Frestun undirritunar Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 10:53:06 (3999)

1999-02-25 10:53:06# 123. lþ. 72.91 fundur 287#B frestun undirritunar Kyoto-bókunarinnar# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[10:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér þóttu ummæli hæstv. utanrrh. áðan athyglisverð. Er nokkur misskilningur í gangi um það að á Íslandi sitji þingbundin ríkisstjórn? Hæstv. utanrrh. tók svo til orða að ríkisstjórnin réði því hvort samningur af þessu tagi væri undirritaður (Utanrrh.: Ekki samningur.) eða bókun eða hvað það nú er, eins og það væri í sjálfstæðu valdi ríkisstjórnar og það vald yrði ekki af henni tekið.

Staðreyndin er sú að þingbundin ríkisstjórn situr í landinu og að Alþingi ræður. Alþingi getur ákveðið það með samþykkt hvort þarna verður um undirritun að ræða eða ekki og það eru mörg fordæmi fyrir því frá fyrri tíð að Alþingi hafi sagt framkvæmdarvaldinu fyrir verkum. Nærtækt er að vitna til þess þegar Alþingi ákvað 1983 að tímabundnu hvalveiðibanni í Alþjóðahvalveiðiráðinu yrði ekki mótmælt. Það var Alþingi sem ákvað það. Ég held að hæstv. ráðherra verði að hafa það í huga að Alþingi getur hvenær sem er tekið ákvörðun af þessu tagi og sagt framkvæmdarvaldinu fyrir verkum. Það er þannig. Í landinu situr þingbundin ríkisstjórn.

Í öðru lagi er það svo, herra forseti, að Alþingi hefur enn tíma til að móta stefnuna í þessu máli ef svo ber undir. Ég man ekki betur en frestur sé til 15. mars. Þar af leiðandi höfum við út af fyrir sig nægan tíma til að taka þessa tillögu til afgreiðslu eða ganga formlega frá afstöðu Alþingis á annan hátt, og þá ræður Alþingi en ekki hæstv. utanrrh.

Herra forseti. Í 24. gr. laga um þingsköp hvílir lögbundin skylda á ríkisstjórn Íslands að bera meiri háttar utanríkismál undir utanrmn. Þeirri skyldu sinni hefur ríkisstjórnin augljóslega brugðist í þessu máli. Það segir, með leyfi forseta:

,,Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum.``

Og ætlar einhver að reyna að halda því fram að ekki sé um meiri háttar utanríkismál að ræða hvort undirritun verður af Íslands hálfu eða ekki?