Náttúruvernd

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 17:32:52 (3966)

1999-02-19 17:32:52# 123. lþ. 70.15 fundur 528. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[17:32]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu að hér höfum við loks í höndunum fullbúið frv. til laga um náttúruvernd. Um leið hlýt ég harma og gera athugasemd við hve seint það er fram komið. Það er ekki skemmtilegt að þurfa að tönnlast á þessu atriði aftur og aftur hér í þingsölum. Það er hvorki skemmtilegt né líklegt til frjórra umræðna en því miður óhjákvæmilegt vegna þess að hér er um svo mikilvægt mál að ræða. Alla þá tíð sem ég hef starfað á hv. Alþingi hefur þessi þáttur þingstarfanna valdið okkur angri og óþægindum, þ.e. seinlæti hæstv. ráðherra við að koma til þingsins stórum og mikilvægum málum sem þurfa og verðskulda ítarlega og vandaða umfjöllun í nefnd.

Þingið hefur ítrekað reynt að taka á þessum vanda, setja reglur um síðustu forvörð við framlagningu mála og þar fram eftir götum. Auðvitað þarf alltaf varnagla til að skapa svigrúm og blessaðir hæstv. ráðherrar eru duglegir að nota sér þá varnagla.

Eins og okkur er öllum ljóst eru nú aðeins örfáir dagar eftir af þessu þingi samkvæmt starfsáætlun en við erum fyrst núna að fá þetta mikilvæga mál til umfjöllunar. Ég get ekki annað en harmað það og gagnrýnt vegna þess að ég og fjölmargir aðrir höfðum vonast til og beðið eftir að sett yrði ný löggjöf um náttúruvernd á þessu kjörtímabili, eins og heitið hafði verið.

Ég sat í þeirri ágætu nefnd sem undirbjó þetta frv., eins og fram kemur í grg. Það var vissulega bæði fróðlegt og skemmtilegt starf sem stóð með nokkrum hvíldum í heil tvö ár. Eins og nærri má geta voru skoðanir skiptar um mörg atriði í þessu starfi og formanni auðvitað mikill vandi á höndum að miðla málum og ná þokkalegu samkomulagi um endanlega niðurstöðu. Því má ljóst vera að í þessu frv. er um nokkra málamiðlun að ræða og í sumum tilvikum er ekki einu sinni hægt að tala um málamiðlun heldur urðu einstakir nefndarmenn í algjörum minni hluta með afstöðu sína eins og gengur. Þannig eru einstakar greinar frv. þess eðlis að a.m.k. sú sem hér stendur er hreinlega andvíg þeim. Sjálfsagt má einnig segja hið sama um aðra nefndarmenn, að þeir hafi verið ósáttir við einstakar greinar frv.

Sum þessara atriða voru til umfjöllunar fyrir þremur árum þegar stjórnskipulagsþáttur náttúruverndarlaganna var til meðferðar í þinginu. Þá skiluðum við hv. þm. Hjörleifur Guttormsson séráliti með miklum athugasemdum sem ég hafði að sjálfsögðu sem veganesti í vinnu nefndarinnar sem undirbjó frv. sem við ræðum nú. Rétt er þó að taka strax fram að ég tel þetta frv. horfa til verulegra framfara í málefnum náttúruverndar og til að gera almenningi auðveldara að fara um landið og njóta náttúrunnar. Ég mun nota þann tíma sem ég hef til þess að fara yfir örfá atriði frv. og gera grein fyrir því sem ég tel að megi vera öðruvísi og betra. Skylt er að geta þess að mörg atriði sem ég benti á og lagði áherslu á í þessu mikla starfi voru tekin til greina. Ég ætla ekki að fara að tefja tímann með því að fara yfir þau. Ég ætla að reyna að fara yfir þessi atriði í réttri röð, þ.e. eftir númerum frumvarpsgreinanna, en það er ekki endilega eftir mikilvægi þessara atriða því að hér er vitanlega um misjafnlega þungvæg atriði að ræða.

Fyrst er til að taka 1. gr., um markmið þessara laga. Á síðustu stigum nefndarstarfsins var þeim lokaorðum greinarinnar bætt aftan við í 3. mgr., að lögin skuli stuðla að nýtingu auðlinda á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Mér finnst þessi hluti málsgreinarinnar orka tvímælis. Þótt ég sé auðvitað sammála því að nýting auðlinda eigi að vera á grundvelli sjálfbærrar þróunar þá finnst mér ekki endilega að þetta eigi heima í lögum um náttúruvernd. Þessi lagasetning snýst um náttúruvernd og að hluta um nýtingu, um hvernig skuli njóta landsins, fara um það og um efnistöku o.fl. Í því samhengi hljótum við að spyrja um sjálfbæra þróun, þ.e. í sambandi við efnistöku. Fyrst og fremst fannst mér skorta á að þetta atriði væri fullrætt í nefndinni. Ég vil beina því til hv. umhvn., ef hún hefur á annað borð tíma til að fara yfir þetta mál, að þetta verði rætt vel í nefndinni.

Ég vil aðeins nefna 3. gr., þar sem fjallað er um skilgreiningar. Á ákveðnu stigi nefndarstarfsins var til umræðu að skilgreina orðið ,,hálendi`` sem er reyndar notað sums staðar í þessu frv. Í 16. gr. þess ef ég man rétt, þar sem fjallað er um umferð ríðandi manna. Hins vegar er eitthvað misjafnt hvernig menn vilja skilgreina orðið hálendi. Talað hefur verið um að hálendið væri land, um 400 m yfir sjó, og mér fyndist gott að hafa slíka skilgreiningu inni í þessari skilgreiningargrein, þ.e. 3. gr. frv.

Ég vil einnig nefna að ég vakti máls á því hvort ekki væri rétt að hafa í greininni skilgreiningu orðanna ,,friðun`` og ,,vernd``. Þá er ég að vísa til orða í markmiðsgrein laganna þar sem m.a. er fjallað um verndun og víða í frv. um friðun. Eins og við flest skiljum þessi orð hefði ég a.m.k. talið ágætt að fram kæmi að með vernd sé leitast við að tryggja óbreytt ástand, en með friðun sé leitast við að tryggja þróun náttúrunnar eftir eigin lögmálum. En það varð ekki niðurstaða í þessu máli.

Í 4. og 5. gr. er fjallað um stjórn þessara mála. Við þekkjum að hart var um það deilt fyrir þremur árum þegar breytt var lögum um náttúruvernd og tekið á skipulagsþættinum. Nú er breytt talsvert um stíl frá þeim tíma. Í 4. gr. er m.a. fjallað um mótun stefnu í náttúruvernd. Þar eru nefnd til sögunnar fræðsluyfirvöld, samkvæmt því sem ég lagði til, en einnig er stefnt að því að við mótun stefnu í náttúruvernd og framkvæmdir og fræðslu á því sviði skuli ráðherra hafa samráð við Náttúruvernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Hafrannsóknastofnunina, Orkustofnun, Náttúruverndarráð, Skipulagsstofnun, Ferðamálaráð, fræðsluyfirvöld, bændur og aðra landnotendur, sveitarstjórnir og samtök áhugamanna um náttúruvernd og útivist eftir því sem við á hverju sinni.

Þarna hefði ég talið ástæðu til að fara betur í málið. Ég spyr mig hvers vegna Orkustofnun eigi að vera þarna, hagsmunaaðilar eins og Orkustofnun og Ferðamálaráð. Sömuleiðis spyr ég hvort bændur og aðrir landnotendur eigi að vera í þessum hópi, hvort sveitarstjórnir geti ekki séð um þann þátt málsins. Það ætti að duga í þessu tilliti. Þetta eru allt saman atriði sem þarf að fara yfir.

Í 5. gr. er heldur betur nýmæli því að nú er lögð niður sú stjórn sem var sett á stofn við lagasetninguna árið 1996. Út af fyrir sig harma ég það ekki. Ég studdi að þetta yrði frekar gert á þann máta þar sem stjórnin var mjög einkennilega skipuð, eins og menn kannski muna. Samgrh. var t.d. blandað inn í það mál þannig að ég held að þetta sé skárra eins það er hér. Ég vil þó nefna að með skipun forstjóra eru sett þau skilyrði að hann skuli hafa háskólamenntun og sérþekkingu sem nýtist honum í starfi. Ég lagði til að þarna stæði: ,,Hann skal hafa þekkingu á sviði náttúrufræða og stjórnunar.`` Ég tel mikilvægt að hugað sé að því að þeir sem stjórna á sviði náttúruverndar hafi þekkingu á sviði náttúrufræða. Það er ekki nóg að tiltaka orðið ,,háskólamenntun`` í þessu samhengi.

Tímans vegna þori ég ekki að fjalla mikið meira um þetta þó ástæða væri til þess. Í næstu grein er fjallað um hlutverk Náttúruverndar ríkisins. Náttúruvernd ríkisins er ekki ætlað neitt smáhlutverk. Ég óttast að ekki sé skilningur á hversu mikil verkefni og stórt hlutverk Náttúruvernd ríkisins er ætlað að hafa með höndum, m.a. með tilvísun til umsagnar fjmrn. um frv. til laga um náttúruvernd. Ég bið hv. þingmenn að kynna sér niðurstöðu fjmrn. í umsögn þeirra og velta fyrir sér hversu skilningsrík hún er en í lokaorðum stendur:

,,Alls er talið að útgjöld aukist til jafnaðar um nálægt 2--3 millj. kr. á ári verði frumvarpið að lögum en á móti fellur niður 1,5 millj. kr. kostnaður við stjórn Náttúruverndar ríkisins. ``

Kostnaðarauki er ein og hálf milljón. Það leiðir kannski hugann að því að svo virðist sem fjmrn. telji að fjármögnun þeirra verkefna sem Náttúruvernd ríkisins hefur með höndum sé í góðu horfi. Ef menn muna þá umræðu sem hér fór fram í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár þá voru þau verkefni sem Náttúruvernd ríkisins hefur með höndum og telur ólokið það mörg að hún telur sig þurfa um 160 millj. kr. til þess að geta farið í þau.

[17:45]

Í 8. gr. er fjallað um Náttúruverndarráð og ég er mjög ósátt við hvernig Náttúruverndarráð er skipað. Ég hefði talið að það væri miklu nær að náttúruverndarþing hefði meira vægi í því sambandi og lagði það til að umhvrh. skipaði aðeins þrjá þeirra níu manna sem eiga að skipa Náttúruverndarráð, einn að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands, einn að fenginni tillögu Skipulagsstofnunar og einn án tilnefningar, en sex yrðu kosnir á náttúruverndarþingi. Ég held að ég þurfi ekki að rökstyðja það miklu meira, en því miður held ég að ljóst sé að Náttúruverndarráð er í rauninni bitlítið tæki vegna fjárskorts og skilningsleysis á því hlutverki sem það ætti að gegna, og væri hægt að fara um það mörgum orðum.

Þá ætla ég að fara yfir í 12. gr. Sú grein fjallar um réttindi og skyldur almennings. Og þar stendur, sem er harla gott auðvitað:

,,Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi.

Öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt.``

Við þessa grein lagði ég það til að við bættist 3. mgr., t.d. svohljóðandi:

Í umgengni um náttúruverndarsvæði er öllum skylt að lúta þeim reglum sem þar gilda.

Ég var mjög ósátt við það að því skyldi hafnað í starfi nefndarinnar að árétta sérstöðu náttúruverndarsvæða og sérákvæða um þau. Ég benti á að víða er vísað til réttar landeigenda og þá fannst mér jafneðlilegt að minna á rétt og hag náttúrunnar. Núgildandi lög um náttúruvernd hafa sannarlega verið gagnrýnd fyrir lítinn almannarétt en það er kannski óþarfi að fara öfganna á milli og leyfa allt, líka á náttúruverndarsvæðum þar sem búið er að leggja mikla vinnu í að móta reglur. Ef þetta frv. verður að lögum, þá eru í 16. gr. ákvæði sem leyfa m.a. að slá upp hólfum fyrir hesta. Leyfður er akstur utan vega á snjó í 17. gr., tjöldun utan tjaldsvæða í 20. gr., tínsla grasa og fjörugróðurs í 24. og 25. gr. og e.t.v. fleiri atriði. En við skulum athuga það að reglur friðlýstra svæða eru aðeins reglugerðir og þær banna sum þessara atriða og sums staðar öll þessi atriði. Þá hlýt ég að spyrja hvort reglugerðirnar geti hnekkt þeim leyfum sem þessi lög veita.

Samkvæmt 19. gr. getur Náttúruvernd tímabundið takmarkað umferð í óbyggðum og síðan á stofnunin að hafa umsjón með náttúruverndarsvæðum. Og þá er spurningin sú hvort stofnunin getur í krafti þessara lagagreina hnekkt öllum þeim leyfum sem aðrar greinar sömu laga veita. Ég veit það ekki. Mér hefði fundist eðlilegt að hafa inni málsgrein eins og ég var að lesa hér áðan til þess að hnykkja á því að vitanlega þarf sérreglur yfir sum náttúruverndarsvæði og það verður að tryggja að þeim sé fylgt en að ekki sé hægt að vísa í almenn lög og segja að þarna sé eitthvað sem fremur beri að virða.

Það er ýmislegt fleira sem ástæða væri til að fjalla um, t.d. í sambandi við greinina um akstur utan vega, hvort þar sé nægilega tekið á málum. Og ég ætla að fara örfáum orðum um 20. gr. frv. þar sem fjallað er um hefðbundin viðlegutjöld. Þarna tel ég reyndar enn verið að fara öfganna á milli. Það þekkist örugglega óvíða að ferðamenn geti tjaldað nákvæmlega hvar sem er. Það er auðvitað æskilegt að göngufólk geti tjaldað sem víðast en þeir sem ferðast um á bílum ættu að tjalda á skipulögðum tjaldsvæðum. Ef þetta verður eins og þessi grein kveður á um þá er hætt við því að fallegir hvammar og falleg svæði nálægt vegi um allt land verði fljótt útvaðin og hætt við að margir mundu misnota þetta leyfi, t.d. sumir sjóræningjahóparnir sem hingað koma með ferðahópa. Og svo má spyrja: Hvað eru hefðbundin viðlegutjöld? Það er mjög algengt að slík tjöld séu fimm manna og þau geta sjálfsagt verið sjö manna. Hér er verið að tala um að tjalda megi utan hefðbundinna svæða eða á óræktuðu landi án sérstaks leyfis, ef tjöldin eru ekki fleiri en þrjú. Ef notuð eru slík hefðbundin viðlegutjöld, sem kannski eru fimm eða sjö manna, þá eru þarna allt upp í 5--20 manna hópar sem gætu þá ferðast um landið og tjaldað alltaf utan tjaldsvæða þar sem engin hreinlætisaðstaða er. Spurningin er hvort það sé á þennan hátt sem við viljum að þetta gangi fram. Það er dálítið hallærislegt og sýnir kannski verðmætamatið að samkvæmt þessari grein þarf leyfi til að tjalda á ræktuðu landi, en ekki t.d. á verðmætu og viðkvæmu náttúrusvæði. Spjöll sem unnin eru með tjöldun á ræktuðu landi er þó auðvelt að laga en það á sannarlega ekki við um skemmdir á náttúrulegu landi, það er miklu viðkvæmara og skemmdir geta verið óbætanlegar.

Ég sé að tími minn er að verða búinn þannig að ég kemst greinilega ekki yfir helminginn af því sem ég hefði gjarnan viljað nefna. Ég vil þó nefna 32. gr. þar sem fjallað er um gjaldtökuna. Við tókumst á um þetta atriði við umfjöllun um frv. til náttúruverndarlaga fyrir tveimur eða þremur árum og ég er enn sama sinnis. Ég mótmælti því harðlega í nefndarstörfunum að hægt væri að taka gjald fyrir aðgang að svæðum og hef ekki skipt um skoðun í því efni.