Jafnréttislög

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 13:16:39 (3936)

1999-02-19 13:16:39# 123. lþ. 70.4 fundur 498. mál: #A jafnréttislög# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[13:16]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að sektarfjárhæðin verði að fara eftir eðli brots. Brot geta verið svo mismunandi og ég vil ekki tjá mig um upphæðina.

Hvað launaleyndina varðar eða kyngreiningu á launaleynd, þá getur vel verið að það gangi og þá er það bara gott og vel. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að launakerfi séu gegnsæ og ekki eigi að vera neitt að fela í þeim efnum.

Ég man ekki hvort það voru fleiri spurningar. (GGuðbj: Um aðstoðarmennina.) Já, varðandi aðstoðarmennina. Ég veit ekki hvernig það er í öðrum ráðuneytum, en það er þannig í félmrn. að ég á mjög gott samstarf við aðstoðarmenn mína en líka starfsfólkið, hvern og einn starfsmann. Þetta er að vísu ekki mjög fjölmennt ráðuneyti, rúmlega 20 starfsmenn, en við reynum að vinna eins og teymi, þ.e. ég hef persónulegt samband beint við alla starfsmenn ráðuneytisins og þeir hafa persónulega samband við mig. Það er engin píramídauppbygging á þessu ráðuneyti sem betur fer.