Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 11:53:44 (4007)

1999-02-25 11:53:44# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[11:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af þeirri gagnrýni sem hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, í sambandi við Kyoto-bókunina, þá finnst mér vera rétt að skipta þessu máli í tvennt. Annars vegar er spurningin um það hvort menn vilja reyna að ná fram hinu sérstaka íslenska ákvæði. Ég hef skilið talsmenn stjórnarandstöðunnar þannig að þeir séu á móti því. Þeir séu þar af leiðandi tilbúnir til að loka einhverjum af þeim verksmiðjum sem við höfum þegar byggt upp og þeir séu líka tilbúnir til að hætta við uppbyggingu sem fyrirhuguð er. Þar með séu þeir tilbúnir til að lækka lífskjör á Íslandi verulega, skera niður velferðarkerfið, lækka laun landsmanna og annað sem því fylgir. Þessu verða menn að svara. Ef þetta er afstaðan, gott og vel. Þá er það afstaða út af fyrir sig.

Síðan kemur gagnrýnispunktur númer tvö, að ef við ætlum að ná fram íslenska ákvæðinu, sem mér skilst að hv. þm. sé á móti, gott og vel, þá hefur hv. þm. þá skoðun að fyrst við ætlum að reyna að ná því fram sem hann telur vera vitlaust, þá förum við vitlaust í það. Ég er ekki sammála því. Við teljum að með því að fara svona í það séum við sjálfum okkur samkvæmir. Það liggur fyrir að íslenska ákvæðið er ekki hluti af Kyoto-bókuninni eins og hún liggur núna fyrir. Með því að undirrita núna værum við að lýsa því yfir að við værum e.t.v. tilbúnir til að gerast aðilar að henni seinna án þess að litið væri frekar á íslenska ákvæðið, sem mér skilst að hv. þm. vilji. Þetta er mat okkar á stöðunni. Þetta er góður málstaður að berjast fyrir. Ég er stoltur af því að berjast fyrir slíkum málstað. Ég heyri á hv. þm. að hann vill ekki berjast fyrir þeim málstað en ég tel það skipta grundvallarmáli fyrir framtíð þess samfélags sem við lifum í og þar með framtíð unga fólksins sem við erum að tala um.