Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 11:56:00 (4008)

1999-02-25 11:56:00# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[11:56]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er grundvallarmisskilningur í máli og stefnu hæstv. utanrrh. um afstöðu hans til nýtingu endurnýjanlegra orkulinda á Íslandi. Það er ekkert sem segir að jafnvel þótt við undirrituðum Kyoto-bókunina, þá gætum við ekki nýtt þessar orkulindir áfram. Hæstv. ráðherra og flokkur hans hefur meira að segja haft frumkvæði að því að benda á ákveðna leið til að búa til mengunarlaust eldsneyti. Ef það tækist mundi það að sjálfsögðu skapa okkur gríðarlegt svigrúm á Íslandi, en það kostar líka orku. Hvar á að fá þá orku, herra forseti? Hvar ætlar hæstv. utanrrh. að fá orkuna til að standa undir því að gera Ísland að fyrirmyndarsamfélagi sem byggðist á mengunarlausu eldsneyti, ef hann er búinn að binda allar orkulindir landsins við málmbræðslur? Hvar ætlar hann að fá hana?

Það sem hæstv. utanrrh. hefur vanrækt í samningaferlinu er að beita sér fyrir því að komið verði upp kerfi þar sem hægt yrði að kaupa og selja kvóta. Vegna þess að ef það væri þannig, en það hefur Ísland ekki stutt, hæstv. utanrrh. hefur ekki stutt það í samningaferlinu til þessa, þá væru forsendur fyrir stóriðju þær einar hér á landi að fyrirtæki eins og Norsk Hydro, sem er eftirlætisfyrirtæki hæstv. utanrrh., yrðu að kaupa slíkan kvóta. Það er alveg morgunljóst.

Að því er varðar ágreining minn og hæstv. utanrrh. um samningatæknina, þá er það rétt hjá hæstv. ráðherra að ég er ekki sammála rökstuðningnum á bak við markmiðið. Ég tel að aðferðin sem hæstv. ráðherra fer til að ná fram markmiði sínu sé röng, hún sé ekki til þess fallin að ná þessari niðurstöðu. Ég held að við hefðum átt að fara, eins og ég sagði áðan, í góðri trú og sýna okkar pólitísku stefnu í verki með því að undirrita bókunina og í krafti þess reyna að vinna velvild og skilning á þessu sem hæstv. ráðherra kallar sérstöðu, en önnur ríki tala um á þann hátt að við séum að reyna að skapa okkur samkeppnisforskot sem þau geti ekki fallist á.