Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 12:50:44 (4021)

1999-02-25 12:50:44# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SP
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[12:50]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanrrh. fyrir ræðu hans. Fjölmörg mikilvæg málefni eru nú á dagskrá í utanríkis- og alþjóðamálum og gífurlegar breytingar hafa orðið á pólitískri skipan Evrópu undanfarinn áratug. Að mörgu leyti er nýtt alþjóðakerfi enn í mótun.

Sem formaður Íslandsdeildar Norður-Atlantshafsþingsins vil ég sérstaklega koma inn á fáein atriði sem snúa að Atlantshafsbandalaginu en skýrsla Norður-Atlantshafsþingsins fyrir árið 1998 er einmitt á dagskrá þingsins á eftir eins og skýrslur annarra alþjóðanefnda sem hér hafa verið lagðar fram.

Umræðutími minn er takmarkaður og þess vegna kýs ég að ræða NATO-málefni sérstaklega, en að gefnu tilefni vil ég þó taka fram að ég ber fullt traust til hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum og mér finnst ýmsar athugasemdir hv. þingmanna um þetta efni alveg út í hött.

Virðulegi forseti. Árið 1999 er mikið tímamótaár í sögu bandalagsins. Innan fárra vikna hljóta þrjú fyrrum aðildarríki Varsjárbandalagsins aðild að Atlantshafsbandalaginu sem jafnframt fagnar fimmtíu ára afmæli sínu. Rík ástæða er til að fagna þessum merku tímamótum.

Líkt og fjöldi ríkja Mið- og Austur-Evrópu hafa Pólland, Tékkland og Ungverjaland árum saman sótt það stíft að hljóta aðild að Atlantshafsbandalaginu. Téð ríki hafa talið slíka aðild öruggustu leiðina til tryggingar á öryggi sínu í breyttu alþjóðakerfi auk þess sem þau sækjast eftir hlutdeild í því nána pólitíska samstarfi sem á sér stað á meðal bandalagsríkjanna.

Þau hafa tekist á hendur mikið umbótastarf til þess að uppfylla kröfur Atlantshafsbandalagsins um lýðræðislegt stjórnarfar og almennan stöðugleika. Þannig hefur vonin um aðild að bandalaginu flýtt fyrir þróun lýðræðis, mannréttinda og markaðsbúskapar á svæðinu öllu og er það von mín að hægt verði að bjóða fleiri ríkjum aðild að bandalaginu von bráðar. Í því sambandi vil ég þó taka undir með hæstv. utanrrh. sem minnti í ræðu sinni á mikilvægi þess að ráðrúm gefist til að ljúka framkvæmd innri og ytri aðlögunar bandalagsins áður en til frekari stækkunar þess kemur.

Atlantshafsbandalaginu hefur á undanförnum árum tekist að aðlaga starf sitt að gerbreyttum verkefnum en auk þeirra ríkja sem sækjast eftir aðild að bandalaginu horfa ýmis fleiri ríki til þess í von um frið og stöðugleika. Til að bregðast við þessu hefur öryggismálastefna bandalagsins verið til endurskoðunar undanfarið ár, auk þess sem samstarf hefur jafnt og þétt verið aukið og bætt við ríki utan bandalagsins, þar með talin Rússland og Úkraína. Atlantshafstengslin og sameiginlegar varnarskuldbindingar verða þó áfram í fyrirrúmi líkt og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra. Ástandið á Balkanskaga hefur verið helsta ógnun við stöðugleika og frið í álfunni undanfarin ár. Þar hefur Atlantshafsbandalagið ítrekað reynst eina stofnunin sem hefur til þess burði að koma á friði og standa um hann vörð.

Það hefur ítrekað sannast að enn er full þörf á þátttöku Bandaríkjamanna í öryggismálum Evrópu. Atlantshafsbandalagið er því án nokkurs vafa mikilvægasta stofnunin í öryggismálum Evrópu. Veigamesta framlag Íslands til bandalagsins er fólgið í þeirri aðstöðu sem bandalaginu hefur verið látið í té á landinu. Með aðild Íslands að bandalaginu og þeirri aðstöðu sem því er látin í té hér á landi tryggjum við náið pólitískt samstarf við önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins um leið og við njótum góðs af sameiginlegum varnarskuldbindingum og leggjum okkar af mörkum til tryggingar friði og stöðugleika í álfunni.

Í ljósi alls þessa er með öllu óskiljanlegt að á Alþingi sé enn og aftur verið að leggja til að Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu og rifti tvíhliða varnarsamningnum við Bandaríkin. Á sama tíma og nær öll ríki álfunnar horfa til Atlantshafsbandalagsins til að tryggja öryggi sitt og álfunnar allrar kemur fram tillaga þess efnis að Ísland segi skilið við bandalagið. Sem betur fer er hér um minni hluta þingmanna að ræða, vonandi mjög lítinn minni hluta, en fróðlegt verður að sjá hvernig atkvæði þingmanna Samfylkingarinnar falla þegar umrædd þáltill. hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar verður borin upp til atkvæða. Það verður væntanlega fljótlega því hér var einmitt verið að dreifa nál. frá meiri hluta utanrmn. sem leggur til að þáltill. verði felld. Með leyfi virðulegs forseta langar mig til að vitna til þessa nál., en þar segir í lokin:

,,Íslendingar hafa mótað sína utanríkisstefnu og valið að stuðla að friði og öryggi í Evrópu með samstarfi við önnur lýðræðisríki innan NATO og þau fjölmörgu ríki sem vilja eiga samstarf við NATO-ríkin og sækjast eftir inngöngu í bandalagið. Skilaboð til samstarfsríkjanna og þeirra sem sótt hafa um NATO-aðild verða að vera skýr. Tillaga um úrsögn úr NATO grefur undan samstöðu og öryggismálum aðildarþjóða Norður-Atlantshafsbandalagsins. Því er mikilvægt að Alþingi taki afstöðu til efnis þessarar tillögu og þeirra markmiða með flutningi hennar sem sett eru fram í greinargerð. Þau markmið ganga gegn öryggishagsmunum Íslendinga og brjóta í bága við þá farsælu stefnu í utanríkismálum sem þjóðin hefur fylgt og tryggt hefur samstöðu okkar með aðildarþjóðum Norður-Atlantshafsbandalagsins.``

Ég held, virðulegi forseti, að þessi orð lýsi því vel hver er raunverulega hornsteinn utanríkisstefnu okkar Íslendinga.

Hættur 21. aldarinnar eru e.t.v. ekki jafnsýnilegar og járntjaldið sem áður skipti Evrópu. Engu að síður geta þær stefnt öryggi Íslendinga og annarra Evrópuþjóða í hættu. Má þar nefna svæðisbundin átök sem valdið geta óstöðugleika í álfunni allri, útbreiðslu gereyðingarvopna og eldflaugatækni, hryðjuverkastarfsemi og skipulagðrar glæpastarfsemi. Þörfin fyrir Atlantshafsbandalagið hefur reynst mikil undanfarin ár og ástæða er til að ætla að áfram verði þörf fyrir öflugt varnar- og öryggisbandalag Evrópu og Norður-Ameríku.

Ég hef áður sagt að friður án vopna sé fögur framtíðarsýn. Við getum öll látið okkur dreyma um slíka framtíð. En hingað til hefur slík stefna því miður ekki reynst raunsæ.

Í 50 ár hefur Ísland notið góðs af aðild sinni að Atlantshafsbandalaginu, mikilvægustu stofnunar evrópskra öryggismála, og Ísland mun halda áfram að njóta góðs af þeirri aðild um ókomin ár.