Skógrækt og skógvernd

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 15:47:15 (3948)

1999-02-19 15:47:15# 123. lþ. 70.12 fundur 483. mál: #A skógrækt og skógvernd# frv., 484. mál: #A landshlutabundin skógræktarverkefni# frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[15:47]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir það að mega mæla fyrir þessum málum báðum í einu. Þau eru náskyld og ég hygg að það geti frekar en hitt liðkað fyrir umræðunni, hugsanlega stytt hana aðeins.

Ég mæli fyrir frumvörpum til laga um skógrækt og skógvernd og landshlutabundin skógræktarverkefni en frumvörp þessi eru flutt á þskj. 790 og 791 og eru 483. og 484. mál þingsins. Ég mun fyrst fara nokkrum orðum um frv. um skógrækt og skógvernd.

Verði frumvarp þetta að lögum mun það leysa af hólmi lög um um einkarétt ríkisstjórnarinnar til þess að flytja trjáplöntur til landsins, og um eftirlit með innflutningi trjáfræs, nr. 78/1935, með síðari breytingum, lög um skógræktardag skólafólks, nr. 13/1952, lög um skógrækt, nr. 3/1955, með síðari breytingum, og lög um viðauka við lög nr. 3/1955, um skógrækt, nr. 22/1966.

Núgildandi lög um skógrækt eru frá 1955 eins og hér hefur áður komið fram. Þau voru samin um það leyti sem hrísrif til eldunar og húshitunar var að leggjast af hér á landi og vetrarbeit búfjár á birkikjarr var um það bil að verða óþörf vegna framfara í landbúnaði, einkum vegna svokallaðra traktora sem bændur voru þá almennt að eignast. Þá voru hugtök eins og sjálfbær þróun, líffræðileg fjölbreytni og gróðurhúsaáhrif ekki til og trén í Guttormslundi voru aðeins 6 metra há, enda lundurinn þá aðeins 17 ára gamall. Nú er Guttormslundur rúmlega sextugur og úr grisjunarviði úr honum og öðrum álíka skógarreitum er sagað efni í parketgólf, eldhúsinnréttingar og veggþiljur í tónlistarhús svo dæmi séu tekin.

Lög um skógrækt, nr. 3/1955, fjalla ekki nema að litlu leyti um þau viðfangsefni sem eru mest áberandi í skógrækt í dag. Jafnvel viðbætur og viðaukar við lögin frá 1966 og 1984 eru fyrir alllöngu fallin úr takti við tímann. Það er því brýnt að færa þessi lög í nútímalegra horf.

Í því frv. sem hér er mælt fyrir, er ekki horfið frá markmiðum laganna frá 1955, enda eiga þau enn fyllilega rétt á sér, þ.e. að vernda það skóglendi sem fyrir er og rækta nýja skóga þar sem það á við. Því síður hefur dregið úr mikilvægi þriðja markmiðsins, þ.e. að leiðbeina um skóga og skógrækt.

Helstu nýmæli frumvarpsins eru ákvæði um skógráð, sem er ráðgjafandi nefnd um skógarmál, ákvæði um landsáætlun í skógrækt, sem landbúnaðarráðherra ber að leggja fyrir Alþingi til samþykktar, og enn fremur er staðfest með frumvarpinu hver núverandi hlutverk og verkefni Skógræktar ríkisins eru.

Í skógráði munu eiga sæti fulltrúar þeirra hópa og stofnana sem helst hafa afskipti af skógum og skógrækt og hafa hagsmuna að gæta í þeim efnum. Helsta hlutverk skógráðs er að gera tillögur til landbrh. um stefnu, markmið og leiðir í skógrækt og skógvernd fyrir gerð landsáætlunar. Eru bundnar miklar vonir við þennan nýja vettvang fyrir alla umræðu um þau margvíslegu sjónarmið sem geta komið upp við skipulag skógræktar í landinu.

Skógráð verður skipað níu fulltrúum. Þar ber fyrst að telja formann sem ráðherra skipar án tilnefningar, svo og skógræktarstjóra. Aðrir eru tilnefndir af Skógræktarfélagi Íslands, sem fulltrúi áhugamanna um skógrækt, Landssamtökum skógareigenda, til að gæta sjónarmiða þeirra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fyrir sveitarfélögin sem bera ábyrgð á skipulagsmálum og eiga mörg hver skóglendi, Náttúruvernd ríkisins, sem hefur umsjón með allstórum skóglendum og hefur náttúruvernd að leiðarljósi svo sem vitað er, Náttúrufræðistofnun Íslands, sem hefur með höndum skráningu og rannsóknir á náttúru landsins og ætti að gefa faglega breidd í skógráðið, Landgræðslu ríkisins, sem hefur umsjón með stórum svæðum þar sem lokamarkmið landgræðslu er endurheimt skóglendis. Að lokum tilnefnir skógræktarstjóri einn fulltrúa sem er frá Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins og eykur hann faglegt vægi innan ráðsins.

Ýmis stjórnvöld og stofnanir á þeirra vegum fara með hlutverk og verkefni sem með einhverjum hætti geta snert skógrækt og skógvernd í rúmri merkingu þeirra orða. Hér má sem dæmi nefna að Náttúrufræðistofnun og Náttúruvernd ríkisins heyra undir umhvrn. Með setu fulltrúa frá nefndum aðilum í skógráði er tryggt að í framkvæmd verði ekki skörun á verkefnum samkvæmt þessu frv. og samkvæmt öðrum lögum og að sérþekking nefndra aðila geti nýst við framkvæmd verkefna sem með lúta beint að skógrækt og skógvernd.

Ákvæði um að landbrh. skuli leggja fram landsáætlun í skógrækt á fimm ára fresti mun tryggja að heildstætt sé tekið á stefnumörkun í skógrækt. Stefnan í skógræktarmálum, forgangsröðun verkefna og hvar framkvæmt verður á næstu fimm árum verður þannig í framtíðinni lögð fyrir Alþingi til samþykktar. Þeirri áætlun mun síðan fylgja mat á árangri undanfarinnar áætlunar og kortlagning skógræktarskilyrða í landinu. Fyrsta landsáætlun skal lögð fram árið 2001.

Frá setningu gildandi laga um skógrækt, nr. 3/1955, hefur hlutverk skógræktar ríkisins breyst. Sú þróun hefur átt sér stað á síðustu árum að stofnunin hefur hætt eða dregið verulega úr ýmsum verkefnum sem áður voru áberandi í starfsemi stofnunarinnar, svo sem plöntuframleiðslu og gróðursetningu og þess í stað snúið sér að rannsóknum, fræðslu og leiðbeiningum um alla þætti skógræktar fyrir stjórnvöld, félög og einstaklinga.

Í frv. eru hlutverk Skógræktar ríkisins skilgreind á skýrari hátt en áður var og eru þau helstu að stofnuninni er ætlað að vinna að verndun, ræktun og sjálfbærri nýtingu skóga á Íslandi með því að stunda rannsókna-, fræðslu- og leiðbeiningarstarf um alla þætti skógræktar; að veita stjórnvöldum, einstaklingum og félögum ráðgjöf um skógrækt og hafa umsjón með þjóðskógum og auðvelda almenningi aðgang að þeim; að annast gerð skógræktaráætlana og hafa eftirlit með ríkisstyrktum skógræktarframkvæmdum og almennt stuðla að framgangi skógræktar í landinu. Og það sem er nýmæli: Skógrækt ríkisins ber að gera og viðhalda skrá yfir skóglendi landsins þar sem koma þeir þættir sem eru stofnuninni nauðsynlegir og eru í samræmi við hlutverk hennar.

Orðið þjóðskógar er notað yfir lönd þau sem Skógrækt ríkisins hefur umsjón með. Á orðið að undirstrika að þetta skóglendi er eign þjóðarinnar og rekið í þágu hennar. Þjóðskógur er þó ekki eins og þjóðgarður þar sem helsta markmið er náttúruvernd. Eðli þjóðskóga er sem sagt annað en þjóðgarðs.

Hæstv. forseti. Auk þessara meginbreytinga sem ég hef nefnt vil ég nefna nokkur önnur mikilvæg ákvæði. Staðfest er að það sé hlutverk Skógræktar ríkisins að sjá um skógræktarrannsóknir en sú staðrfsemi hefur verið á Mógilsá síðan 1967 í nánum tengslum við aðra starfsemi stofnunarinnar, svo sem skógvörslu og ráðgjöf. Starfsemi stöðvarinnar var lengi mjög takmörkuð vegna fjárskorts. Rannsóknastöðin hefur hins vegar eflst mjög á síðustu árum og margvíslegar rannsóknaniðurstöður liggja nú fyrir sem eru til þess fallnar að efla skógrækt og auka arðsemi hennar.

Frv. þetta er lagt fram samhliða frv. til laga um landshlutabundin skógræktarverkefni. Verði bæði frumvörpin að lögum verður staðfest sú stefna sem mótuð var með lögunum um Héraðsskóga og lögunum um Suðurlandsskóga að beinar framkvæmdir í skógrækt og stuðningur við þær verði á vegum sérstakra verkefna sem ná yfir ákveðna landshluta. Samsvarandi ákvæði og í núgildandi lögum um nytjaskógrækt á bújörðum og skjólbelti eru því ekki í þessu frv. Í beinum framkvæmdum verður hlutverk Skógræktar ríkisins áætlanagerð og faglegt eftirlit en ekki styrkveitingar. Almenn heimild er þó í frv. fyrir Skógrækt ríkisins að veita einstaklingum og félögum stuðning m.a. vegna þess að á næstu árum verður millibilsástand á meðan landshlutabundnu verkefnin eru að mótast og því nauðsynlegt að skógræktin geti haldið áfram að veita styrki á takmörkuðum svæðum. Þá geta komið upp ófyrirséðar aðstæður fyrir því að ríkisvaldið kjósi að veita framlög til Skógræktar í gegnum Skógrækt ríkisins.

Í gildandi lögum eru ítarleg ákvæði í II. og III. kafla laganna um meðferð skóga, kjarrs og lyngs og um friðun og ræktun skóga. Ákvæði eru um viðbrögð við óheimilli beit í skóglendum, löggirðingar um skóglendi o.fl. sem þykir ekki ástæða til að taka upp í nýjum lögum enda hafa önnur lög að geyma ákvæði um girðingar, vörsluskyldu búfjár og fleira sem að slíku lýtur. Enn fremur eru ákvæði um friðun, ræktun og meðferð skóglendis færri í frumvarpi þessu en í núgildandi lögum, enda ekki talin þörf á jafnítarlegum ákvæðum og nú gilda til að markmiðum þeirra verði náð.

Ég mun þá fara nokkrum orðum um frv. um landshlutabundin skógræktarverkefni, hæstv. forseti. Á undanförnum áratug hefur orðið til ákveðin hlutverkaskipting í skógræktarmálum og hefur sú þróun að margra mati verið mjög til bóta. Hér er átt við að framkvæmdir í ræktun nýmarka hafa færst á hendur einstaklinga, einkum bænda. Nú er svo komið að um 85% af allri gróðursetningu í landinu er framkvæmd af bændum á eigin bújörðum, öðrum einstaklingum og skógræktarfélögum með aðstoð hins opinbera. Aðeins um 5% af allri gróðursetningu í landinu eru nú framkvæmd af Skógrækt ríkisins en það hlutfall var um 50% um miðjan síðasta áratug. Þau 10% sem þarna vantar upp á er gróðursetning án stuðnings ríkisins.

Í dag veitir ríkið framlög til skógræktar á bújörðum á Fljótsdalshéraði og í Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum í gegnum sérstök landshlutabundin skógræktarverkefni samkvæmt sérlögum um Héraðsskóga annars vegar og um Suðurlandsskóga hins vegar. Hér er einkum um að ræða skógrækt með viðarnytjar sem meginmarkmið á svæðum sem bjóða upp á góð skilyrði til nytjaskógræktar. Enginn vafi er á að þessi verkefni hafa veruleg jákvæð áhrif á þróun byggðar á þessum svæðum og að skógarnir sem þar vaxa munu verða undirstaða atvinnusköpunar í framtíðinni.

Framlög eru einnig veitt í gegnum Skógrækt ríkisins til nytjaskógræktar á bújörðum á svæðum í öðrum landshlutum þar sem skógræktarskilyrði eru góð, þ.e. hluti inndala á Norður- og Vesturlandi og til ákveðins svæðis í Hornafirði eða á því svæði. Þau framlög eru þó talsvert lakari en þau sem fást í gegnum Héraðsskóga og Suðurlandsskóga.

Þá eru framlög veitt í sérstakt verkefni í Dýrafirði og Önundarfirði sem hefur hlotið heitið Skjólskógar en þar eru viðarnytjar ekki meginmarkmiðið heldur skjól og aðrar landbætur til að gera svæðið byggilegra.

Framlög sem skógræktendur geta fengið innan þessara verkefna eru misjöfn milli verkefna en einnig kröfur sem gerðar eru á móti. Svo eru mjög stór svæði þar sem landeigendur eiga þess ekki kost á að fá framlög til skógræktar. Þó ekki sé gert ráð fyrir að skógrækt geti alls staðar orðið fjárhagslega arðbær búgrein er hægt að ná ýmsum öðrum verðugum markmiðum með því að hvetja til aukinnar skógræktar á vegum landeigenda með aðstoð hins opinbera. Meðal þeirra eru efling byggðar eins og ég gat um áður, bætt aðstaða til útivistar í tengslum við ferðaþjónustu, skjólmyndun til að bæta ræktunarskilyrði, endurheimt landgæða, jarðvegsvernd og binding koltvísýrings. Vilji ríkisvaldið stuðla að þessum þáttum þarf að vera farvegur til að beina aðstoðinni í gegn.

Hæstv. forseti. Með frv. þessu er gert ráð fyrir því breytta fyrirkomulagi að ráðherra er veitt heimild til þess að stofna til landshlutabundinna skógræktarverkefna í líkingu við það verkefni sem stofnað var til með lögum nr. 93/1997, um Suðurlandsskóga, án þess að sérstaka lagasetningu þurfi til í hverju tilviki. Frv. er í meginatriðum byggt á lögum nr. 93/1997, um Suðurlandsskóga, og er með því og frv. til nýrra laga um skógrækt og skógvernd tekið fyrsta skrefið í átt til einföldunar á umgjörð þessa málaflokks.

Eins og fram kom áðan í máli mínu um frv. til laga um skógrækt og skógvernd er gert ráð fyrir því að fella úr gildi öll eldri lög um skógrækt að undanskildum lögunum um Suðurlandsskóga og Héraðsskóga. Þegar einhver reynsla er komin á framkvæmd laga samkvæmt þessu frv. er síðan gert ráð fyrir endurskoðun á þeim sem og lögum um Suðurlandsskóga og Héraðsskóga með það að markmiði að um landshlutaverkefni gildi einn lagabálkur í stað þriggja. Ég sé því fyrir mér tvo lagabálka í framtíðinni, annan um skógrækt og skógvernd og hinn um landshlutabundin skógræktarverkefni í stað sex ef allt er talið eins og er í gildandi lögum.

Lög um Suðurlandsskóga eru að meginstofni til byggð á lögum um Héraðsskóga frá 1991. Í lögunum um Héraðsskóga er eingöngu gert ráð fyrir verkefnum í nytjaskógrækt. Helstu nýmæli í lögum um Suðurlandskóga og í þessu frv. er að nú stefnt að ræktun svokallaðra fjölnytjaskóga og skjólbelta í stað nytjaskógræktar eingöngu. Sá hluti fjölnytjaskógræktarinnar sem kallast landbótaskógrækt er nýmæli og enn fremur að ræktun skjólbelta sé tekin inn í verkefni af þessu tagi. Gert er ráð fyrir að unnin verði a.m.k. 40 ára áætlun um ræktun fjölnytjaskóga og skjólbelta fyrir hvert verkefni.

Í stað þess að stefna að ræktun á ákveðnum hektarafjölda á því svæði sem um ræðir eins og gert er í lögunum um Suðurlandsskóga er nú kveðið á um að í landshlutaáætlunum skuli stefnt að því að rækta skóga á a.m.k. 5% flatarmáls þess lands sem telst láglendi á því svæði sem áætlunin nær til. Tekið er fram að um sérstaka fjárveitingu verði að ræða fyrir hvert verkefni. Það er síðan í höndum ráðherra hvaða kostnaðarliði í skógræktinni megi styrkja. Hvert stuðningshlutfalið verður skal síðan ákveða með reglugerð.

Í frv. er sagt fyrir um hvernig skuli farið með tekjur af timburskógum við skógarhögg og að ráðherra setji nánari ákvæði um það í reglugerð. Gert er ráð fyrir að við skógarhögg greiðist 15% skattur af verðmæti trjáviðar eins og hann er metinn á rót. Þetta skatthlutfall af timbursölu tekur mið af stuðningshlutfalli ríkisins til greiðslu stofnkostnaðar í skógræktinni sem hefur verið nokkuð hár eða um 97% af samþykktum kostnaði hjá Héraðsskógum og Suðurlandsskógum. Með öðrum orðum: Við ákvörðun í reglugerð hvert stuðningshlutfallið verður er litið til þess hver endurgreiðslan er til ríkissjóðs við skógarhögg.

Í ákvæðinu er þó kveðið á um að grisjun fyrstu 40 árin, sem getur verið mjög mismunandi milli skóga, verði undanþegin því að greiða til ríkissjóðs af því söluverðmæti sem fengist við þá grisjun. Í frv. er kveðið á um að landbrh. skipi hverju verkefni stjórn, eins konar heimastjórn sem fari með yfirstjórn þess. Samkvæmt ákvæðinu er henni heimilt að ráða sér framkvæmdastjóra. Einnig er kveðið á um að við hvert verkefni skuli gera samstarfssamning við Skógrækt ríkisins um aðstoð og faglegar leiðbeiningar. Þar verði m.a. samið um greiðslur vegna áætlanagerðar fyrir verkefnið.

Í frv. þessu, samanber enn fremur frv. til laga um skógrækt og skógvernd, er gert ráð fyrir því að mestur stuðningur ríkisins við gróðursetningu verði á grundvelli landshlutaverkefna. Með öðrum orðum er sú stefna sett að Skógrækt ríkisins dragi sig út úr þessum þætti skógræktar í landinu.

Áfram er þó gert ráð fyrir að Skógrækt ríkisins hafi heimild til að styrkja einstaklinga og félagasamtök í skógrækt svo sem áður var getið. Dæmi um slík verkefni eru viðbótarskógar en þar geta einstaklingar og félagasamtök sótt um styrki til skógræktar. Styrkurinn er plöntur, ein planta fyrir hverja plöntu sem þeir kaupa sjálfir. Þetta verkefni er liður í því átaki sem er í gangi fram til aldamóta í bindingu koltvísýrings.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir þeim möguleika að landbrh. geti falið landshlutaverkefnum umsjón skógræktarverkefna sem Skógrækt ríkisins fer með samkvæmt ákvæðum laga um skógrækt og skógvernd, svo sem verkefna í líkingu viðbótarskóga. Öllum stuðningi við einstaklinga og félagasamtök verði þá þjónað frá sama stað í landshlutanum af stjórn og framkvæmdastjóra viðkomandi landshlutaverkefnis.

Sú skipan mála sem er lögð til með þessum tveimur frumvörpum, þ.e. að ræktun nýmarka og stjórnun verkefna á því sviði sé í ríkari mæli færð til heimamanna og að jafnframt sé til öflug og framsækin fagstofnun sem sjái um þjóðskógana, skógræktarrannsóknir og skógarþjónustu, mun verða til þess að efla viðleitni þjóðarinnar til að endurheimta hluta þess græna skrúðs sem landið hefur tapað í aldanna rás. Í ár eru 100 ár liðin frá upphafi skógræktar á Íslandi. Ný lög um skógrækt yrðu viðeigandi afmælisgjöf frá Alþingi til þjóðarinnar af þessu tilefni.

Hæstv. forseti. Að öðru leyti vísa ég til greinargerða og athugasemda með frumvörpunum. Hvað varðar meðferð málsins legg ég áherslu á nauðsyn þess að lögfesta þau á þessu þingi þó að skammt lifi, því miður, af starfstíma þess. Að lokinni umræðunni legg ég svo til að frumvörpunum verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.