Frestun undirritunar Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 10:43:05 (3993)

1999-02-25 10:43:05# 123. lþ. 72.91 fundur 287#B frestun undirritunar Kyoto-bókunarinnar# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[10:43]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem kom fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Það er rétt sem hann segir að legið hefur í umhvn. tillaga frá hv. þm. Ágúst Einarssyni og fleirum, þar sem einfaldlega er farið fram á að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að undirrita nú þegar fyrir Íslands hönd Kyoto-bókunina við samning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Við höfum tekið þessa tillögu fyrir á fundum nefndarinnar og ég fór fram á að ráðuneytisstjóri umhvrn. skilaði okkur skýrslu um störf sendinefndar í Buenos Aires. Því var lofað og sagt að skýrsla þessi væri rétt handan við hornið. Hún kæmi innan örfárra daga. Þetta var rétt eftir að ráðstefnunni í Buenos Aires lauk. Síðan hefur ekkert heyrst frá ráðuneytisstjóranum og engin skýrsla borist og mér er kunnugt um að formaður umhvn. hefur ítrekað rekið á eftir því að nefndin fái þessa skýrslu til að við gætum þá tekið málið fyrir aftur út frá þeim forsendum sem þar kæmu fram.

Nýjustu upplýsingar sem ég hef eru þær að ráðuneytisstjórinn hafi óskað eftir því að við sendum inn spurningalista þar sem ekki sé um ítarlega skýrslu að ræða heldur verði um að ræða svör við ákveðnum spurningum sem nefndarmenn setji fram. Þetta eru auðvitað ólíðandi vinnubrögð. Einn hv. þm. sagði fyrir örstuttu síðan að mál í landbrn. færu þar í gegn með hraða snigilsins en ég efast um að hægt sé að finna það kvikindi sem fer jafnhægt og málin í umhvrn.