Almannatryggingar

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 19:27:29 (3975)

1999-02-19 19:27:29# 123. lþ. 70.8 fundur 520. mál: #A almannatryggingar# (örorkumat) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[19:27]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá jákvæðu umræðu sem hefur orðið um þetta frv. Hv. formaður heilbr.- og trn. sagði áðan að málið væri seint fram komið en hafði samt áhuga fyrir því að drífa það í gegnum þingið. En ég vil nú minna á það að mælt var fyrir þessu frv. um miðjan desember en þá vildu menn í hv. stjórnarandstöðu fá betri tíma til að skoða málið og síðan hafa menn haft nokkurn tíma til þess. Nú liggur þetta mál fyrir og ég tel að það liggi skýrt fyrir.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði áðan að þetta væri áfellisdómur yfir þeirri endurhæfingu sem við hefðum í dag. Um leið og við erum að bæta þjónustu á einum stað þá erum við ekki að tala um áfellisdóm heldur erum við eingöngu að bæta þjónustuna. Við erum náttúrlega með mjög sterka endurhæfingu í landinu og ég get bent á margar stofnanir því til stuðnings. En það er talið einmitt af sérfræðingum í endurhæfingu að oft þurfi að grípa fyrr til aðgerða en gert er í dag. Og til þess að svo megi verða þarf að styrkja það teymi sem er gert ráð fyrir að verði til.

Það hefur verið rætt um að eins og þetta er í dag sé þetta vinnuletjandi kerfi, þ.e. að um leið og fólk hefur einhverjar tekjur þá eru allar ívilnanir tíndar af því. En það er einmitt þar sem við erum að koma til móts við þetta fólk. Og ég heyri að menn eru sammála því að það sé nauðsynlegt.

Hvað varðar endurhæfingarlífeyrinn þá eru menn ekki að missa hann ef frv. verður að lögum. Og varðandi endurhæfinguna sjálfa vil ég segja að endurhæfing, t.d. geðsjúkra, er ekkert síður mikilvæg en endurhæfing annarra sjúklinga. Af því að hv. þm. talaði sérstaklega um það áðan að t.d. geðklofasjúklingar ættu ekki heima í þessu endurhæfingarteymi, þá tel ég það vera.

Varðandi þau atriði sem fram komu hjá hv. þm. Katrínu Fjeldsted og hv. formanni heilbr.- og trn. um hvað orðalagið ,,til langframa`` þýði, örorka til langframa, þá er þetta óbreytt orðalag frá núgildandi lögum, algjörlega óbreytt orðalag. Og eins og kom fram hjá hv. þm. áðan eru margir einstaklingar metnir 75% öryrkjar um skamman tíma, en ná vegna sterkrar endurhæfingar síðan þeim bata að örorka þeirra minnkar sem betur fer.

Það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði um að hann kynni illa við orðfæri frv. og teldi það ekki fyrir sinn smekk, þá er það eitthvað sem ég tel að megi laga í hv. nefnd. Og hann spurði hversu margir þeir væru sem hefðu lífeyri, framfærslulífeyri, án þess að teljast læknisfræðilegir öryrkjar. Þær tölur höfum við ekki og við höfum ekki neinar sérstakar hugmyndir um þær. Við höfum eingöngu þær tölur sem Norðmenn og Svíar hafa stuðst við og frv. kemur í beinu framhaldi af reynslu nágrannaþjóða okkar.

Ég vona að ég hafi getað svarað þeim spurningum sem fram voru bornar og þetta mál fái hraða og örugga afgreiðslu í hv. nefnd, enda heyri ég að virðulegur formaður hefur áhuga á því.