Almannatryggingar

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 18:58:32 (3971)

1999-02-19 18:58:32# 123. lþ. 70.8 fundur 520. mál: #A almannatryggingar# (örorkumat) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[18:58]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hér er lagt fram frv. til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum, er varðar nýja tilhögun á fyrirkomulagi örorkumats. Frv. var fyrst flutt á Alþingi þann 17. des. sl. þar sem það var hluti af öðru stærra frv. sem tók einnig til breyttra frítekjumarka lífeyrisþega gagnvart tekjutryggingu. Það varð að samkomulagi þá að bíða með afgreiðslu þessa hluta frv. þar til nú.

Breytingarnar í þessu frv. lúta í heild sinni að einu markmiði, þ.e. að gefa öryrkjum verulega aukið svigrúm til eigin tekjuöflunar án þess að önnur réttindi öryrkjans skerðist með tilliti til örorkumats hans. Breytingarnar sem upphaflega frv. fól í sér voru í stórum dráttum af tvennum toga. Annars vegar er um að ræða breyttar forsendur og aðra aðferðafræði í sambandi við örorkumat sem kemur nú fram í þessu frv. og hins vegar verulegar breytingar á frítekjumörkum tekjutryggingar. Þannig valda tekjur annars vegar ekki lengur skerðingu á réttindum örorkulífeyrisþegans og hins vegar verður skerðing á bótum vegna tekna maka og lífeyrisþegans sjálfs miklum mun minni en áður hefur verið. Þetta síðarnefnda atriði, sem gert var að lögum fyrir jól, á við alla öryrkja en það á einnig við um hjón og sambúðaraðila meðal ellilífeyrisþega.

Breytt örorkumat er grundvallarbreyting sem á eftir að koma öryrkjum mjög til góða. Hér er um að ræða breytingu á skilgreiningu á örorku. Nú hafa tekjur áhrif á skilgreininguna. Þannig hafa einstaklingar lent í því að þegar þeir afla sér tekna með því að vinna hlutastöf eða létta vinnu, hugsanlega tímabundið, að örorkumatið hefur lækkað eingöngu vegna tekna. Þá hafa öryrkjar misst ýmis réttindi sem tengjast örorkuskírteini þeirra, svo sem afslátt af greiðslum til lækna og vegna þjálfunar, auk þess að missa réttindi sem sveitarfélög og jafnvel fyrirtæki veita þessum handhöfum örorkuskírteina.

[19:00]

Frumvarpið gerir ráð fyrir að örorka verði eingöngu metin út frá læknisfræðilegum forsendum og heilsufarslegu ástandi einstaklingsins. Segja má að með þessum breytingum sé verið að nýta sér þá læknisfræðilegu þekkingu sem í auknum mæli liggur nú fyrir bæði hér á landi og erlendis þannig að örorkumatið sé faglega unnið. Jafnframt er við breytinguna litið til þess hvað gert hefur verið í nágrannalöndunum. Loks má segja að afar merkilegt skref sé stigið með því að leggja aukna áherslu á endurhæfingu fyrir þá einstaklinga sem hafa af einhverjum ástæðum hlotið örorku.

Markmiðið er að falla frá beinni tekjuviðmiðun og beina sjónum að hinum læknisfræðilega þætti örorkunnar. Í þeim tilgangi mun læknadeild Tryggingastofnunar ríkisins semja nýja örorkustaðla á grundvelli afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar, sérstaklega með hliðsjón af alþjóðlega viðurkenndum stöðlum en einnig með tilliti til fenginnar reynslu hér á landi. Gert er ráð fyrir að hinn nýi staðall fái ítarlega opinbera kynningu sem mælikvarði sem lagður verður til grundvallar örorkumati.

Sérfræðingar Tryggingastofnunar ríkisins telja að framboð á starfrænni endurhæfingu, þ.e. endurhæfingu sem tekur mið af því að auka færni til vinnu, sé ófullnægjandi hér á landi og að þeirri starfrænu endurhæfingu sem í boði er sé beitt of seint fyrir viðkomandi einstakling. Eigi starfræn endurhæfing að skila tilætluðum árangri þarf að mati sérfræðinga að grípa til hennar sem fyrst eftir að viðkomandi einstaklingur verður óvinnufær.

Í frv. er gert ráð fyrir að tryggingayfirlæknir geti ákveðið að endurhæfing sé skilyrði örorkubóta. Með þessari breytingu er skapaður grundvöllur fyrir því að Tryggingastofnun ríkisins komi á fót sérhæfðu matsteymi til að meta þörf og möguleika einstaklinga á að ná aukinni færni með markvissri líkamlegri og starfrænni endurhæfingu mun fyrr en hingað til hefur tíðkast, eða fljótlega eftir að einstaklingur veikist eða verður fyrir slysi. Þá mun Tryggingastofnun leita samninga við endurhæfingarstofnanir um að veita þessum hópi fólks sérhæfða endurhæfingu með það að markmiði að taka á vandamálum þess mun fyrr en nú er gert þannig að unnt verði að koma í veg fyrir að viðkomandi verði óvinnufær til langframa.

Almannatryggingalöggjöf í Svíþjóð og Noregi hefur nýlega verið breytt í þessa veru. Með þessu vinnst tvennt sem verður að teljast horfa til framfara og jákvæðrar lífssýnar fyrir þá sem standa frammi fyrir því að verða e.t.v. öryrkjar. Einstaklingnum er hjálpað strax og möguleikar hans til endurhæfingar eru metnir og sköpuð er aðstaða til að framkvæma þá endurhæfingu. Fari hins vegar svo að ekki verði hjá því komist að viðkomandi einstaklingur verði metinn að lokinni endurhæfingu 75% öryrki á grundvelli læknisfræðilegs mats þá á hann ekki að þurfa að lenda í þeim hremmingum, þegar heilsan leyfir honum að sækja vinnu sér til búbótar og lífsfyllingar, að örorkumat hans falli niður við svo búið. Síðan þegar heilsan leyfir honum ekki að stunda vinnu sína óslitið áfram hefur það hingað til kostað hann ómælda fyrirhöfn að fá örorkumatið leiðrétt á nýjan leik.

Almannatryggingakerfið á að veita einstaklingum hjálp til sjálfshjálpar. Það er tilgangurinn með þessum breytingum.

Menn hafa eðlilega velt því fyrir sér hvernig breytingin hafi áhrif á þá sem hingað til hafa verið metnir öryrkjar fyrst og fremst á grundvelli svokallaðrar félagslegrar örorku. Um þetta er það að segja að sérstakt ákvæði til bráðabirgða í frv. gerir ráð fyrir því að hinar nýju forsendur til örorkumats hafi einungis áhrif gagnvart þeim sem metnir eru til örorku í fyrsta sinn eftir gildistöku laganna.

Þetta þýðir að ef sömu forsendur eru til staðar hjá einstaklingum sem koma til endurmats og voru grundvöllur fyrir upphaflegu örorkumati þá skal örorkumat ekki breytast frá því sem var þótt kominn sé nýr staðall. Núverandi öryrkjar þurfa því ekki að óttast að örorkumat þeirra breytist.

Sérfræðingar Tyggingastofnunar áætla að allur undirbúningur fyrir nýja örorkustaðla og kynning á þeim, svo og samningur við matsaðila og endurhæfingarstofnanir, taki nokkurn tíma. Af þeim ástæðum er ekki gert ráð fyrir því að lög um breytt örorkumat taki gildi fyrr en 15. apríl á þessu ári.

Kostnaður sem hlýst af því að koma ákvæðum þessa frv. til framkvæmda er á milli 40 og 50 millj. kr. en sá kostnaður stafar fyrst og fremst af samningum við endurhæfingarstofnanir og rekstur á nýju matsteymi. Þetta eru í raun gífurlegar breytingar á bóta- og kjarastöðu allra þeirra lífeyrisþega sem hingað til hafa orðið fyrir skerðingu á lífeyrisbótum og réttindum sem öryrkjar. Þetta er því mikið réttindamál fyrir öryrkja sem ég vona að fái skjóta og um leið vandaða meðferð hér á Alþingi.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að að umræðu lokinni verði frv. vísað til hv. heilbr.- og trn.