er ekki sú. Ég get að því leyti verið sammála þessari breytingu að oft vill það verða reynslan að svona sjálfvirkar tilnefningar hafa tilhneigingu til að verða þreyttar og eru ekki endilega ávísun á virka þátttöku og brennandi áhuga þeirra sem þannig eru sjálfkrafa settir inn í einhver hlutverk. Ég hygg að finna megi mörg dæmin um það án þess ég sé að láta að því liggja að fulltrúar aðila vinnumarkaðarins hafi verið umfram aðra áhugalausir í Jafnréttisráði á umliðnum árum. Þarna sýnist mér vera reynt að fara þá leið að skipa aðila sem eðli málsins samkvæmt ættu að hafa alveg sérstakan og brennandi áhuga á því að taka á jafnréttismálunum og það er vel og mér finnst allt í lagi að gera þessa tilraun. Ég held einnig að það sé gott að hafa þessa kosningu fulltrúa á jafnréttisþingi. Það gefur þinginu stöðu. Ég tek eftir því að þetta er hliðstætt við skipan Náttúruverndarráðs samkvæmt náttúruverndarlögum sem hér var einnig verið að dreifa á borð þingmanna fyrir skemmstu. Svona blanda af tilnefningum og kosningum getur gefist ágætlega ef hún heppnast vel.

Aðeins í sambandi við markmiðsgrein frv., herra forseti, í öðru lagi. Mér finnst kannski spurning hvort ekki hefði mátt gera upptalninguna aðeins ítarlegri eða smáatriðakenndari, mundu einhverjir segja. Ég sakna a.m.k. þar eða einhvers staðar annars staðar að lögð sé alveg sérstök áhersla á kynbundinn launamun í samfélaginu. Og jafnvel einnig í öðru lagi á mikilvægi --- þótt ég viti vel að það er innifalið í almennari fyrirsögnum sem þarna eru á ferðinni, eins og t.d. þessu að samræma fjölskyldulíf og atvinnulíf og jafna aðstöðu og bæta stöðu kvenna sérstaklega í samfélaginu o.s.frv. Mér fyndist að vel kæmi til álita að draga athyglina að þessum hluta vandans alveg sérstaklega, því að ofan á allt annað sem er náttúrlega óhæfilegt og lýtur að aðstöðumun þá er kynbundinn launamunur þegar annað hefur verið sigtað frá, þ.e. það sem leiðir af misjöfnum möguleikum til þátttöku eða yfirvinnu eða annað slíkt eins og komið hefur í ljós í vandlegum könnunum --- við fengum hér eina slíka á okkar borð fyrir einum tveim, þrem árum --- þegar eftir stendur nakinn, kynbundinn launamunur þá er náttúrlega komið að einhverju grimmilegasta óréttlæti sem fyrirfinnst í þessum efnum. Þess vegna finnst mér að draga mætti athyglina kannski skarpar að þeim þætti beint og síðan eins hinu sem snýr að aðstöðu barnafjölskyldna og fæðingarorlofi og öðru slíku. Ég er þeirrar skoðunar að það sé eitt af allra stærstu málunum til að ná árangri á þessum sviðum, þ.e. að stórbæta réttindi barnafjölskyldna almennt og þá ekki síst til fæðingarorlofs, lengja fæðingarorlof, auka möguleika foreldra til að skipta töku fæðingarorlofsins og auka sjálfstæðan rétt feðra sem ekki er yfirfæranlegur. Það er í sjálfu sér beittasta aðferðin til þess að koma þeirri hugsun inn í samfélaginu að umönnun og uppeldi barna og ábyrgð á rekstri heimilisins sé sameiginlegt málefni beggja foreldra, þ.e. í þeim fjölskyldum þar sem báðir foreldrar eru til staðar í heimilishaldinu.

Herra forseti. Þetta tvennt vildi ég leyfa mér að nefna sem möguleg áhersluatriði sem jafnvel væri spurning um hvort ekki ættu að koma sterkar þarna inn, t.d. í markmiðsgrein laganna eða e.t.v. á annan hátt annars staðar í frv. Ég hef svo sem ekki farið yfir það svo nákvæmlega hvort það ætti betur heima í einstökum greinum sem fjalla um afmarkaða þætti í III. kafla þar sem farið er yfir launajafnrétti, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs o.s.frv., þ.e. þar sem farið er yfir einstök atriði sem fram koma í stafliðum markmiðsgreinarinnar.

Aftur að lokum, herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. er fram komið og það er margt jákvætt í því, í raun og veru kannski flest enda varla við öðru að búast. Það var varla von á því að fram kæmi löggjöf þar sem menn væru að bakka í þessum efnum heldur hlýtur það þvert á móti að vera markmiðið að herða róðurinn og reyna að taka á í þessum efnum. Það sýnir sig að enn er rík þörf til þess hér á Íslandi. Þó við getum sagt sjálfsagt að við séum vel á vegi stödd borið saman við ýmsar aðrar þjóðir þar sem mikið vantar á og miklu meira skortir upp á jafnrétti kynjanna en hér, þá er það á hinn bóginn því miður þannig að við erum að ýmsu leyti aftar á merinni í þessum efnum en þær þjóðir sem við viljum helst bera okkur saman við, þ.e. hin Norðurlöndin, a.m.k. skandinavísku löndin og það er mismunur sem við viljum heldur ekki sætta okkur við.