Almannatryggingar

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 19:26:12 (3974)

1999-02-19 19:26:12# 123. lþ. 70.8 fundur 520. mál: #A almannatryggingar# (örorkumat) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[19:26]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér aðeins upp til þess að taka undir þá spurningu sem hv. þm. varpaði fram um skýringu á orðunum ,,til langframa``. Mér láðist að geta þess í ræðu minni að hér er auðvitað um að ræða lykilorð í þessu frv. Hvað þýðir þetta?

Hæstv. ráðherra verður að skýra það fyrir okkur því að ef um einhvers konar nýja skilgreiningu á örorku er að ræða. Ef það eru einungis þeir sem talið er fullkomlega víst að muni ekki ná neins konar bata, umfram þetta hlutfall, sem eiga að njóta þeirrar ívilnunar sem þetta frv. hefur í för með sér, þá hlýtur það að fela í sér að einhverjir aðrir kunni að búa við skarðari hlut en áður þegar frv. er orðið að lögum.

Þess vegna held ég að áður en við getum lokið þessari umræðu sé alveg nauðsynlegt að hæstv. ráðherra greini skýrt og skilmerkilega frá því hvað í þessu felst og hvort þetta þýði breytingar á högum einhverra, sem hingað til hafa þurft að ganga undir endurtekið og reglulegt mat á þróun sinnar örorku.