Skógrækt og skógvernd

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 16:54:57 (3954)

1999-02-19 16:54:57# 123. lþ. 70.12 fundur 483. mál: #A skógrækt og skógvernd# frv., 484. mál: #A landshlutabundin skógræktarverkefni# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[16:54]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það mun vafalaust líða einhver tími áður en við höfum gróðurvernd ríkisins sem stofnun sem haldi á mati og eftirliti, vöktun varðandi þennan undirstöðuþátt í landinu, undirstöðuna undir gróðurríki landsins. Ég held að rökin séu það skýr og ljós að það hljóti að koma að því að menn hverfi að því ráði að sameina þetta. Við sjáum það m.a. úr því frv. sem við förum væntanlega að ræða hér á eftir, frv. til laga um náttúruvernd, hversu veik fótfestan er hjá Náttúruvernd ríkisins í tengslum við þessi mál. Það segi ég vegna þess að hæstv. ráðherra var að vísa til þess að þær stofnanir geti sinnt því eftirlitshlutverki eða tryggt það að þannig sé farið með landið að það bíði ekki tjón af. En það er ekki hollt að þessir þættir séu undir sama stjórnvaldi, það er ekki hollt fyrir neinn og staðan í landinu varðandi jarðveg og gróður og að sumu leyti meðferð landgræðslumála ber þess því miður merki.

Það er mikill áhugi hjá þjóðinni á þessum málum og því rík ástæða til að skipa þeim svo vel fari, einnig með tilliti til þess að fjármunir nýtist vel og sá árangur náist sem ágreiningur ætti ekki að vera um að keppa að.