Háskóli Íslands

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 14:53:11 (3942)

1999-02-19 14:53:11# 123. lþ. 70.5 fundur 509. mál: #A Háskóli Íslands# (heildarlög) frv., 510. mál: #A Háskólinn á Akureyri# (heildarlög) frv., 511. mál: #A Kennaraháskóli Íslands# (doktorsnafnbót, kærumál, gjöld o.fl.) frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[14:53]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Verið er að ræða um þrjú frumvörp sem öll eru flutt með það fyrir augum að laga löggjöf, rammalög um háskóla. Hér hafa spunnist nokkuð athyglisverðar umræður sem eiga við um Háskóla Íslands sérstaklega en að vissu leyti einnig um Háskólann á Akureyri og varða stjórn þessara stofnana.

Háskólar sem telja sig fyrst og fremst vera akademískar stofnanir, og Háskóli Íslands skilgreinir sig sem slíkan, leggja mikla áherslu á að viðhalda hinu svokallaða akademíska frelsi. Því hafa spunnist í þingsalnum nokkrar umræður um hvort ákvæði um stjórn Háskóla Íslands, þ.e. um háskólaráð, fari gegn hagsmunum stofnunarinnar og vinni gegn akademísku frelsi háskólans. Það hefur meira að segja gerst að menn hafa viljað ræða um svokallaða fulltrúa þjóðlífsins en dregið var í efa að um slíka fulltrúa væri að ræða og gert að umræðuefni að þarna væri um að ræða pólitískt kjörna fulltrúa.

Nú er eins og það sé skammaryrði í þessum sal að menn séu pólitískt kjörnir og kemur mér það nú nokkuð á óvart. Það er eins og það vinni gegn hagsmunum þjóðarinnar að menn séu pólitískt kjörnir. En að sjálfsögðu felst það eitt að líta svo á að æskilegt sé að inn í stjórn Háskóla Íslands komi þjóðlífsfulltrúar, í því felst pólitísk áhersla, pólitísk ákvörðun. Einnig það að segja sem svo að engir slíkir fulltrúar eigi erindi inn í stjórn háskólans er að sjálfsögðu pólitísk afstaða. Við erum að fjalla um stjórnmál alla tíð í þessum sal og þessi feimni við að taka á stjórnmálalegum málum kemur mér svolítið spánskt fyrir sjónir.

Ég hef litið svo á að þessi þjóð ætti mikið undir því að einmitt grunnrannsóknir nytu þess öðrum þræði að hér þrífist akademískt frelsi, en öðrum þræði væri hægt að vinna að því að beina grunnrannsóknum í ákveðna farvegi sem skipta miklu máli fyrir þetta þjóðfélag. Fulltrúar, eins konar þjóðlífsfulltrúar, fulltrúar menntmrh. hverju sinni í stjórn Háskóla Íslands, gætu vissulega beint athyglinni að ákveðnum sviðum sem stofnun eins og Háskóli Íslands gæti haft forgöngu um að kanna öðrum sviðum fremur á sviði grunnrannsókna án þess að það skerði akademískt frelsi stofnunarinnar. Það mundi hins vegar hafa þá kosti að hægt væri að skerpa athyglina á vissum sviðum.

Ég vil í þessu sambandi að menn hugsi til þess að þjóðfélagið er ekki ýkja stórt. Það kann að vera að á ákveðnum tímum við ákveðnar aðstæður höfum við mikla þörf fyrir það að beina athyglinni einmitt að ákveðnum atriðum. Betur hefði verið ef við hefðum gert það í meira mæli en hingað til hefur verið og skal ég nefna nokkur dæmi um það.

Það er meira að segja svo að ég hefði álitið koma til greina að stjórnvöld hefðu einhver tök á því eða eitthvert verkfæri til þess að laða akademískar stofnanir til þess með sérstökum fjárveitingum að beina athygli sinni að ákveðnum sviðum þjóðlífsins.

Ég vil nefna tvö dæmi um þetta. Á sviðum orkumála, sem hafa verið eitt af stærri hagsmunamálum Íslendinga, hefur það verið svo að grunnrannsóknir á sviði orkumála hafa reynst fullkomlega óviðunandi. Verulegur hluti af grunnrannsóknum á sviði orkumála hefur farið fram á vegum Orkustofnunar sem ætti að sinna mjög þröngt skilgreindum rannsóknarhagsmunum á sviði hagnýtra rannsókna. En komið hefur í ljós að það hefur skort heilu upplýsingasviðin innan orkugeirans og þess vegna hafa menn neyðst til þess að beita Orkustofnun mjög stíft til að rannsaka þetta sérstaka svið.

Er einsýnt að ekki hefði verið æskilegt að hafa möguleika á því að beina athygli akademíunnar að ákveðnum sviðum þjóðlífsins þar sem þekking akademíunnar gæti komið að góðum notum og hægt væri að virkja hana í þágu þjóðarinnar beinskeyttar en hingað til hefur verið?

Ég nefni annað dæmi. Þriðja mikilvægasta atvinnugrein þessarar þjóðar í sambandi við gjaldeyrissköpun er ferðaþjónustan. Ferðaþjónustan er orðin ein af þeim atvinnugreinum sem meðal annarra þjóða nýta rannsóknarfé í stórum stíl. Ég nefni sérstaklega að sá árangur sem Írar hafa náð í sambandi við ferðaþjónustuna byggir að miklu leyti á því að þeir hafa nýtt fjármuni Evrópusambandsins til rannsóknar- og þróunarstarfs í stórum stíl. Þar með öðlast þeir meiri framtíðarsýn innan þessarar atvinnugreinar en áður hefur verið.

[15:00]

Sú spurning vaknar hvort íslenskt samfélag með sitt mikla vægi í ferðaþjónustu hefði ekki haft fulla þörf á að beina grunnrannsóknum og upplýsingaöflun að hagsmunamálum ferðaþjónustunnar. Að sjálfsögðu hefði það verið mjög æskilegt. Það hefur hins vegar ekki gerst nema í mjög litlum mæli. Ég þreytist ekki á að minna á það er ég átti þess kost að setjast í Rannsóknaráð ríkisins árið 1991 en þá voru nánast engar rannsóknir í ferðaþjónustu styrktar af ráðinu þó lögbundið hlutverk þess væri að sinna hagnýtum rannsóknum. Þótt Rannsóknaráð ríkisins hafi á sínum tíma tekið á þessu máli, samið um það skýrslu og reynt að beina athyglinni að þessu sviði atvinnulífsins þá hefur árangurinn á því orðið rýr, því miður. Full ástæða er til að taka sérstaklega á því máli. Ferðaþjónustuna skortir einmitt slíka framtíðarsýn sem felst í rannsóknar- og þróunarstarfi. Af þeim sökum má leiða að því afar gild rök að fjárfesting í ferðaþjónustunni hafi ekki verið eins markviss og æskilegt væri og fyrir vikið séu talsverðir fjármunir í uppnámi.

Ég vil því að menn taki til umhugsunar hvort ekki sé ástæða til að neita sér um þann munað sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon leyfði sér hér áðan, þ.e. að gera gys að þessum ákvæðum og telja að þarna væri ekki um neina fulltrúa þjóðlífsins að ræða, þarna yrðu pólitískt skipaðir fulltrúar. Er ekki ástæða til að menn hugleiða þetta svolítið betur? Er ekki einmitt brýn nauðsyn á því að þeir sem fara með stjórn landsmálanna hverju sinni, þeir sem bera ábyrgð á því hvernig Stjórnarráðið bregst við aðstæðum í atvinnulífinu, hafi möguleika á því að láta rödd sína heyrast í hinni merku akademísku stofnun?

Á þessum grundvelli er lagt til í frv. um Háskólann á Akureyri að einn fulltrúi verði skipaður í stjórn stofnunarinnar af ráðherra. Þar hafa ekki heyrst nein mótmæli við slíkri ráðstöfun, sennilega vegna þess að sú stofnun er í nánari tengslum við atvinnulífið en Háskóli Íslands.

Þetta vildi ég segja og geta þess að auki að vegna þess að mál hafa verið í þessum farvegi þá hafa komið upp sjálfstæðar stofnanir eins og Reykjavíkurakademían, sem leitast við að beina einmitt grunnrannsóknum inn á brautir sem nýtast íslensku atvinnulífi betur. Þeir gera sér grein fyrir því að þarna hefur skort á. Þetta vildi ég að kæmi skýrt fram þar sem mér finnst gæta misskilnings á þessu ákvæði, a.m.k. í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég hef orðið var við mikla tortryggni gagnvart utanaðkomandi aðilum, þeim aðilum sem gætu borið inn í akademíuna raddir utan úr þjóðfélaginu. Það má ekki gleyma því að Háskóli Íslands hefur leitast við að laga starfsemi sína að aðstæðum í þjóðfélaginu og sinna atvinnulífinu betur en hingað til. Það er mjög virðingarvert hvernig Háskóli Íslands hefur leitast við að gera þetta en að sama skapi undrast ég þau hörðu viðbrögð sem hafa orðið við þessari hugmynd.

Ég vil nota tækifærið til að koma aðeins að þeim breytingum sem snerta Háskólann á Akureyri. Rétt er að hér er verið að endurflytja frv. Þetta er sama málið og var til umfjöllunar í fyrra en ég hafði ekki tækifæri til að koma að þeirri umræðu þá og mun þess vegna nota tíma minn til þess að fjalla um það.

Í frv. er að finna mikilvægar breytingar frá núgildandi fyrirkomulagi. Breytingarnar varða stjórn háskólans, þ.e. háskólaráðið, framhaldsnám, tengsl við atvinnulífið og aukið sjálfstæði Háskólans á Akureyri. Gert er ráð fyrir því að fækkað verði í stjórninni og í háskólaráði sitji einn stjórnarmaður sem er utanaðkomandi, skipaður af ráðherra. Ég tel um mikilvægt ákvæði að ræða og hef raunar lengi verið hlynntur því að lengra yrði gengið í þá átt að kalla til starfa í stjórn Háskólans á Akureyri utanaðkomandi aðila, ekki síst úr atvinnulífinu. Það er ekki síst hugsað út frá þeirri staðreynd að Háskólanum á Akureyri hefur verið ætlað sérstakt hlutverk varðandi atvinnulífið og aðlögun að þörfum þess.

Með heimild til framhaldsnáms, þ.e. til meistaranáms og doktorsnáms, sem kveðið er á um í tveimur greinum frv., er verið að styrkja mjög verulega stöðu háskólans bæði inn á við og út á við. Framhaldsnámið gefur Háskólanum á Akureyri mun meiri slagkraft sem menntastofnun og nýja möguleika á að þróa samband sitt við atvinnulífið. Í alþjóðlegu samhengi styrkist staða háskólans til muna og gerir honum betur kleift að gera sig gildandi í samstarfi við aðra háskóla. Starfsmenn skólans fá með þessu æskilegra svigrúm til að ráðst í enn metnaðarfyllri rannsóknarverkefni en þeir hafa hingað til unnið, þó ekki hafi þurft að kvarta yfir því.

Þá er einnig kveðið á um samstarf og tengsl við atvinnulífið. Skólinn hefur verið í mjög nánu samstarfi við rannsóknastofnanir atvinnulífsins. Nauðsynlegt er að ýta undir samstarf við fyrirtæki og frv. tekur á því máli.

Að lokum ber að nefna ákvæði sem auka og styrkja sjálfstæði Háskólans á Akureyri til að setja reglur um starfsemi sína. Þeim ákvæðum fagna ég.

Herra forseti. Það þarf ekki að draga neina dul á að stofnun og þróun Háskólans á Akureyri er langmerkasta skrefið í byggðamálum frá því að opinber stefna var mótuð í þeim málum. Skólinn er í hröðum vexti og uppbyggingu. Hins vegar er ljóst að þróun byggðamála kallar á mun hraðari uppbyggingu háskólans en verið hefur. Öðru fremur er brýnt að á þeim sviðum sem framfarir eru hraðastar og eftirspurn eftir námi mest, í tölvufræðum sem búa menn undir hugbúnaðargerð og upplýsingavinnslu og upplýsingaþjónustu, verði skólanum gert kleift að svara eftirspurninni og tryggja að fólk með slíka menntun leiti eftir búsetu á landsbyggðinni. Ég er þeirrar skoðunar að það muni hafa úrslitaáhrif á þróun landsbyggðarinnar, hvort tekst að skapa frjóan jarðveg fyrir háskólamenntun og rannsóknar- og þróunarstarf úti á landi. Þau svið sem mest er um vert að þróa hratt tengjast atvinnuuppbyggingunni á landsbyggðinni. Ég vil nefna nokkur svið þar sem ég tel að Háskólinn á Akureyri gæti haft afdrifarík áhrif.

Eins og berlega hefur komið fram, ekki síst fyrir frumkvæði landlæknis, á heilsugæsla á landsbyggðinni undir högg að sækja. Háskólinn á Akureyri getur og á að verða til að breyta því ástandi og snúa vörn í sókn. Ég hef áður nefnt það í þessari ræðu að ferðaþjónustan nýtir ekki fjárfestingu sína sem skyldi, einkum og sér í lagi utan háannatíma. Það hefur í raun ekki tekist að veita fyrirtækjum á landsbyggðinni hlutdeild í þeirri aukningu ferðamanna utan háannatíma sem orðið hefur á höfuðborgarsvæðinu. Háskólinn á Akureyri á að verða verkfæri til að bæta úr þeirri stöðu. Þess vegna ber að fagna því að stofnunin skuli hafa haslað sér völl bæði í kennslu og rannsóknum sem tengjast ferðamálum.

Hátækni og upplýsingatækni eru þau svið þar sem mesta vaxtarins gætir og mun gæta í framtíðinni. Ég tel að þekkingarmiðlun verði stóriðja framtíðarinnar og á því sviði ætti hlutur háskólans að verða mikill. Stjórnvöld eiga því að nýta sér þessa stofnun sem móðurskip í baráttunni fyrir stöðu landsbyggðarinnar. Þær væntingar sem menn bera til Háskólans á Akureyri eru jafnmiklar og vandamálin sem landsbyggðin glímir við eru alvarleg. Þessar væntingar eru hins vegar réttlætanlegar og skiljanlegar. Í ljós hefur komið og er hafið yfir allan vafa að Háskólinn á Akureyri hefur verið besta, virkasta og raunhæfasta framlag til byggðarmála sem stjórnvöld hafa beitt sér fyrir. Ég tel að frv. sem hér liggur fyrir horfi til framfara í málefnum Háskólans á Akureyri.

Að lokum vildi ég koma aðeins inn á stöðu rannsóknarmála almennt í þessu þjóðfélagi. Í umræðunum fannst mér gæta nokkurrar tortryggni í garð stjórnvalda og afskipta þeirra af málefnum Háskóla Íslands og annarra háskólastofnana. Að því var ýjað að í þessum afskiptum fælist eitthvað neikvætt. Þetta er sérkennilegt viðhorf þegar tekið er tillit til þess hvernig slagkraftur Íslands í rannsóknarmálum hefur aukist á undanförnum árum. Það liggur ljóst fyrir að undanfarin sjö ár hafa fjárframlög til rannsóknarmála stóraukist og ekki er hægt að finna neitt annað tímabil sem bendir til eins mikils áhuga stjórnvalda á rannsóknum, ekki síst rannsóknum í þágu atvinnulífsins, og einmitt á síðustu þremur árum.

Ég vitna í þessar tölur eftir minni. Ég hygg að um 1991 hafi framlög til þróunar- og rannsóknarmála verið um þrír milljarðar. Árið 1993 eru þeir komnir upp í fimm, árið 1995 eru þeir sjö og 1997, sem er síðasta árið sem þessi mæling hefur farið fram, þetta er mælt á oddaárum, þá er framlagið níu milljarðar kr. Við nálgumst nú það markmið sem við höfum sett okkur fyrir lifandi löngu, að veita 2% af þjóðarframleiðslunni í rannsóknir. Á árinu 1997 var það 1,7% og það er margt sem bendir til þess að okkur takist á yfirstandandi ári eða árið 2000 að ná þessu markmiði.

Ef menn vilja draga úr mikilvægi þessa máls þá finnst mér það undarlegt. Þó við þurfum að herða okkur meir heldur en þetta segir þá sýnir þetta þó framfarirnar sem orðið hafa á þessu sviði, hversu fjármunir til rannsókna hafa aukist hratt. Það er þess vegna úr öllu samhengi að gefa í skyn að afskipti hæstv. menntmrh., sem hefur lagt sitt af mörkum til þess að ýta undir þessa þróun, af rannsóknar- og háskólamálum hafi skapað einhvern grundvöll til tortryggni. Þvert á móti þá ættu menn að líta á það sem gerst hefur og fyllast trú á verk ríkisstjórnarinnar í málefnum sem snerta rannsóknar- og þróunarstörf.