Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 12:37:26 (3924)

1999-02-19 12:37:26# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[12:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega spurning hvort við þurfum ekki bara sérstaka umræðu sem gæti alveg eins verið undir fyrirsögninni ,,efnahagsmál`` til að ræða þennan þátt málsins sem er ákaflega áhugaverður, þ.e. þetta með gróðann, þetta með arðsemiskröfuna sem hv. þm. leggur gjarnan til grundvallar í máli sínu sem eiginlega hinn eina drifkraft samfélagsins sem mark sé á takandi, einu uppsprettu góðra hluta og að allt annað sé í raun gagnslaust og hafi lítið upp á sig.

Ég vil trúa því að fleiri viðhorf en þau ein að hámarka arð fjármagnsins geti skilað árangri, t.d. bara félagslegur þroski og réttlætiskennd. Skyldi það ekki vera þannig að það gæti skipt einhverju hvort í brjósti stjórnendanna búi félagslegur þroski og réttlætiskennd en ekki bara gróðahyggjan ein? Er það ekki þannig að sæmilega vel þenkjandi manni sé fremur treystandi til þess að kasta ekki ófrískum konum út á guð og gaddinn bara af því að hann vill losna við það óhagræði sem það er fyrir fyrirtækið að vera með svoleiðis lið í vinnu, og að fleira en gróðahyggjan ein geti komið þarna við sögu?

Herra forseti. Svo eru líka mjög áhugaverðar þessar vangaveltur þingmannsins um fé án hirðis, þetta ofboðslega vandamál sem er hið hirðislausa fé á flakki um heiminn. Það er eiginlega dálítið önnur umræða sem ég hef að vísu mikinn áhuga á að taka við hv. þm. því að á því máli eru margar hliðar. Ég held að þá komum við aftur að því hvort skuli ráða og hvorra réttur skuli vera hærri, fjármagnsins og fjármagnseigendanna eða þeirra sem vilja fyrst og fremst leggja til grundvallar starfi sínu í stjórnmálum og ákvörðunum spurninguna um betra, réttlátara og manneskjulegra samfélag.