Háskóli Íslands

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 15:41:38 (3945)

1999-02-19 15:41:38# 123. lþ. 70.5 fundur 509. mál: #A Háskóli Íslands# (heildarlög) frv., 510. mál: #A Háskólinn á Akureyri# (heildarlög) frv., 511. mál: #A Kennaraháskóli Íslands# (doktorsnafnbót, kærumál, gjöld o.fl.) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[15:41]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka fram að í ræðu minni um þetta mál fyrr í dag taldi ég mig ekki gagnrýna málsmeðferð ráðherra, ekki á nokkurn hátt. Ég tel í raunar að eftir síðustu ræðu hæstv. menntmrh. sé ekki efnislegur ágreiningur um þetta mál. Hins vegar hefur komið fram, m.a. í bréfum frá stúdentaráði Háskóla Íslands sem hæstv. menntmrh. lýsti einmitt skilningi á í síðustu ræðu sinni, ákveðinn vafi um orðalag. Stúdentaráð, sem starfað hefur frá 1920, telur að þetta orðalag kunni að ógna grundvelli tilveru sinnar. Það er þess vegna, herra forseti, sem mikilvægt er að eyða þeim vafa.

Ég tel að í ræðu hæstv. menntmrh. hafi komið fram að hann telji að frv. eins og það stendur núna feli í sér heimild til háskólaráðs til að semja beint við stúdentaráð Háskóla Íslands. Til að eyða þeim vafa vil ég ítreka spurningu mína: Er það réttur skilningur að hæstv. ráðherra telji frv. fela það í sér að háskólaráði sé heimilt að semja um tiltekna þjónustu beint við stúdentaráð Háskóla Íslands án útboðs?