Skógrækt og skógvernd

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 16:03:23 (3949)

1999-02-19 16:03:23# 123. lþ. 70.12 fundur 483. mál: #A skógrækt og skógvernd# frv., 484. mál: #A landshlutabundin skógræktarverkefni# frv., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[16:03]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Hér liggja fyrir umfangsmiklir lagabálkar sem verða sendir til hv. landbn. að því er mér heyrðist áðan. Þetta er afskaplega gott mál, skógrækt. Ég hef örlítið komið að skógrækt í gegnum tíðina. Mér þykir því vænt um þennan málaflokk og hef með einum eða öðrum hætti komið að gróðursetningu á á annað hundrað þúsund plantna í landi Kópavogs í sumarstörfum mínum þar undanfarinn áratug.

Nýlega lauk 16 ára valdatíð Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrv. forseta Íslands, sem hafði skógrækt sem sitt helsta baráttumál. Hún vakti þar með verðskuldaða athygli á þessum málaflokki, sérstaklega í huga þeirrar kynslóðar sem komst til vits og ára í hennar forsetatíð.

Þær athugasemdir sem ég vil kannski helstar gera við þetta frv. eru um forræðið á málaflokknum sem er í rauninni framhald á því ráðherraforræði sem er í dag, þ.e. að landbrh. fari með yfirstjórn þessara mála. Ég hefði talið fara betur á því að það væri í höndum umhvrh. Um þessar mundir er það að vísu sami maðurinn en það er aukaatriði, það kann að breytast. Ég tel að nýta hefði átt tækifærið sem nú gafst, úr því að þessi endurskoðun var í gangi, til að breyta þessu og færa skógrækt, skógvernd og slík verkefni yfir til umhvrh. Það hefði verið skynsamlegt með tilliti til þess að hagsmunir landbúnaðar og skógræktar geta skarast. Í 15. gr. er t.d. gert ráð fyrir því að landbrh. taki af skarið í þeim efnum. Það hefði verið ágætt ef sá ráðherra hefði verið meiri gæslumaður skógræktarmálaflokksins sem slíks. Því miður hefur viljað brenna við að landbúnaðarráðherrar hafa frekar horft til hagsmuna landbúnaðarins en gagnstæðra hagsmuna skulum við segja. Þetta er helsta gagnrýni mín á þetta frv.

Í frv. eru nýmæli eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra áðan, t.d. þau að skipa skuli skógráð. Mér sýnist þeir sem eiga að vera í þessu ráði vera ágætlega valdir. Þarna er fulltrúi áhugamanna um skógrækt, tilnefndur af Skógræktarfélagi Íslands. Landssamtök skógareigenda tilnefna fulltrúa til að gæta sjónarmiða skógareigenda. Sveitarfélög eiga mörg hver skóglendi og ættu að gæta hagsmuna hins almenna skógarnotanda, eins og kemur fram í athugasemdum um einstökar greinar frv. Þar kemur einnig fram að Náttúruvernd ríkisins hefur umsjón með allstóru skóglendi og hefur náttúruvernd að leiðarljósi. Náttúrufræðistofnun hefur með höndum skráningu og rannsóknir á náttúru landsins og ætti að gefa faglega breidd í skógráð. Landgræðsla ríkisins hefur umsjón með stórum svæðum þar sem lokamarkmið landgræðslu er endurheimt skóglendis. Fulltrúi Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins eykur faglegt vægi innan ráðsins. Mér sýnist því við fyrstu sýn að ágætlega hafi til tekist við að setja saman þetta skógráð og það sé hið besta mál.

Í 5. gr. frv. kemur fram að hlutverk Skógræktar ríkisins sé að vinna að sjálfbærri nýtingu skóga á Íslandi og stuðla að því að umfang skógræktar og flatarmál skóglendis aukist. Þetta er jákvætt líka. Það hefur góð áhrif á landið að skógrækt sé aukin. Það eykur verðmæti landsins og það verður jafnvel veðursælla fyrir bragðið. Þeir segja mér það sem best til þekkja að hér í Reykjavík og nágrenni að veður hafi jafnvel skánað á höfuðborgarsvæðinu eftir að Heiðmörk og ,,græni trefillinn`` svokallaði náðu sér verulega á strik. Hér er farið að gæta veðurfarsáhrifa af þessu mikla skóglendi umhverfis höfuðborgarsvæðið.

Í 11. gr. eru þau nýmæli að nú er það landbrh. sem skipar skógræktarstjóra. Samkvæmt gömlu lögunum var það forseti Íslands en þar á við fyrri gagnrýni mín, að ég tel að umhvrh. ætti að fara með stjórn þessa málaflokks. Ágætt ákvæði er þarna í 11. gr. þar sem fram kemur að skógræktarstjóri skuli hafa háskólapróf í skógfræði. Þarna er menntun sem klárlega er við hæfi í þetta starf. Ég veit til þess að við eigum allnokkra vel hæfa skógfræðinga sem starfa hér á landi sem margir hafa sótt sér menntun til Noregs. Það er æskilegt að þeirri menntun sé gert hátt undir höfði í þessum málaflokki.

Í 13. gr. er ákvæði um það að nýtingu verði ávallt háttað þannig að skógur endurnýist á svæðinu og að eiganda og notanda skóglendisins sé gert að takmarka svo notkun þess að það rýrni hvorki að stærð né gæðum til lengri tíma. Þetta ber með sér hina sjálfbæru hugsun sem komin er inn í umhverfismálin hér á landi og er það vel.

Í 14. gr. kemur hins vegar að hugsanlegum hagsmuna\-árekstrum landbúnaðar og skógræktar. Þó er ágætt að nú skuli koma í lögin að eigandi búfjár beri ábyrgð á því að fénaður sé ekki á beit í nýrækt og skógum hér á landi. Það er allt of mikið um það að kindur sleppi inn á viðkvæm nýræktarsvæði og oft mesta basl að koma þeim út úr þessum löndum. Mér skilst á mönnum sem þekkja til bragðlauka sauðkindarinnar að henni þyki birkiplöntur ekkert sérstaklega góðar en hún kippi þeim upp úr nýræktinni og sé síðan búin að gleyma óbragðinu þegar kemur að næstu plöntu. Hún heldur því áfram þangað til hún hefur kippt upp nýgróðursettum sprotum á því svæði sem hún nú fer yfir. Hún getur farið yfir mikið svæði og eyðilagt mikla skógrækt. Eins og ég kom inn á áðan ber eigandi búfjárins samkvæmt þessu frv. ábyrgð ef svo fer. Ég sé ekki betur en í IV. kafla sé gert ráð fyrir því að hægt sé að beita sektum í þessum efnum eins og í öðrum brotum gegn þessum lögum.

Í 15. gr. kemur einnig fram að landbrh. er heimilt, að fengnu áliti skógræktarstjóra, að banna alla þá meðferð eða nýtingu skóglendis sem ætla má að rýri gæði eða umfang þess eða valdið jarðvegsrofi. Það er gott að þarna skuli a.m.k. vera ákvæði sem stjórnsýslan getur unnið eftir, gripið inn í og lokað viðkvæmum skógræktarsvæðum fyrir búfénaði.

Samkvæmt upplýsingum frá fjmrh. kemur fram að aukning á framlögum ríkisins vegna þessa máls sé um 400--500 millj. kr. á ári næstu 100 árin til að 10% lands verði skógi vaxin árið 2100. Síðast þegar ég heyrði voru einungis um 1% lands á Íslandi skógi vaxin þannig að þarna er gríðarlegt verk fyrir höndum og mjög jákvætt að menn skuli setja stefnuna á þetta. Við eigum þó langt í land með að endurheimta þann skóg sem hér var við landnám. Ef ég man rétt var það um fjórðungur lands sem var skógi vaxinn samkvæmt mati þeirra sem best þekkja til ástands lands við upphaf Íslandsbyggðar. Þetta er gríðarlegt verk, metnaðarfullt og dýrt en afar gott og mun gera Ísland betra og byggilegra en ella.

Varðandi frv. til laga um landshlutabundin skógræktarverkefni sem einnig er til umfjöllunar núna, þá eru athugasemdir mínar við það nákvæmlega þær sömu og áður, þ.e. að verkefnið er sett undir landbrh. en ég tel að það ætti að vera í verkahring umhvrh.

Það er gott að bændum skuli gefinn kostur á að koma inn í þetta mikla starf. Ætli menn sér að þekja 10% landsins skógi á næstu 100 árum þá þarf margar hendur til að vinna það verk. Ég tel að það sé alls ekki úr vegi að ríkið styðji við bakið á þeim sem eru tilbúnir til að taka það að sér. Eins og ég sagði áðan mun það auka gæði landsins og bændur auka verðmæti lands síns með því að taka þátt í þessu starfi. Ég tel að þetta verkefni nýtist allri þjóðinni þegar fram í sækir og sé þjóðþrifamál.

Mér þykir hins vegar, og kem þar enn inn á gagnrýni mína, að verkefnið ætti að vera í verkahring umhvrh. Það er leiðinlegt að geta ekki fjallað um þetta í umhvn. þó sennilega hefði gefist lítill tími til þess þrátt fyrir allt. Þó svo frv. hefði verið vísað til umhvn. þá er það sem lifir af þessu þingi ekki mikið. Ég vil hins vegar skógræktinni allt hið besta og vona að þetta verði til að auka veg hennar og virðingu.