Frestun undirritunar Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 10:40:31 (3992)

1999-02-25 10:40:31# 123. lþ. 72.91 fundur 287#B frestun undirritunar Kyoto-bókunarinnar# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[10:40]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Í fyrradag tók ríkisstjórn Íslands mjög stóra ákvörðun þess efnis að undirrita ekki hina svonefndu Kyoto-bókun við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna fyrir tilskilinn frest, 15. mars nk. Þetta er afar afdrifarík ákvörðun sem þarna er tekin og ég hefði talið eðlilegt og sjálfsagt að Alþingi Íslendinga væri gerð grein fyrir fyrirætlun ríkisstjórnarinnar í þessum efnum áður en ákvörðun var tekin af hennar hálfu.

Þetta mál hefur verið á döfinni lengi. Það hefur verið rætt í umhvn. þingsins þar sem ég á sæti og til þeirrar nefndar skilaði ég skýrslu um ársþing samningsaðila að loftslagssamningnum, ársþing sem haldið var í Buenos Aires í nóvember. Ég lagði þar inn skýrslu og ráðuneytistjóri umhvrn. kom á fund og svaraði fyrirspurnum og lofað var skýrslu til nefndarinnar um málið. Gengið hefur verið eftir því ítrekað í nefndinni, síðast af minni hálfu daginn áður en frétt barst um þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar, en ekkert hefur borist skriflegt til umhvn.

Fyrir nefndinni liggur tillaga frá hv. þm. Ágústi Einarssyni og fleirum um að skora á ríkisstjórnina að undirrita þessa bókun. Nefndin óskaði eftir umsögn utanrmn. um þessa tillögu 10. desember, bréfleg ósk. Ekkert svar hefur borist til umhvn. um málið og mér er tjáð að utanrmn. hafi ekki haft þetta mál á dagskrá á þessu þingi fyrr en í gærkvöldi. Ég tel, virðulegur forseti, að þetta sé ekki samboðið í samskiptum ríkisstjórnar og þings og hlýt að gagnrýna þetta harðlega hvernig komið er fram við Alþingi Íslendinga í svo stóru og afdrifaríku máli.