Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 12:45:41 (4019)

1999-02-25 12:45:41# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[12:45]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera að hv. þm. hafi sérstök efni á því að hvetja aðra í kringum sig til þess að opna glugga. Hann er að segja að það séu engir sem opni glugga nema hann. Þar sé víðsýnin í þessum málum og átaldi mig fyrir að telja upp þessar stofnanir. Ég skil hv. þm. þannig að hann vilji helst hafa sem minnsta samvinnu við þessar stofnanir sem ég nefndi, og bað mig um að koma við í Washington og New York og líta þar inn í bókabúð. Ég veit alveg hvar bókabúðir er að finna í þessum borgum og þarf ekki hv. þm. til þess að ráðleggja mér um það. Ég tek ekki allar þær bækur sem ég kaupi með mér upp í ræðustól þannig að mér finnst þetta vera dálítið út í hött hjá hv. þm.

Auðvitað verðum við að endurbæta þessar stofnanir og hvaða leið er önnur til en að standa vörð um þessar mikilvægu stofnanir hins alþjóðlega samfélags. Ég spyr hv. þm.: Hvaða stofnanir aðrar eru það sem hann vill standa vörð um til þess að taka þátt í hinni fjölþjóðlegu samvinnu? Hann vitnaði í SIPRI sem er rannsóknastofnun, það eru til ýmsar góðar rannsóknastofnanir, en það er innan þessara stofnana sem við getum leyst hin hnattrænu vandamál. En vissulega þarf að endurbæta þær, það þarf að breyta þeim og Ísland ásamt öðrum þjóðum, m.a. Norðurlöndum, tekur mikinn þátt í því að marka þessum stofnunum nýja stefnu miðað við þau mörgu og flóknu hnattrænu vandamál sem við stöndum frammi fyrir. En við verðum jafnframt að hafa hagsmuni okkar í huga eins og allar aðrar þjóðir. Við getum ekki tekið þátt í þessu og litið algerlega fram hjá hagsmunum Íslands.