Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 12:03:38 (4012)

1999-02-25 12:03:38# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[12:03]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þm. er örugglega kunnugt um skiptir ekki meginmáli ákvæðið um bindingu CO2 í gegnum skóg og gróðurrækt. Samkvæmt skýrslunni sem ég vitnaði áðan í kom það fram að það mun kosta u.þ.b. hálfan milljarð að binda 100 þúsund tonn þannig að dýr mundi Hafliði allur ef við ætluðum að fara þá leið og ætli við þyrftum þá ekki talsvert meira af landi undir slíkt.

Svar mitt við þessari spurningu er jákvætt. Ég er reiðubúinn að undirrita bókunina og hefði gert það ef ég hefði haft pólitískt afl til fyrir 15. mars. Ég tel að Íslendingar geti siðferðilega ekki skotið sér undan því að vera þátttakendur í þessu fremur en aðrar þjóðir. Þrátt fyrir þau þrjú atriði sem hv. þm. gat áðan um tel ég að það muni nást nægilega farsæl niðurstaða varðandi það.

Þrátt fyrir það er ég eigi að síður þeirrar skoðunar að þetta mál yfirskyggi svo önnur vandamál heimsins að við eigum að vera þátttakendur í þessu. Það er alveg ljóst að loftslagsbreytingarnar sem eru að verða, sem er ekki deilt um, af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda eru að valda meiri umhverfisspjöllum en nokkru sinni hefur gerst á sögulegum tíma. Ef verstu spár ganga eftir veit hv. þm. hvað mun henda Ísland.

En jafnvel þó að þær gangi ekki eftir, jafnvel þó aðeins það gerist sem til að mynda breska veðurstofan hefur spáð og menn hafa ekki verið að fetta fingur út í er alveg ljóst að þessi þróun getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir Ísland. Sem ábyrgur stjórnmálamaður verð ég að vega þetta og meta og svar mitt er játandi. Ég hafna því að undirritun á þessari bókun geti t.d. komið í veg fyrir að við getum áfram nýtt okkar endurnýjanlegu orkulindir farsællega.

Hæstv. utanrrh. veður algjörlega villur á því sviðið og ég harma það ef hv. þm. Árni M. Mathiesen er á sama báti og hæstv. utanrrh. Ég hafði vænst þess að hv. þm. hefði snöggtum meiri skilning á þessu máli en öll ríkisstjórnin samanlögð.